Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Úkraína, sem löngum hefur verið nefnd brauðkarfa Evrópu.
Úkraína, sem löngum hefur verið nefnd brauðkarfa Evrópu.
Fréttaskýring 1. mars 2022

Úkraína, brauðkarfa Evrópu, eilífðarbitbein áhættusækinna fjármála- og hernaðarafla

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Harkalega er tekist á um Úkraínu, brauðkörfu Evrópu, um þessar mundir. Átökin eiga sér langa sögu, en núverandi átakaferli má að nokkru leyti rekja til ásælni erlendra fjárfesta í ræktarland í Úkraínu og mögulegrar aðildar landsins að NATO.

Fjárfestar víða um lönd hafa verið að átta sig á að einhver besta trygging fjármagns er í grunni matvælaframleiðslu heimsins, þ.e. í ræktarlandinu sjálfu. Fólk mun alltaf þurfa mat hvernig svo sem ástand fjármálakerfisins er og pólitískar sveiflur í heiminum.

Margvíslegar fréttir hafa borist af uppkaupum á ræktarlandi á liðnum árum. Eða því sem kallað hefur verið „Land Grabbing“, það er þegar peningamenn hrifsa til sín land í skjóli fjárhagslegrar stöðu sinnar.

Ræktarland Úkraínu telst vera um 42 milljónir hektara og er afar frjósamt. Þar voru framleiddar um 83,8 milljónir tonna af korni á síðasta ári. Mynd / Ukraine opned for business

Framleiddu nær 84 milljónir tonna af korni á síðasta ári

Úkraína er sjötta stærsta korn­framleiðsluland heims, þar sem Bandaríkin eru númer 1, Kína númer 2, Brasilía númer 3, Argentína númer 4 og Mexíkó númer 5 á listanum. Úkraínumenn framleiða um 2,5 sinnum meira af ýmiss konar korni en Frakkar og ríflega 8 sinnum meira en Þjóðverjar.

Samkvæmt tölum matvæla- og landbúnaðarráðuneytis Úkraínu nam heildar kornuppskera landsins (grain production) á árinu 2021 samtals 83,8 milljónum tonna. Inni í þeirri tölu er 32,1 milljón tonn af hveiti og 40 milljón tonn af korni (maize). Útflutningur á hveiti frá júlí 2021 fram í janúar 2022 nam um 17 milljónum tonna og þar af 11 milljónir tonna til manneldis og um 5,6 milljónir tonna af skepnufóðri. Reiknað er með að útflutningur í febrúar og fram í júní muni nema um 8,2 milljónum tonna og þá að stærstum hluta sem fóður til dýraeldis, eða 6,2 milljónir tonna. Heildaruppskeran var um 65 milljónir tonna árið 2020. Það er því augljóslega eftir miklu að slægjast í úkraínskum landbúnaði.

Mikil ásælni erlendra stórfyrirtækja

Í Úkraínu hefur ásælni útlendinga verið gríðarleg, enda þykir ræktarland þar vera eitt það besta í heimi. Svarta moldin (Black Soil) er það sem einkennir ræktarland Úkraínu. Þar er talið að finna megi um 30% af allri svartri mold heimsins, eða um 42 milljónir hektara. Þar er jafnframt talin vera vagga akuryrkjumenningarinnar í heiminum. Ræktanlegt land á íbúa er mjög hátt, eða 0,71 hektari sem er þriðja hæsta hlutfall í heimi. Til samanburðar er það 0,38 hektarar á íbúa á Íslandi, 0,16 hektarar í Noregi og 0,43 hektarar á íbúa í Danmörku. Ef Krímskaginn, sem Rússar hafa nú yfirtekið, er dreginn frá, þá telst 69% Úkraínu vera ræktarland.

Útlendingar geta ekki keypt land nema í gegnum úkraínska leppa

Eignarhald útlendinga á ræktarlandi í Úkraínu er mjög falið og slík kaup eru ekki gerleg nema í gegnum leppfyrirtæki heimamanna. Hver einstaklingur í Úkraínu eða fyrir­tæki í þeirra eigu mega eiga allt að 10.000 hektara land. Enn eru þar í gildi að nafninu til lög sem banna jarðakaup útlendinga og þarf þjóðaratkvæðagreiðslu til að breyta þeim lögum. Útlendingar mega hins vegar fjárfesta í fasteignum. Samt er vitað að farið hefur verið gróflega í kringum þessi lög á undanförnum árum og yfirvöld hafa marglofað að gera eignarhaldið gagnsærra. Öll jarðaviðskipti yfir 100 hektara að stærð eiga að fara fram í gegnum opinberu eignarhaldsskrifstofuna Gos Zem Agenstvo svo úrbætur ættu að vera auðveldar.

