Metframleiðsla á mjólk
Innvigtun á mjólk nam 146 milljónum lítra á síðasta ári sem er mesta mjólk sem vigtuð hefur verið inn frá upphafi. Framleiðslan 2015 var 12,5 milljón lítrum meiri en árið 2014.
Í frétt á heimasíðu Landssambands kúabænda segir að fyrstu sex mánuði ársins 2015 hafi aukning innvigtunar verið tiltölulega hófleg. Aukning á innvigtun einstakra vikna var 4 til 6% að jafnaði. Í viku 27 urðu síðan vatnaskil, er aukning vikuinnvigtunar varð 12% og hélst sú aukning á bilinu 12 til 14% svo að segja út árið 2015. Heildarniðurstaðan varð 9,4% aukning innvigtunar 2015 frá árinu áður.
Þegar litið er til þróunar í fjölda burða undanfarin ár sést að framan af ári fjölgaði burðum um 3 til 8% miðað við sömu mánuði árið á undan. Hlutfallslega varð mesta aukningin þegar kom fram á sumar. Skráðir burðir í júní og júlí voru 14 til 15% fleiri en árið á undan.