Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Verulegur samdráttur í milliríkjaviðskiptum með kornvörur í kjölfar stríðsátaka
Fréttaskýring 31. mars 2022

Verulegur samdráttur í milliríkjaviðskiptum með kornvörur í kjölfar stríðsátaka

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Stríðsátök í Úkraínu hafa vakið óvissu um að þjóðir heims geti ekki tryggt sitt fæðu­öryggi. Samkvæmt gögnum utanríkisþjónustu landbúnaðarráðuneytis Banda­ríkjanna (United States Depart­ment of Agriculture – USDA), þá stendur Úkraína fyrir um 10% af hveiti sem fer á útflutningsmarkaði á heimsvísu. Rússland var talið standa fyrir um 16% af hveiti á þeim markaði á markaðsárinu 2021/22.

Megnið af hveitinu frá Úkraínu er að jafnaði flutt úr landi á fyrstu mánuðum hvers árs, en markaðsárið er talið frá byrjun júlí til loka júní. Eins og staðan er nú er ólíklegt að sá útflutningur gangi hnökralaust fyrir sig. Vitað er að í Úkraínu eru miklar birgðir af hveiti í tönkum sem ekki tókst að selja úr landi áður en átökin hófust. Þá er ljóst að verð hefur líka verið að hækka umtalsvert.

Verð á nokkrum tegundum af hveiti hafði verið að sveiflast vegna lítils framboðs í kjölfar þurrka á síðasta ári, en var á greinilegri uppleið. Við innrás Rússa í Úkraínu tók verðið hins vegar stökk í öllum tegundum hveitis, einkum á útflutningskvótum. Þar voru dæmi um að kvótaverð á vetrarhveiti (Hard Red Winter - HRW) færi úr 162 dollurum tonnið upp í 539 dollara á einum sólarhring. Þá eru miklar áhyggjur yfir að fram undan séu þurrkar á helstu ræktunarsvæðum.

Um 6,9 milljóna tonna nettó samdráttur í milliríkjaviðskiptum með kornvörur

Verulega hefur dregið úr milliríkjaviðskiptum með kornvörur vegna viðskiptabanns og annarra vandræða sem orsakast hafa af stríðsátökum í Úkraínu. Samkvæmt tölum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna nú um miðjan mars, nam sá samdráttur samtals 11,4 milljónum tonna á móti auknum viðskiptum í sex ríkjum sem nemur 4,5 milljónum tonna. Nettó samdráttur í viðskiptum með kornvörur nam því um 6,9 milljónum tonna. Nokkur ríki hafa síðan verið að auka sinn innflutning sem nemur í heild 800 þúsund tonnum. Þar á meðal er Belarus (Hvíta-Rússland) sem hefur aukið innflutning frá Rússlandi úr 100 í 400 þúsund tonn.

Mikill samdráttur í kornvöruútflutningi frá Úkraínu

Langmest voru áhrifin á Úkraínu sem hefur undanfarin ár verið að flytja út um 24 milljónir tonna af hveitikorni. Þar er samdráttur upp á 4 milljónir tonna. Þá kemur Rússland, sem hefur verið að flytja út 25 milljónir tonna, en hefur þurft að horfa upp á samdrátt upp á 3 milljónir tonna. Einnig hefur þetta þýtt minni innflutning á kornvörum til ESB ríkja sem nemur um 400 þúsund tonnum.

Indland hefur staðið vel varðandi sín kornmál og þar hefur verið mikil birgðasöfnun. Hefur landið því verið að auka útflutning sinn úr 7 í 10 milljón tonn og nemur aukningin því um 3 milljónum tonna.

Ástralía stendur einnig vel vegna góðrar uppskeru og þar hefur útflutningur aukist um eina milljón tonna, eða úr 26 í 27 milljón tonn.

