Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Engin kaup á kolefniskvóta áformuð hjá ríkinu þrátt fyrir fullyrðingar um slíkt
Fréttaskýring 28. ágúst 2018

Engin kaup á kolefniskvóta áformuð hjá ríkinu þrátt fyrir fullyrðingar um slíkt

Fullyrt hefur verið að Ísland þurfi að kaupa kolefniskvóta fyrir milljarða ef ekki náist að efna skilyrði Parísarsamkomulags og Kyoto sáttmálans í tæka tíð. Þessi mál virðast þó fullkomlega í lausu lofti ef marka má nýlegt svar umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Bændablaðsins. Samt er ljóst að margir hugsa sér gott til glóðarinnar í sérkennilegum viðskiptum með mjög svo huglæga kolefniskvóta í framtíðinni.  
 
Athygli hefur vakið sala íslenskra orkufyrirtækja á hreinleikavottorðum til erlendra orkuvera sem reka sína starfsemi á brennslu jarðefnaeldsneytis. Bændablaðið vakti fyrst athygli á þessu máli sumarið 2015 og aftur núna. Vegna sölu þessara vottorða eiga Íslendingar á pappírunum ekki lengur nema 13% hreina orku úr endurnýjanlegum auðlindum og þurfa í staðinn að taka á sig stimpil um gríðarlega kolefnislosun og geislavirka mengun. Virðist það vera algjörlega á skjön við hástemmd áform umhverfisyfirvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Vegna þessa er heldur varla lengur hægt að halda því fram kinnroðalaust að rafknúin farartæki á Íslandi aki um á hreinni orku.  
 
Kolefnisgjald á bifreiðar er einn angi þessa máls sem kemur hvað harðast niður á fólki á landsbyggðinni, m.a. vegna hækkunar á flutningsgjöldum. Gjaldið fer hins vegar beina leið í það sem sumir kalla botnlausa hít ríkissjóðs eins og verulegur hluti þeirra 70 til 80 milljarða króna sem teknir eru af umferðinni og renna ekki til að styrkja innviði samgöngukerfisins. Samt er ætlunin að hækka þetta gjald enn frekar. Þá er líka unnið að því í stjórnkerfinu að afnema allar eyrnamerkingar á sköttum og gjöldum á umferð. Í framhaldinu mun því enginn geta lengur gert kröfu um að skattar og gjöld af umferð renni til samgöngumála. 
 
Þetta er niðurstaða Orkustofnunar eftir að búið var að setja inn áhrifin af sölu hreinleikavottorða til erlendra orku- og iðnfyrirtækja sem nota kol, olíu, gas og kjarnorku í sinni orku. Einungis 13% íslensku raforkunnar er í opinberum gögnum sögð framleidd með endurnýjanlegri orku. 
 
Alið á ótta um kolefniskvótakaup fyrir milljarða
 
Mjög hefur verið alið á ótta um nauðsyn þess að íslenska ríkið neyðist til að fara út í kaup á kolefniskvóta fyrir milljarða króna ef ekki verði m.a. dregið snarlega úr notkun bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Einnig hefur verið vísað til þess að rafbílavæðing sé of hæg. Hefur það líka verið notað sem rök fyrir framgöngu nýs Votlendissjóðs sem hefur áform um að endurheimta votlendi með því að moka ofan í framræsluskurði. Væntanlega mun mokstur í skurðina vera fjármagnaður að stórum hluta með sölu kolefnisjöfnunarvottorða og framlagi úr ríkissjóði.
 
„Ríkissjóður mun að óbreyttu þurfa að kaupa kolefniskvóta fyrir milljarða“
 
Í Morgunblaðinu 21. júlí var talað við Huga Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu, um kaup á kolefniskvóta. Varla er hægt að skilja orð hans öðruvísi en að áform séu þegar uppi um að ríkið kaupi kolefniskvóta, ekki mikið seinna en eftir tvö ár. Þar segir orðrétt:
 
„Ríkissjóður mun að óbreyttu þurfa að kaupa kolefniskvóta fyrir milljarða króna á næsta áratug. Ástæðan er losun gróðurhúsalofttegunda umfram markmið stjórnvalda um 20% minni losun 2020 en árið 2005.
 
Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, segir óvíst hversu mikil losunin verði umfram spár. Hún verði gerð upp í einu lagi fyrir árin 2013–2020. Síðan taki að óbreyttu við frekari kaup á kvóta. Sá kvóti verði keyptur á hnattrænum markaði innan Kýótó-bókunarinnar. Þau kaup fari hugsanlega fram í gegnum þróunaraðstoð sem miðar að minni losun í þróunarríkjum.“
 
Ekki hefur komið til tals að kaupa kolefniskvóta segir ráðuneytið!
 
