Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þegar öll svínabú landsins verða búin að breyta húsunum hjá sér samkvæmt nýrri aðbúnaðarreglugerð sem tekur gildi í janúar 2025, mun íslensk svínarækt standa öðrum löndum framar hvað dýravelferð varðar. Hér má sjá nýja gotstíu í Laxárdal þar sem gyltan hefur gott rými til að athafna sig og grísirnir geta verið öruggir í sínu horni. Rétt eftir got er mikil hætta á að gylturnar leggist á grísina og eru hreyfingar þeirra því takmarkaðar í fimm daga með því að skorða þær milli grindanna sem sjást á myndinni.
Þegar öll svínabú landsins verða búin að breyta húsunum hjá sér samkvæmt nýrri aðbúnaðarreglugerð sem tekur gildi í janúar 2025, mun íslensk svínarækt standa öðrum löndum framar hvað dýravelferð varðar. Hér má sjá nýja gotstíu í Laxárdal þar sem gyltan hefur gott rými til að athafna sig og grísirnir geta verið öruggir í sínu horni. Rétt eftir got er mikil hætta á að gylturnar leggist á grísina og eru hreyfingar þeirra því takmarkaðar í fimm daga með því að skorða þær milli grindanna sem sjást á myndinni.
Mynd / ÁL
Í deiglunni 1. febrúar 2023

Búgrein á tímamótum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Svínakjöt er þriðja mest selda kjötið á íslenskum markaði og eru vinsældir þess stöðugt að aukast. Kjúklingakjöt trónir á toppnum og lambakjöt rétt þar á eftir. Þrátt fyrir að neytendur velji í síauknum mæli svínakjöt, þá stendur búgreinin fyrir miklum áskorunum, eins og ákalli um aukinn innflutning og hertum kröfum um aðbúnað. Tækifæri geta þó leynst í því síðarnefnda, því þegar öll svínabú landsins verða búin að breyta aðstæðum í samræmi við nýja aðbúnaðarreglugerð, verður íslensk svínarækt með forskot á nágrannalöndin hvað varðar dýravelferð.

Á Íslandi eru átta aðilar sem reka 18 svínabú samkvæmt upplýsingum frá Mast. Samþjöppun hefur orðið í greininni og eru nokkrir aðilar orðnir mjög stórir. Þar af er Stjörnugrís stærst með sjö bú og Síld og fiskur með þrjú. Síðarnefnda fyrirtækið markaðssetur sínar vörur undir vörumerkinu Ali. Svínabúin eru nokkuð mismunandi að stærð og gerð. Sum þeirra taka einungis á móti litlum grísum og ala fram að slátrun. Önnur eru með gyltur sem gjóta að jafnaði tvisvar á ári. Matvælastofnun skilgreinir fyrri gerðina sem eldisbú og þá síðari sem gyltubú og verður sú afmörkun einnig notuð hér. Greinin gengur í gegnum mikið breytingaskeið núna, en 1. janúar 2025 tekur í gildi ný aðbúnaðarreglugerð, eftir tíu ára aðlögunarferli. Ein veigamesta breytingin snýr að gyltunum, en hver og ein mun fá 40% meira gólfpláss og verða þær í lausagöngu í rúmgóðum gotstíum, í stað þess að vera lokaðar í þröngum básum. Reglugerðin mun einnig krefjast lausagöngu og meira rýmis fyrir gyltur og grísi á flestum stigum ræktunarinnar.

Fjölskyldubú í Laxárdal

Í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er Grís og Flesk ehf. með meginhluta sinnar starfsemi. Það er eitt af þeim búum sem eru komin hvað lengst í að aðlagast nýrri aðbúnaðarreglugerð. Grís og Flesk er fjölskyldufyrirtæki og eru tvær kynslóðir sem standa saman í rekstrinum, annars vegar Hörður Harðarson og María Guðný Guðnadóttir og hins vegar Björgvin Þór Harðarson og Petrína Þ. Jónsdóttir. Feðgarnir Hörður og Björgvin sátu fyrir svörum og leiddi Björgvin blaðamann í gegnum byggingarnar. Laxárdalur er eitt af fimm búum á landinu sem er bæði gyltu- og eldisbú. Gylturnar eru 200 og er stærstur hluti grísanna alinn upp í sláturstærð. Vegna plássleysis þurfa þeir þó að selja öðrum eldisbúum hluta sinna grísa.

Búið í Laxárdal er fjölskyldubú. Hér sjást Hörður Harðarson, María Guðný Guðnadóttir og Björgvin Þór Harðarson. Petrína Þórunn Jónsdóttir, eiginkona Björgvins, sér um kjötvinnsluna og allt sem að henni snýr.