Ræktarland í Úkraínu notað til að ýta undir græðgi fjárfesta

Oleksiy Pavlenko, sem var landbúnaðarráðherra Úkraínu 2015, sagði í fjölmiðlum í janúar það ár, að auka mætti kornframleiðsluna í landinu úr 62 milljónum tonna árið 2014 í 100 milljón tonn. Slíkt var þó vart talið framkvæmanlegt nema með ræktun á erfðabreyttum kornafbrigðum (GMO). − Það var eins og við manninn mælt, erlendir fjárfestar runnu á lyktina, þar á meðal fyrirtæki eins og Monsanto, sem á fjölda einkaleyfa á erfðabreyttum korntegundum og illgresiseyði (Roundup) sem mikið er notaður við slíka ræktun. Monsanto var yfirtekið af þýska efnarisanum Byer í september 2016 í viðskiptum upp á 66 milljarða dollara sem gerðu það mun auðveldara að sækjast eftir stuðningi ESB við að auka ítök í úkraínskum landbúnaði.

Það jók enn á ásælni fjárfesta að Heinz Strubenhoff, fjárfestingastjóri landbúnaðarmála í Úkraínu hjá Alþjóðabankanum, lýsti því yfir árið 2015 að tími væri til kominn að hefja einkavæðingu í landbúnaði Úkraínu. Ráðgjafar hjá France's Credit Agricole Bank í Úkraínu vöruðu þó við slíku tali og sögðu að úkraínskir bændur yrðu þá einungis leiguliðar fjárfesta í eigin heimalandi.

Samkvæmt tölum hagstofu Úkraínu námu beinar erlendar fjárfestingar í landinu frá janúar til júlí 2015 samtals rúmlega 42.851 milljón dollara, eða sem nam rúmlega 5,5 billjónum íslenskra króna (5,5 milljón milljónum kr.). Athygli vekur að hlutfallslega mesta fjármagnið rann í gegnum Kýpur, eða rúmlega 12.274 milljónir dollara, en Kýpur er einmitt þekkt skattaskjól áhættufjárfesta af ýmsum toga sem fela vilja slóð sína. Talið var að um 1,6 til 2,2 milljónir hektara ræktarlands í Úkraínu væru þá komnar í hendur útlendinga.

Braskað með ríkisjarðir og bullandi svartur markaður

Enn var ýtt undir þessa þróun með nýjum einkavæðingarlögum á ríkisjörðum sem sett voru 2018 (On privatization of state and municipal property). Þar með voru í raun allar flóðgáttir opnaðar. Peningar fóru að hlaðast inn á ríkiseignasjóð Úkraínu og 2020 var staðan um 3,8 milljarðar UAH (Ukrainian hryvnia). Þetta jafngildir um 16,7 milljörðum íslenskra króna. Þá hefur verið í gangi stór svartamarkaður fyrir jarðasölu í Úkraínu samkvæmt umfjöllun Cyprus Mail í desember síðastliðnum. Á árinu 2021 voru seld „fjárhættuspilaleyfi“ (gambling licenses) í jarðaviðskiptum í Úkraínu fyrir ríflega 1 milljarð UAH, eða sem svarar um 4,4 milljörðum íslenskra króna.

Afar viðkvæm staða

Fjárfestar hafa leitað eftir stuðningi Evrópusambandsins til að tryggja sína stöðu í Úkraínu og einnig Bandaríkjanna og Nato. Það er því ekki skrítið að Rússar og samherjar þeirra séu órólegir, enda hafa mjög lengi verið náin tengsl við Úkraínu sem var hluti af Sovétríkjunum sálugu. Þetta var einnig þeirra trygging fyrir fæðuöryggi. Með óskir núverandi stjórnarherra í Úkraínu um að landið fái aðild að NATO, var vakið upp álíka viðkvæmt mál og að Rússar eða Kínverjar kæmu sér upp herstöðvum við landamæri Bandaríkjanna í Mexíkó.

Mikil stríðsæsingarherferð hefur verið í gangi undanfarnar vikur í kjölfar þeirrar miklu áherslu að Úkraína verði gert eitt af aðildar­ríkjum NATO. Rússar tóku þessu ekki fagnandi og svöruðu með því að senda mikið herlið að landamærum Úkraínu. Síðan hefur verið hamrað á því í vestrænum fjölmiðlum að innrás Rússa í Úkraínu væri alveg að bresta á og það nýtt til að auka hernaðarviðbúnað NATO í austurhluta Evrópu.

