Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Eigendur Espiflatar á 70 ára afmælinu 1. maí 2018. Talið frá vinstri; Áslaug Sveinbjarnardóttir, Sveinn A. Sæland, Axel Sæland og Heiða Pálrún Leifsdóttir.
Eigendur Espiflatar á 70 ára afmælinu 1. maí 2018. Talið frá vinstri; Áslaug Sveinbjarnardóttir, Sveinn A. Sæland, Axel Sæland og Heiða Pálrún Leifsdóttir.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 17. maí 2018

Fjölskyldufyrirtæki sem ræktar blóm af ástríðu og mikilli alúð

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Garðyrkjustöðin Espiflöt við Reykholt í Biskupstungum átti 70 ára afmæli þann 1. maí. Var þeim tímamótum fagnað er eigendur og starfsfólk buðu gestum til veislu. 
 
Grunnur að garðyrkjustöðinni Espiflöt var lagður þann 1. maí 1948, þegar hjónin Eiríkur og Hulda Sæland fluttust búferlum úr Hafnarfirði og settust að í Reykholti til að stofna þar garðyrkjubýli. 
 
Nafn garðyrkjubýlisins var raunar Sjónarhóll allt fram til 1958, þegar því var breytt í Espiflöt.
 
Fram undir 1965 var eingöngu ræktað grænmeti á Espiflöt en á árunum 1965–1977 var blönduð ræktun blóma og grænmetis. Á þessum árum var garðyrkjustöðin um 1300 m2 að flatarmáli.
 
Kaflaskil 1977
 
Árið 1977 hófst nýr kafli í rekstrinum er synir þeirra, Stígur og Sveinn, ásamt eiginkonum þeirra, Aðalbjörgu og Áslaugu, stofnuðu með þeim Félagsbúið Espiflöt sf.
 
Ákveðið var að sérhæfa sig í ræktun afskorinna blóma þar sem blandaða ræktunin gafst ekki vel, m.a. með tilliti til notkunar varnarefna.
 
Garðyrkjustöðin var stækkuð og endurnýjuð á næstu árum samhliða því að leigja garðyrkjustöðvarnar Friðheima og seinna Birkilund fyrstu sex árin.
 
Árið 1987 urðu enn þáttaskil í starfseminni þegar Stígur og Aðalbjörg stofnuðu sína eigin garðyrkjustöð á lóð Espiflatar og hurfu úr rekstrinum.
 
Stofnendur Espiflatar drógu sig í hlé 1998
 
Þann 1. maí 1998, eða nákvæmlega eftir 50 ára búsetu, hættu Eiríkur og Hulda þátttöku í rekstrinum og fluttu á Selfoss eftir langt og farsælt starf. 
 
Hjónin Sveinn A. Sæland og Áslaug Sveinbjarnardóttir eignuðust þá stöðina að fullu og ráku hana áfram undir nafninu Espiflöt ehf. 
 
Axel og Heiða Pálrún urðu meirihlutaeigendur 2013
 
Árið 2006 flutti sonurinn Axel Sæland, sem er menntaður íþrótta- og garðyrkjufræðingur, og kona hans, Heiða Pálrún Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur heim á Espiflöt og komu þá smám saman  inn í reksturinn. Var síðan haldið upp á það 1. maí 2013 að þau hafa eignast ráðandi hlut í stöðinni, eða 51%. Þá var ræktunarflatarmál garðyrkjustöðvarinnar rúmlega 6.300 fermetrar auk véla-, kæli- og pökkunarrými.
 
Nú er enn búið að bæta við vinnslurýmið með 480 m2 fermetra nýbyggingu sem ber heitið Smiðjan að uppástungu Margrétar Sverrisdóttir sem á lengstan starfsaldur af starfsmönnum stöðvarinnar. Grunnur var steyptur í snjó og frosti á haustdögum 2017. Byrjað var að reisa húsið 8. desember og var búið að loka byggingunni á Þorláksmessu, 23. desember. Tvöfaldar nýja byggingin pökkunar- og frágangsrými stöðvarinnar. Hafa allar byggingar á svæðinu ýmist verið endurnýjaðar eða byggðar frá grunni eftir 1979. 
 
Áhersla á lífrænar varnir gegn sníkjudýrum
 
Í ræðu sem Axel Sæland hélt á 70 ára afmælinu lagði hann m.a. áherslu á lífræna nálgun í öllum þáttum framleiðslunnar. Þannig nýti þau lífrænar varnir til að halda niðri sníkjudýrum í stað eiturefna eins og áður var algengt. Þar hafa eigendur Espiflatar verið í fararbroddi og fyrirmynd annarra garðyrkjustöðva sem fetað hafa í sömu spor.
 
