Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hér er því sem kallað er „Vegan tískubylting” stillt upp gegn framleiðslu á ullar- og leðurfatnaði. Nokkur tískuhús og tískuhönnuðir hafa lýst því yfir að þau hyggist verða við kröfum aðgerðarhópa eins og PETA samtakanna og hætta að nota loðskinn.
Hér er því sem kallað er „Vegan tískubylting” stillt upp gegn framleiðslu á ullar- og leðurfatnaði. Nokkur tískuhús og tískuhönnuðir hafa lýst því yfir að þau hyggist verða við kröfum aðgerðarhópa eins og PETA samtakanna og hætta að nota loðskinn.
Fréttaskýring 21. mars 2018

Hanna tískufatnað úr plastefnum „til að vernda náttúruna“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vaxandi umræður eru um þá ógn sem hafinu og lífríki þess stafar af mengun af mannavöldum og þá ekki síst af plastmengun. Er svo komið að plast í ýmsu formi finnst nú um öll heimsins höf og finnst það einnig sem örplast sem svifdýr, skeldýr og aðrar lífverur innbyrða. 
 
Fram til þessa hafa menn ekki viljað gera mikið úr plastmengun í hafinu og greinilegt að langlíf er sú hugmynd að lengi taki sjórinn við. Það er helst að sýnilegt plast sem rekið hefur á fjörur hafi verið að pirra fólk, eins og í friðlandi Hornstranda og víðar. Nú virðast menn þó vera að vakna við þann vonda draum að mengunin sé mögulega komin á mun alvarlegra stig en menn héldu. Örplast er nú farið að finnast í drykkjarvatni manna víða um heim, ekki síst þar sem vatn er hreinsað í vatnshreinsistöðvum. Þá er örplast farið að menga grunnvatn eins og komið hefur í ljós í Bandaríkjunum. Nú eru vísindamenn farnir að óttast áhrif örplasts á heilsu manna, m.a. við neyslu á plastmengaðri fæðu og vatni. Jafnvel hafísinn á norðurslóðum er ekki lengur laus við plastmengun.
 
Kannski er þetta ekki skrítið. Þetta undraefni sem plastið annars er hefur leitt til mikillar þróunar og framfara í margs konar iðnaði, því er framleiðslan á því orðin gríðarleg. 
 
Samkvæmt skýrslu sem birt var í Science Asvance í júlí 2017 var búið að nota 9 milljarða tonn af plasti frá árinu 1950 til 2015. Sú framleiðsla er því væntanlega komin vel yfir 10 milljarða tonna í dag.
 
Það skýtur því mjög skökku við í þessari umræðu að fólk sem kallar sig umhverfissinna skuli nú ganga í fararbroddi fyrir því að nota fatnað úr gerviefnum, fremur en að nýta skinn og önnur náttúruleg efni. Um leið afneitar það reynslu og þekkingu sem nýst hefur án mikils skaða fyrir náttúruna allt frá því mannskepnan fór að hafa vit á að klæða af sér kuldann. 
 
Firring þessara flíspeysudúðuðu íbúa borgarsamfélagsins, sem afneita náttúrulegum gildum og reynsluheimi fortíðar í nafni náttúruverndar, er því greinilega komin á ansi súrt raunveruleikastig. 
 
Um 7 milljarðar tonna af plasti í ruslið
 
Á árinu 1950 var heimsbyggðin að nota um 1,5 milljónir tonna af plasti í ýmsu formi. Árið 2016 var verið að nota yfir 300 milljón tonn af plasti í heiminum. Samkvæmt skýrslu sem birt var í Science Asvance í júlí  2017 var búið að nota 9 milljarða tonna af plasti frá árinu 1950 til 2015. Sú framleiðsla er því væntanlega komin vel yfir 10 milljarða tonna í dag. Sumt af þessu plasti er vissulega endurnýtt en á árinu 2015 var það þó ekki talið vera nema um 9% af heildarumfanginu. Síðan er um 12% eytt með bruna eða með öðrum hætti. Eftir stendur um 79% af öllu plasti sem framleitt hefur verið, eða um 7 milljarðar tonna. Því plasti hefur verið hent með öðru sorpi frá 1950 og hefur endað í landfyllingum eða annars staðar úti í umhverfinu. Oftar en ekki endar stór hluti af því plasti svo hafinu. 
 