Nýtt gyltuhús

Í Laxárdal var nýlega byggt nýtt gothús. Samkvæmt Herði var kostnaðurinn mjög hár og hefðu bændurnir ekki haft bolmagn til að leggjast í svo dýrar framkvæmdir nema með stuðningi frá ríkinu. Hann segir að ríkið hafi tileinkað 400 milljónum króna í framkvæmdastyrki sem áttu að nýtast til endurbóta á svínabúum. Hörður segir að nú sé þessi sjóður tómur og enn eigi margir eftir að ljúka við sína aðlögun.

Björgvin segir að í nýja húsnæðinu sé aðstaða gripanna ekki einungis betri, heldur hafi vinnuaðstaða starfsfólksins batnað til muna.

Björgvin segist sjá talsverðan mun á gyltunum eftir að betri aðstaða var tekin í gagnið. Þær mjólka betur, eru almennt hraustari og grísirnir stækka hraðar. Fóðrunin hefur jafnframt aukist, þar sem gylturnar hreyfa sig meira og aukin hætta er að þær mjólki af sér holdin. Aðstaða gripanna hefur ekki einungis stórlagast, heldur er öll vinnuaðstaða starfsfólksins orðin betri, en svínarækt krefst mikillar umhirðu.

Gotstían er ferningslaga. Eitt hornið er stúkað af þannig að grísirnir einir komast þar að og er þar afdrep þar sem þeir geta legið undir hitalampa. Í kringum got er mikil hætta á að gylturnar leggist á grísina. Þess vegna eru stíurnar útbúnar þannig að hægt er að leggja grindur að gyltunum og hreyfingar þeirra takmarkaðar í fimm daga. Annars er rými gyltunnar þannig að hún getur snúið sér í allar áttir og verið í öllum stellingum án þess að þrengt sé að henni. Hver gylta gýtur að jafnaði tvisvar á ári og gefur hvert got af sér á bilinu 12-17 grísi, sem skilar sér í 1,8 tonnum af kjöti á ári. Gylturnar geta sjaldnast hugsað um fleiri en 14 gríslinga hverju sinni og því eru þeir oft færðir á milli gyltna ef þess þarf. Eftir got eru grísirnir í fjórar vikur í stíu með móður sinni. Álagið dreifist jafnt yfir allt árið, en í Laxárdal eru 18 gyltur sem gjóta aðra hverja helgi.

Stutt skott minnkar nart

Eftir got eru vígtennurnar slípaðar og klippt aftan af skottinu á gríslingunum. Ástæðan fyrir því að betra er að stytta halann er sú að annars fara grísirnir að naga hver annan, sem veldur sársauka og leiðir til sýkingarhættu. Laxárdalsbændur hafa prófað að sleppa skottklippingum með áðurgreindum afleiðingum. Björgvin segir mun meiri dýravelferð í því að stytta skottið, en að gera það ekki.

Grísirnir fá verkjalyf áður en halarnir eru styttir og er klippingin framkvæmd með heitri töng, sem stöðvar blæðingu, og eru grísirnir fljótir að jafna sig. Feðgarnir telja að sársaukinn sé minni en lömb finna þegar þau eru mörkuð.

Ungir grísir í eldi – hér verða litlar breytingar þegar nýjar aðbúnaðarkröfur taka gildi, fyrir utan auknar kröfur um rými fyrir hvern einstakling.

Geldingar alfarið hættar

Hér áður tíðkaðist að karlkyns gríslingar væru geltir þremur dögum eftir got, en annars kom óbragð af kjötinu – ekki ósvipað hrútabragði. Sú meðferð fékk mikla gagnrýni og var alfarið hætt að gelda grísi á Íslandi árið 2016. Björgvin segir að nú séu þeir bólusettir gegn galtalyktinni með próteinefni sem hægir á vexti eistnanna. Ekki er hægt að kalla þessa meðferð lyfjageldingu þar sem áhrifin ganga til baka að ákveðnum tíma liðnum.

Hörður segist ekki vita af öðru landi en Íslandi þar sem geldingum hefur alfarið verið hætt. „Þeir sem tala mest um dýravelferð minnast aldrei á þessa byltingu sem varð þegar við hættum að gelda. Ísland ber af hvað þetta varðar. Innflutt svínakjöt kemur frá löndum þar sem ekki hafa verið settar sambærilegar reglur og hér gilda um geldingar.“

Grísaeldið og tilhleypingar

Eftir fráfærur er grísunum komið fyrir í stíum þar sem þeir fá að vaxa í sex til tíu vikur. Þeim er slátrað 150 til 160 daga gömlum. Þá hafa þeir náð nálægt 100 kílóa þunga, sem gefur 80 kílóa fallþunga. Nýju aðbúnaðarreglurnar gera kröfu um aukið rými á hvern grís. Bændur munu einnig þurfa að vera með þéttari gólfgrindur og á hluti stíanna að vera með lokuðu gólfi.