Rússneska er áberandi tungumál í stórum hluta Austur-Úkraínu.

Hættan liggur í mögulegum aðgerðum í Donbass-héraði

„Það er aðeins ein hætta og hún er sú að yfirvöld Úkraínu grípi til alvarlegra aðgerða í Donetsk og Luhansk í Donbass héraði,“ sagði Alexander Lukashenko, forseti Belarus, í samtali við blaðamann Pravda fyrr í þessum mánuði. Á þessum svæðum er rússneskumælandi fólk í meirihluta og hefur fjöldi fólks þar verið að fá rússnesk vegabréf að undanförnu. Þá hefur mikill fjöldi líka flúið yfir til Rússlands vegna hættu á frekari átökum við stjórnarher Úkraínu.

Borgin Donetsk og héraðið þar um kring lýsti yfir sjálfstæði 7. apríl 2014 sem Alþýðulýðveldið Donetsk og sömu­leiðis var lýst yfir sjálfstæði Luhansk og aðliggjandi héraðs þann 27. apríl 2014 sem nefnt er Alþýðu­lýðveldið Luhansk. Þessi svæði hafa þó ekki verið viðurkennd sem lýðveldi af alþjóðasamfélaginu, heldur talin sem hluti af Úkraínu.

Rússar lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði

Það gerðist svo síðastliðinn mánu­dag, þann 21. febrúar, að Vladimir Putin Rússlandsforseti lýsti yfir stuðningi Rússa við sjálfstæði aðskilnaðarsinna í Donbass héraði. Þar með telja Rússar sér væntanlega fært að fara með her inn á svæðið til að verja sjálfstæði Donetsk og Luhansk í Donbass. Þetta útspil Rússa olli þeim viðbrögðum hjá ráðamönnum ESB ríkjanna, Bandaríkjanna, Bretlands og í öðrum NATO ríkjum, að hótað er hörðum viðskiptaþvingunum. Áhugavert verður að sjá hvernig því verður framfylgt í ljósi þess hversu háð fjölmörg Evrópuríki eru gasi frá Rússlandi.

Deilurnar um Úkraínu er sprek í kamínu vopnaframleiðenda

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða mikilvægi hergagnaframleiðslu í heiminum. Á árinu 2020 seldu 100 stærstu vopnaframleiðslufyrirtækin búnað fyrir 531 milljarð dollara samkvæmt tölum friðarrannsóknar­stofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPR). Þetta samsvarar rúmlega 67 þúsund milljörðum íslenskra króna. Eignir íslensku lífeyrissjóðanna virka eins og fremur fátæklegur vasapeningur í þeim samanburði. Til að tryggja aukna sölu á vopnum er auðvitað „æskilegt“ að komið sé í gang stríði, sem væri helst mögulegt að halda staðbundnu, einhvers staðar í heiminum. Úkraínudeilan er því augljóslega vænt sprek í kamínu vopnaframleiðenda. Ekki síst þar sem Afganistan er ekki lengur spennandi kostur í vopnasölu.

Úkraína verulega háð nágrönnum sínum um eldsneyti og raforku

Þótt sérfræðingar um hernaðarleg málefni, sem viðrað hafa skoðanir sínar í vestrænum fjölmiðlum, telji yfirburði NATO og Bandaríkjamanna á hreinu ef til átaka kæmi í Úkraínu, þá eru Rússar og forseti Belarus (Hvíta-Rússlands) ekki síður með sjálfsöryggið í lagi. Mögulega hafa þeir ansi mikið til síns máls. Her Úkraínu reiðir sig nefnilega á eldsneyti og smurolíu frá Belarus og Rússlandi.

Alexander Lukashenko, forseti Belarus, varaði yfirvöld í Kev í Úkraínu við að yfirvöld í Minsk gætu hæglega stöðvað tannhjól atvinnulífs og hernaðar í Úkraínu einsfaldlega með því að hætta að útvega þeim eldsneyti og smurolíu.

Eru einungis sagðir hafa eldsneyti til átaka í 3 til 5 daga

Að mati rússneskra sérfræðinga, sem Nezygar Telegram vitnar til, þá duga eldsneytis- og smurolíubirgðir vélvæddu eininga hersins í Úkraínu aðeins til átaka í þrjá eða fimm daga.