Ekkert hafsvæði er óhult fyrir plasti. Sterkir hafstraumar sjá til þess. 
 
Allt að 13 milljónir tonna af plasti í hafið á hverju ári
 
Rannsóknarteymið sem vann skýrsluna áætlaði árið 2015 að á milli 5 og 13 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á hverju ári. Nú væri plast að finna í öllum heimshöfum. 
 
Skýrslan var unnin af rannsóknarteymi skipuðum fulltrúum úr Kaliforníuháskóla, Háskólanum í Santa Barbara og Georgíuháskóla í Bandaríkjunum. Einnig rannsakendum frá Sea Education Association. 
 
Við úttekt á þessum tölum nýttu skýrsluhöfundar sér gögn um framleiðslu á hreinu polymer grunnefni (resin) sem úr er framleitt margvísleg afbrigði af plasti. Byggt var á framleiðslutölum frá 1950 til 2015 sem gefnar voru út af Plastics Europe Market Research Group og gögnum um framleiðslutölur á plasttrefjum frá 1970 til 2015 sem birtar voru af The Fiber Year and Tecnon OrbiChem. Tölur um plast sem hent er eru frá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, Plastics Europe, Alþjóðabankanum og árbók um hagtölur í Kína. 
 
Áætlað er að frá 1950 hafi 7 milljarðar tonna af plasti farið í ruslið og að um 5 til 13 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á hverju einasta ári. 
 
Örplastið var ekki talið ýkja hættulegt fyrir örfáum árum
 
Það er ekki ýkja langt síðan menn fóru að hafa verulegar áhyggjur af þessu. Sem dæmi þá var opinberuð rannsókn á vegum Alfred-Wegener stofnunarinnar í Þýskalandi og Helmholtz Centre for Polar and Marine Research (AWI) í desember 2014. Þar kom fram að þótt örplast fyndist í lífverum hafsins þá væri það líklega ekki að hafa áhrif á meltingu og innri líffæri dýra. Þar greindi dr. Lars Gutow frá því að vísindamenn hafi einnig sýnt fram á að svifdýr (isopods) yrðu ekki fyrir langtíma skaða þótt þau væru fóðruð í sex til sjö vikur með fæðu sem innihélt örplast úr polyethelyne og polyacryl. Engar breytingar hafi verið sjáanlegar á viðkomu og vöxt svifdýranna í samanburði við þau sem fengu fæðu sem ekki innihélt neitt örplast.
 
Gæti þó verið slæmt fyrir dýrin ofar í fæðukeðjunni
 
Í umfjöllun um rannsóknina er þó bent á að í fyrri rannsóknum sem framkvæmdar voru af dr. Angela Köhler, að skeldýr sýndu greinileg viðbrögð ef þau innbyrtu örplast í miklum mæli. Dr. Lars Gutow taldi því að örplast hefði mismunandi áhrif á mismunandi stærðir sjávardýra.  
 
Plastefni af ýmsum toga sem fannst í kræklingi við Noreg.
 
 
Hafrannsóknastofnun ekki með skipulagðar rannsóknir á örplasti
 
Hjá Hafrannsóknastofnun fengust þær upplýsingar að þar er ekki byrjað að gera beinar rannsóknir á því hvort örplast sé farið að hafa áhrif á lífríki hafsins. Vísindamenn stofnunarinnar hafa þó skráð og mælt plast og önnur efni sem fundist hafa í maga fiska og annarra sjávardýra í rannsóknarleiðöngrum við landið. Stofnunin hefur hins vegar ekki yfir að ráða tækjabúnaði til að rannsaka örplast í lífverum hafsins.
 
Þar á bæ eru menn þó að reyna að átta sig á því með hvað hætti slíkar rannsóknir verði best gerðar þannig að þær séu samanburðarhæfar við rannsóknir sem aðrar þjóðir í kringum okkur kunna að gera. 
Nú er búið að sameina ferskvatnssviðið eða gömlu Veiðimálastofnun við starfsemi Hafrannsóknastofnunar svo plastmengun sem mögulega fer í ár og vötn er komin undir sama rannsóknarhatt. 
 
 
Þráður úr plastgerviefni í norskum skelfiski. 
 