Gylturnar fara í tilhleypingadeild eftir fráfærur. Til að örva kynlöng- unina er göltur hafður í sama rými, en gylturnar hafa ekki beinan aðgang að honum, heldur eru þær allar sæddar eftir fimm daga. Þaðan fara þær yfir í fangdeild og fara í sónarskoðun eftir fjórar til sex vikur. Ef þær reynast ekki hafa fest fang, þá fara þær aftur í tilhleypingadeildina. Hafi sæðingin heppnast, þá dvelja þær áfram í fangdeildinni þangað til viku fyrir got. Meðgangan tekur 116 daga, eða þrjá mánuði og þrjár vikur. Fyrsta gotið er oftast þegar gylturnar eru eins árs gamlar og ná þær sex til átta meðgöngum.

Hingað til hafa gylturnar verið látnar dvelja meðan á meðgöngunni stóð í einstaklingsbásum – sambærilegum þeim og í básafjósum. Í nýju aðbúnaðarkröfunum er farið fram á að þær séu hafðar í lausagöngu með öðrum gyltum og hefur fangdeildin í Laxárdal verið að hluta til aðlöguð samkvæmt því.

„Við finnum mun á gyltunum sem eru lausar og þeim sem eru á básum. Þeim líður flestum betur og þær eiga auðveldara með að hreyfa sig þegar við erum að reka þær á milli húsa,“ segir Hörður. Hann segir þó sumar gyltur þrífast illa í hóp og greinilega líða betur í bás.„Það sem skiptir máli fyrir okkur er að við getum haldið áfram á þessari vegferð, að auka og bæta velferð dýranna,“ segir Hörður, en bætir við að til þess þurfi fjármagn frá hinu opinbera. „Markaðurinn stendur ekki undir þessari fjárfestingu.“

Gyltur í fangdeild. Hér sjást gyltur í lausagöngustíu sem búið er að breyta skv. nýjum kröfum, en áður voru þær hafðar á einstaklingsbásum. Oft er hægt að breyta gömlum húsum þar sem gyltur eru í fangdeild, en stundum er ekki komist hjá því að byggja nýtt.

Vilja bæta samkeppnisstöðu

Svínabændur fá ekki beingreiðslur frá ríkinu. „Enda er ég á því að við viljum ekki fá svoleiðis. Ef þú ætlar að fá styrk frá ríkinu, þá verða það að vera peningar sem eru settir í einhver ákveðin verkefni. Verkefnagreiðslurnar eiga að snúast um það að gera búgreinina samkeppnishæfari við innflutning,“ segir Björgvin.

Aðspurðir telja feðgarnir að 20-30% af því svínakjöti sem neytt sé hérlendis sé innflutt. „Síðurnar eru ábyggilega stærsti hlutinn af þessum innflutningi,“ segir Hörður, en þær fara í beikon.

Fúkkalyf

Björgvin segir að íslensk svínakjötsframleiðsla hafi þá sérstöðu að notkun sýklalyfja er í algjöru lágmarki. Víða erlendis tíðkast að fúkkalyfjum sé sprautað í allan hópinn að staðaldri, eða að lyfjum sé blandað í fóðrið til að fyrirbyggja sýkingar. Hérlendis er hins vegar ekki gripið til lyfjanna nema gripirnir séu sannarlega veikir og þurfi á þeim að halda. Gyltur þurfi stundum pensillín eftir got en eldisgrísir fá slíkt nær aldrei.

Neysla eykst – innlend framleiðsla ekki

Bændablaðið setti sig í samband við Geir Gunnar Geirsson, forstjóra Stjörnugríss hf., sem eins og áður segir er stærsti aðilinn í svínarækt á landinu, með samtals 1.900 gyltur og eldi á sjö búum, ásamt sláturhúsi og kjötvinnslu á Kjalarnesi. Hann segir fyrirtækið sitt róa öllum árum að því að vera búið með allar framkvæmdir áður en breyttar kröfur um aðbúnað taka gildi. Mikið skrifræði og heimsfaraldur hafa þó valdið töfum. Geir Gunnar sagði að stjórnvöld hafi verið með mjög ójafna skiptingu á framkvæmdastyrkjunum sem veittir voru ef horft er á hvern grip, en hver gylta hjá honum fékk minni styrk samanborið við aðra svínaræktendur.

Hann segir að æskilegast væri ef sem mest af svínakjöti væri framleitt hér innanlands, en vegna samninga við Evrópusambandið, þá mun alltaf eitthvað vera flutt inn. Innlend framleiðsla hefur staðið í stað undanfarin 15 ár, en neyslan á svínakjöti hefur aukist – og er þeirri neysluaukningu svarað með innflutningi.

Stjörnugrís byrjaði með kjötvinnslu fyrir nokkrum árum og er hluti afurðanna sem fer þar í gegn innfluttur. Aðspurður af hverju fyrirtæki hans standi í innflutningi, segir Geir Gunnar að hann hafi engra kosta völ. Á hverju ári eru gefnir út tollkvótar og yrði þetta kjöt flutt inn hvort eð er. Með því að hluti afurðanna sé innfluttur náist betri nýting á kjötvinnslunni.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...