Þetta getur vel staðist þar sem framleiðsla Belarus á jarðefna­eldsneyti er einkum gas, eða 89% af heildarframleiðslunni, en olía er einungis 7,9% og þungt gas 3,1%. Áætluð heildar­fram­leiðsla Belarus á olíu og gasi á árinu 2021 var 21,5 milljarðar rúmmetra samkvæmt tölum Alþjóða­viðskipta­stofnunarinnar.
Þótt Belarus þýði upp á íslensku Hvíta-Rússland, þá hefur margoft komið fram að heimamenn eru síður en svo hrifnir af slíkri þýðingu á nafni lands síns. Hér er því notast við nafnið Belarus.

Hyggjast stöðva birgðaflutning

„Við munum stöðva alla okkar birgðaflutninga til Úkraínu, ekki bara eldsneyti og smurolíu. Við munum líka hætta að útvega þeim raforku. Ef þeir byrja að berjast gegn okkur eða gegn Rússlandi, þá munum við berjast,“ sagði Lukashenko, forseti Belarus.

Viðskiptahindranir virka á báða vegu, segir forseti Úkraínu

Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, sagði í svari Alexanders Lúka­sjenkós þriðjudaginn 8. febrúar að útflutningur Úkraínu til Hvíta-Rússlands væri meiri en innflutningur þaðan. Þess vegna myndi gagnkvæmt viðskiptabann hafa áhrif á fólk í báðum löndum. Þar á hann væntanlega við ýmis hráefni til iðnaðar og ekki síður matvæli og dýrafóður.
„Við ættum ekki að fara aftur til steinaldar,“ bætti Zelensky við.

Úkraína hefur aukið verulega innkaup á olíu

Vandi Úkraínumanna varðandi átök við Belarus og Rússland er samt augljós. Ekki nóg með að stór hluti af þeirra hergögnum hafi komið frá Rússlandi, heldur hefur úkraínski herinn verið verulega háður eldsneyti frá Rússlandi og Belarus. Svo mjög að án þess mun her þeirra ekki geta hreyft sig eftir nokkurra daga átök.

Samkvæmt upplýsingum sem Pravda birtir frá ríkistollgæslunni í Úkraínu (UNIAN), í janúar-desember 2021, jók landið gjaldeyrisútgjöld til innflutnings á olíuvörum í 5,614 milljarða dollara, sem var 65,1% hærri upphæð en árið 2020.

Þetta felur í sér innflutning á allt að 8,79 milljónum tonna af olíuvörum á 12 mánuðum, sem var 9,5% hærra hlutfall en árið áður. Þar af nam innflutningur á olíuvörum frá Hvíta-Rússlandi 2,35 milljörðum dollara eða sem nam um 41,8% af öllum útgjöldum til innflutnings á olíuvörum. Þá voru keyptar olíuvörur frá Rússlandi fyrir 1,24 milljarða dollara eða sem nemur 22% olíuvöruinnflutningsins, frá Litháen – 0,654 milljörðum dollara sem nemur 11,6% samkvæmt tölum UNIAN. Þannig koma 63% af innflutningi Úkraínu á eldsneyti og smurolíu frá Rússlandi og Belarus.

Ein olíuhreinsunarstöð eftir af sex

Ósjálfstæði Úkraínu á innflutningi eldsneytis og smurefna hefur farið stöðugt vaxandi síðustu 15 árin. Í stað sex stórra olíuhreinsunarstöðva sem Úkraína hafði á Sovéttímanum á landið aðeins eina eftir í dag.

Árið 2020 tryggðu innlendir framleiðendur í Úkraínu aðeins 49% af bensínnotkun, 15% af dísilolíu og 20% af fljótandi gasi LPG. Á sama tíma var ósjálfstæði landsins á innfluttu dísileldsneyti 65%, en 100% flugvélaeldsneytisins (steinolíunnar) kom frá Belarus.

Samkvæmt alríkistollþjónustunni í Rússlandi nam útflutningur Rússlands til Úkraínu árið 2021 8 milljörðum og 129,5 milljónum dollara, sem var 28,8% meiri útflutningur en árið 2020. Um þriðjungur viðskiptanna er vegna sölu á eldsneyti og smurefnum samkvæmt frétt Nezygar Telegram.

Samkvæmt hernaðar­sérfræð­ingum sem Nezygar vitnar til í Rússlandi, mun Úkraína ekki geta bætt sér það upp ef Rússland og Belarus stöðva eldsneytis- og smurolíuflutninga til landsins. Hvorki með varabirgðum né eldsneytisflutningum af hálfu NATO.

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...