Vegna þessarar umræðu sendi Bændablaðið umhverfisráðuneytinu fyrirspurn um málið til að fá svör við því hvernig staðan væri á þessum málum. Spurt var um hugsanleg kaup á kolefniskvóta og hver tæki þá við greiðslum fyrir slíkan kvóta og í hvað þeir fjármunir færu. Ráðuneytið svaraði spurningum blaðsins fljótt og vel og á starfsfólk ráðuneytisins hrós skilið fyrir það. Í svarinu segir orðrétt:
 
„Ekki hefur komið til tals að Ísland kaupi kolefniskvóta vegna Parísarsamningsins, sem varðar markmið árin 2021–2030. Skuldbindingar Íslands þá liggja ekki fyrir og ekki hefur heldur verið að fullu gengið frá bókhaldsreglum Parísarsamningsins, en vonir standa til að það gæti orðið í árslok. Alls ótímabært er að ræða kaup á kvótum í því samhengi og Ísland mun leitast við að verða innan markmiða þar. Á hinn bóginn er afar líklegt að Ísland muni ekki standast skilyrði Kýótó-bókunarinnar, sem er í gildi til 2020. 
 
Ísland þarf ekki að kaupa kvóta strax vegna þessa, en gæti beðið fram að uppgjöri á bókuninni, sem er um 2022/23. Ef Ísland kaupir kvóta þar væri einkum um að ræða einingar sem verða til vegna loftslagsvænna verkefna í þróunarríkjunum (sk. Clean Development Mechanism) eða í ríkjum Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkjunum (sk. Joint Implementation). Ákvæði um slíkt er að finna í Kýótó-bókuninni og er hugsunin sú að ríki sem eiga erfitt með að ná sínum markmiðum heima fyrir geti stutt verkefni í öðrum ríkjum sem miða að minnkun losunar þar (s.s. byggingu orkuvera sem virkja endurnýjanlega orku eða gassöfnun á urðunarstöðum). Greiðslur vegna slíkra kvóta eiga að fara að mestu til þeirra sem vinna að viðkomandi verkefnum og eru því hluti af fjármögnun þeirra. Mörg ríki hafa stutt slík verkefni og aflað sér kvóta þannig, þótt þau séu e.t.v. ekki endilega í þröngri stöðu varðandi skuldbindingar. Ísland hefur ekki stefnt sérstaklega að kvótakaupum, en er í þeirri stöðu að þurfa að huga að þeim nú á næstu misserum.“
 
Gert ráð fyrir auknu fjármagni til skógræktar og engin kvótakaup
 
– Hefur komið til tals í ríkisstjórn að verja fjármunum sem annars færu að óbreyttu í kaup á kolefniskvóta, í bindingu kolefnis á Íslandi, t.d. með skógrækt?
 
„Reiknað er með að Ísland nái markmiðum í Parísarsamningnum (sem til að byrja með verða sett fyrir tímabilið 2021–2030) með því að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, en ekki með kvótakaupum. M.a. er gert ráð fyrir auknu fjármagni til skógræktar og kolefnisbindingar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. 
 
Hvað stöðuna varðandi Kýótó-bókunina varðar, þá liggur fyrir að hægt er að mæta skuldbindingum þar með því að draga úr losun, auka bindingu eða kaupa kvóta. Þar sem skammur tími er til stefnu þar til 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur er nokkuð ljóst að ekki er hægt að draga mjög róttækt úr losun á aðeins tveimur árum. Einnig er ljóst að aðgerðir í skógrækt og landgræðslu munu ekki ná að bjarga þeirri stöðu, þar sem ávinningur þar dreifist á langan tíma, en er ekki allur bókfærður um leið við gróðursetningu trjáa eða aðrar aðgerðir. Það er því sértækt verkefni að skoða stöðuna varðandi Kýótó-bókunina nú og tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar þar. 
 
Markmið ríkisstjórnarinnar er að Ísland nái sínum skuldbindingum framvegis, auk markmiðs um kolefnishlutleysi 2040, með aðgerðum innanlands, en ekki kvótakaupum, eins þótt slík kaup geti stutt við loftslagsvæn verkefni á alþjóðavísu.“
 
Framleiðsla á metangasi í landbúnaði í væntanlegri aðgerðaráætlun? 
 
– Hefur verið metið af stjórnvöldum hver ávinningurinn yrði í minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda ef metangas sem verður til m.a. í landbúnaði og við urðun á sorpi yrði nýtt í meira mæli en gert er sem eldsneyti?
 
„Þar liggja vissulega fyrir athuganir, auk þess sem unnið hefur verið að slíkum verkefnum árum saman við meðferð úrgangs, einna lengst á vegum Sorpu á Álfsnesi. Vilji er til að stíga fleiri skref í þá átt, m.a. í landbúnaði og tillögur þess efnis verða í væntanlegri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Almennt mat á hugsanlegum ávinningi af mögulegum aðgerðum er að finna í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2017. Það mat þarf hins vegar að uppfæra þegar almennar aðgerðir (s.s. að minnka losun vegna metans á urðunarstöðum og frá búfjáráburði) verða útfærðar sem stjórnvaldsaðgerðir (s.s. reglusetning eða styrkir til einstakra verkefna),“ segir í svari umhverfisráðuneytisins. 

4 myndir:

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...