Fatnaður úr gerviefnum til að „vernda“ náttúruna!
 
Það skýtur mjög skökku við að mitt í þessari umræðu um plastmengun í höfum heimsins og drykkjarvatni skuli rekinn gegndarlaus áróður fyrir notkun gerviefna m.a. úr polyethelyne og polyacryl í nafni umhverfis- og dýraverndar. Þetta eru efni sem yfirleitt eru framleidd úr jarðefnaolíu. 
 
Nýlega tilkynnti tískuhús Gucci til dæmis að þeir ætluðu að hætta að framleiða fatnað úr dýrafeldi og það sama gegnir um tískuhús Ralph Lauren, Armani  og Hugo Boss. 
 
Síðasti feldurinn sem Gucci framleiddi var í haustlínunni þeirra 2017, en frá og með vorinu 2018 mun Gucci eingöngu selja gerviefnafeldi. Forsvarsmenn Gucci segja að það sé ekki lengur þörf fyrir alvöru feld því að eftirlíkingarnar séu lúxusvara sem kemur fyllilega í staðinn. 
 
Þá er tískudrottningin Stella McCartney nú þegar sögð vera byrjuð að framleiða fatnað og fylgihluti úr gervileðri. 
 
Greint var frá þessu á vefsíðunni TÍSKA.is nýverið og þar sagt að. „helstu viðskiptavinir tískurisanna í dag séu „mjög umhverfisvænir og meðvitaðir um náttúruna“!
 
Það er einmitt það. Fólk sem klæðist fötum úr gerviefnum er þá væntanlega umhverfisvænna og meðvitaðra um  náttúruna en fólk sem íklæðist lummulegum fatnaði úr náttúrulegum efnum eins og ull, bómull eða dýraskinnum. Svo þykir fólki skrítið í þessu ljósi að plastmengun á jörðinni sé komin á þann stað sem hún er nú.
 
Ekki er þó vitað til að nokkur vísindarannsókn hafi sýnt fram á að agnir eða leifar úr náttúrulegum efnum, séu, eða hafi valdið skaða í lífríki jarðar í allri sögu mannkyns á jörðinni. Svo öllu sé haldið til haga þá er samt vitað að stundum hefur verið gengið nærri einstaka sjaldgæfum dýrastofnum vegna ofveiði og þá einkum vegna sportveiði. Það er samt alls ekki tilfellið varðandi framleiðslu minka- og refaskinna í dag. Þar setja uppboðshúsin loðdýrabændum mjög strangar reglur, m.a. um dýravelferð.
 
Tvöfalt meira af örplasti fannst í kræklingi við eyjuna Vardø, nyrst í Noregi, en fannst í kræklingi í höfninni í Ósló.
 
Örplast úr gerviefnafatnaði finnst í kræklingi við Norður-Noreg
 
Samkvæmt gögnum Umhverfis­stofnunar Noregs og Vatna­rannsóknarstofnun Noregs (Norsk institutt for vannforskning – NIVA), voru gerðar mælingar á örplasti í kræklingi á 13 stöðum meðfram strönd Noregs. Örplast, eða „miocroplastics“, er skilgreint sem agnir sem eru minni en 5 millimetrar í þvermál. Örplast getur líka verið svo smátt að það sést vart með berum augum og er þá líka nefnt nano-plast.
 
Haft er eftir Oddbjørn Jerijærvi, sem aðstoðaði rannsóknarteymi NIVA, að sífellt meira af plastílátum reki nú á fjörur í Varangerfirði sem liggur nærri norðvestur landamærum Rússlands og Rússar nefna ????????-?????. Fjörðurinn er 100 km að lengd og um 70 km á breidd þar sem hann er breiðastur.
 
Mun meira örplast nyrst í Noregi en í höfninni í Ósló
 
Mest reyndist af örplasti í skelfiski við Vardø á Skallnes í Finnmörku við Barensthaf, nyrst í Noregi. Á gamalli norsku hét eyjan Vargøy eða Vargseyja, en vargur var algengt nafn á úlfi. Þetta er á 70° norður, nálægt rússnesku lögsögunni. Að meðaltali mældust þar 4,3 plastagnir í hverjum kræklingi sem skoðaður var, sem er tvöfalt meira af örplasti en fannst í kræklingi í höfninni í Ósló. Það er því ekki úlfurinn sem er lengur vargurinn á Vargseyju heldur plast nútímasamfélagsins.
 
