Úthlutun nýliðunarstyrkja í mjólkurframleiðslu
Búnaðarstofa Matvælastofnunar hefur úthlutað nýliðunarstyrkjum til tólf aðila í mjólkurframleiðslu fyrir árið 2016, en 27 og hálf milljón var til úthlutunar.
Samkvæmt tilkynningu Matvælastofnunar bárust 16 umsóknir, ein umsókn var dregin til baka og þrjár uppfylltu ekki tilskilin skilyrði.
Úthlutað er eftir reiknireglum um úthlutun framlaga samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 2004 og verður 90 prósent samþykkts framlags greitt fyrir áramót og lokagreiðsla greidd í janúar 2017 þegar fjöldi árskúa ársins 2016 liggur fyrir.
Með nýjum búvörusamningum breytast nýliðunarstyrkir í landbúnaði og verða almennir fyrir allar búgreinar, en ekki sérstakir nýliðunarstyrkir í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt eins og var í fyrri búvörusamningi. Reglugerð um almennan stuðning í landbúnaði, sem verður gefin út fyrir áramót, tilgreinir með hvaða hætti verður staðið að úthlutun samkvæmt nýjum reglum.