Rússar halda áfram viðskiptum innan Efnahagsbandalags Evrasíu

Rússar voru þegar byrjaðir að skipa út hveiti í febrúar. Hafa þeir notið viðskiptavildar hjá Efnahagsbandalagi Evrasíu EAEU og flutt út með skipum um Kaspíahaf. Í þessu efnahagsbandalagi eru auk Rússa, Armenía, Belarus, Lýðveldið Kasakhstan og Lýðveldið Kyrgys. Hveitiviðskipti Rússa á þennan markað koma til viðbótar öflugum útflutningi frá Evrópusambandinu, Indlandi og Ástralíu.

Útflutningur á maís fór strax að hökta við innrás Rússa

Af útflutningi á korni eða maís hafa Úkraína og Rússland saman­lagt staðið fyrir um 16% af milliríkjaviðskiptunum á heimsvísu. Útflutningur þessara ríkja á maís fór strax að hökta við innrás Rússa í Úkraínu. Útflutningur á maís frá Rússlandi hélst þó óbreyttur um Kaspíahaf.

Minnkandi hlutdeild Úkraínu og Rússlands á heimsmarkaði í hveiti og maís verður að líkindum að hluta mætt með auknum útflutningi Bandaríkjanna að mati USDA. Þá ætti ný uppskera frá Brasilíu og Argentínu að koma á markað innan fárra mánaða, en það gæti þó oltið á því hvernig þeim þjóðum hefur tekist að tryggja sér áburð.

Um 6 milljóna tonna samdráttur í útflutningi á maís frá Úkraínu

Útflutningur Úkraínu á maís dregst saman úr 33,5 í 27,5 milljón tonn, eða um 6 milljónir tonna. Á móti kemur að Bandaríkin munu auka sinn útflutning um 2 milljónir tonna, eða úr 61,5 í 63,5 milljónir tonna. Bandaríkin eru jafnframt langstærsti útflytjandi heims á maís.

Nokkuð góð staða varðandi bygg

Úkraína og Rússland hafa staðið samanlagt fyrir um 30% af útflutn­ings­markaði á byggi. Við­skipti hafa þar verið nokkuð blómleg með auknu framboði frá Ástralíu og Kanada. Var framleiðsla Kanada­manna reyndar mun meiri en búist var við. Þá voru Úkraínumenn þegar búnir að skipa út megninu af sínu byggi áður en átökin hófust. Áhrifin af stríðsátökunum í Úkraínu hafa því væntanlega mun minni áhrif á byggmarkaðinn en varðandi maís og hveiti.

Verð á hrísgrjónum hækkar líka

Þótt framboð og verð á hefð­bundn­um kornvörum hafi verið að sveiflast mjög, þá á það ekkert síður við hrísgrjónamarkaðinn. Framleiðsla á hrísgrjónum hefur aukist á Indlandi og í Taílandi, sem gerir meira en að vega upp samdrátt í Brasilíu. Sömuleiðis hefur hrísgrjónaneysla aukist á Indlandi sem nemur meiru en samdrætti í hrísgrjónaneyslu í Brasilíu og á Madagaskar samanlagt.

Milliríkjaviðskipti með hrísgrjón hafa verið að aukast þvert á það sem hefur verið að gerast með aðrar korntegundir. Þetta gerist á sama tíma og verð á hrísgrjónum hefur snarhækkað. Þar má nefna að kvótaverð á hrísgrjónum í Bandaríkjunum hefur hækkað um 45 dollara, eða í 655 dollara tonnið. Er það einkum þröng birgðastaða sem er sögð vera að þrýsta upp verðinu. Verð í Víetnam hefur hækkað vegna lágrar birgðastöðu um 8 dollara og var þar komið í 400 dollara. Verð á Indlandi hækkaði um 5 dollara og fór í 360 dollara tonnið. Aftur á móti hefur kvótaverð lækkað í Taílandi um 5 dollara tonnið og stóð um miðjan mars í 424 dollurum. Í Pakistan lækkaði verðið um 8 dollara og fór í 351 dollar tonnið.

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...