Plastþræðir úr gerviefnafatnaði
 
Amy Lusher, vísindamaður hjá NIVA, lýsir þessari rannsókn. Þar kemur fram að plastagnirnar hafi í 39% tilvika verið bláar að lit sem voru agnir úr plastþráðum sem finna má í gerviefnafatnaði. 
 
Líklegt er talið að örplast úr fatnaði skili sér í töluverðu magni í hafið með skolvatni frá þvottavélum. 
 
Engar fregnir eru hins vegar af því að skaðlegar öragnir úr náttúrulegum efnum í fatnaði, hvorki ofnum, prjónuðum eða úr skinnum dýra, hafi fundist í skelfiski við slíkar rannsóknir. 
 
Öryggi matvæla talið ógnað
 
Matvælaöryggisyfirvöld í Evrópu hafa (European Food Safety Authority) lýst miklum áhyggjum af þessum plastmengunarmálum. Einkum hafa menn þar horft til hás hlutfalls af mengandi efnum eins og polychlorinated biphenyls (PCS) og polycyclic aromatic hydrocarbons (PHAs). Matvælaeftirlitsstofnanir ESB hafa bent á að ostrur og kræklingur séu í fæðukeðju manna og örplast og nanoplast geti því auðveldlega borist í menn við neyslu á slíkri fæðu. Er örplast nú skilgreint sem einn af helstu áhættuþáttum í matvælaöryggi framtíðarinnar. 
 
Plastmengun í heimskautasjó við Kanada
 
Á vefsíðu Ocean Conservancy er fjallað um rannsókn á örplasti í hafinu við norðurströnd Kanada sem liggur að Norðurpólnum. Einkum í austanverðu hafinu næst grænlensku lögsögunni og í Hudson flóa. Er byrjað að skoða þetta eftir fregnir af því að örplast hafi fundist í ís og yfirborðssjó í kringum Grænland og Noreg. 
 
Hafa Kanadamenn verið að gera rannsóknir á þessu á ísbrjótnum og rannsóknaskipinu CCGS Amundsen sem gerður er út af kanadísku strandgæslunni. Þetta merkilega skip prýðir m.a. kanadíska 50 dollara peningaseðilinn. 
 
Dr. Chelsea Rochma, sem er aðstoðarprófessor í vistfræði og þróunarlíffræði við Toronto-háskóla, lýsir þessum leiðangri í bloggi sínu á veraldarvefnum. Hún stýrði einmitt rannsóknarteymi sem var að skoða örplast í norðurhöfum, eða á fyrrnefndu hafsvæði við Kanada. 
 
Leiðangurinn hófst í hinu tæplega 800 manna inúítaþorpi Kuujjurapik í Kanada þann 7. júlí 2017. Markmiðið var að leita að örlasti í yfirborðssjó, snjó, botnseti og í þörungum. Vonuðust leiðangursmenn til að út frá þessu gætu þeir áætlað útbreiðslu örplasts og magn þess á svæðinu sem og hvaðan það væri upprunnið. Tekin voru sýni á tíu stöðum í sjö daga leiðangri skipsins. Komið var við í bænum Iqaluit sem er með um 8.000 íbúa og m.a. skoðaðar fjörur við bæinn. Þar mátti finna talsvert af plastrusli, enda benti Rochma á að í bænum væri engin endurvinnslustöð og innviðir hvað sorphreinsun varðaði væru ekki góðir. Rusl er þar m.a. urðað í landfyllingu. 
 
Hún segir að eftir veruna í bænum hafi hún flogið til síns heima í Toronto. Hún hafi hugleitt það á leiðinni að þetta væri nú ekki hennar fyrsti rannsóknarleiðangur. Munurinn á fyrri leiðöngrum og nú væri öll þessi plastmengun sem hún varð vör við. Í heimskautasjónum við strendur Kanada varð hún vör við mikið af plasti, bæði í litlum og stórum stykkjum á svæðum þar sem fátt var um fólk. Sagðist hún vonast til að sýnin sem náðust í leiðangrinum gæfu betri mynd af því hvernig plast bærist á afskekkt hafsvæði á norðurslóðum. 
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...