Einn vandinn við ræktun matjurta og blóma er að margvísleg sníkjudýr, flugur og bjöllur sækja í hinar ýmsu tegundir og geta oft valdið miklum skaða. Lengi vel þótti  þægilegast og öruggast að bregðast við ásókn skordýra með lyfjum og ýmsum varnarefnum. Á síðari árum hafa viðhorfin gagnvart slíkri efnanotkun verið að breytast mjög hratt enda aukin vitund um skaðsemi þeirra á heilsu manna. Eru fluttar inn ákveðnar tegundir af flugum, bjöllum og maurum til að sinna því hlutverki að halda óæskilegum sníkjudýrum í skefjum. 
 
Síðastliðin 17 ár hafa eingöngu verið notaðar lífrænar varnir á Espiflöt í ákveðnum tegundum og hafa eigendur verið að þróa sig í þá átt líkt og grænmetisframleiðendur, en þar eru nú einnig nær eingöngu notast við lífrænar varnir.  
 
Mikill metnaður fyrir gæðaframleiðslu
 
„Okkar metnaður verður alltaf að skaffa eins mikil gæði og við mögulega getum. Einnig gott úrval og að vera á tánum gagnvart nýjungum. Þarna teljum við okkur vera á réttri leið inn í okkar framtíð.
 
Umhverfismál er hlutur sem skiptir okkur alltaf meira og meira máli og fólk hugsar sífellt meira um. Þar erum við að sjálfsögðu alltaf að hugsa um hvað við getum gert betur. Lífrænar varnir teljum við okkur vera svolitla brautryðjendur í og margir hafa tekið upp. Í dag myndi ég segja að við séum að 99% hluta í lífrænum vörnum.“ 
 
Sérstaða Íslands og endurvinnsla á vatni
 
Feðgarnir Sveinn og Axel lögðu báðir áherslu á þá sérstöðu sem Ísland býður upp á með raforku frá endurnýjanlegum auðlindum, jarðhitavatni og hreinu íslensku vatni sem enn er gnægð af. Axel sagði að þrátt fyrir að mikið sé til af vatni, þá leggi þau áherslu á að næstu stóru skref garðyrkjustöðvarinnar séu að hreinsa og endurnýta allt vatn sem fer í gegnum stöðina. 
 
„Við höfum verið með það á tilraunastigi í sex ár að endurvinna vatnið í hluta garðyrkjustöðvarinnar. Allt vatn sem plönturnar skila frá sér getum við tekið til baka og notað aftur. Í nýja húsinu skapast ný tækifæri til þess. Það er bæði umhverfislega og sparnaðarlega mjög stórt skref,“ segir Axel. 
 
Vilja losa sig við plast við pökkun blóma
 
Notkun á plasti við pökkun á blómum er þó sá þáttur sem Axel sagði að þau skömmuðust sín fyrir. Það væri þó sá veruleiki sem þau þyrftu að búa við þar til aðrar lausnir finnast.
 
„Við erum svolítið strand í þessum efnum, þannig að öll góð ráð eru vel þegin, því við höfum engar töfralausnir varðandi þetta eins og er.“ 
 
Garðyrkjan nýtur ekki ívilnunar  í magnviðskipum með raforku
 
Gróðurhúsaræktun tekur til sín mikla orku og þá aðallega varðandi lýsingu í húsunum. Sveinn segir að garðyrkjustöðin Espiflöt sé alls ekki stærst hvað raforkukaup til lýsingar varðar. Á 65 ára afmælinu fyrir fimm árum sagði Sveinn að Espiflöt væri að kaupa hátt í fjórar milljónir kílówattstunda. Það væri um 15 til 20% af rekstrarkostnaði. Raforkukostnaður væri því verulegur þegar meðal kílówattstund kostaði tæpar 6 krónur. Sagðist hann á þeim tímamótum bera þá von í brjósti að það kæmi hér til valda fólk sem hafi meiri skilning á því að garðyrkjan sem heild fengi að njóta magnkaupa á raforku. 
 
 „Þessi grein er að kaupa ríflega 70 milljónir kílówattstunda á ári og á bak við þessi kaup eru innan við 30 framleiðendur á mjög afmörkuðum svæðum. Okkur þykir því hart að fá ekki að njóta stærðaráhrifanna betur en í dag. Sem dæmi þá eru þrjár  garðyrkjustöðvar hér í Reykholti sem eru að nota álíka mikla raforku og öll heimili á Árborgarsvæðinu,“ sagði Sveinn fyrir fimm árum. 
 
Vegna þessarar stöðu fengu garðyrkjubændur verkfræðistofu til að skoða arðsemi af uppsetningu á eigin dreifikerfi garðyrkjunnar á svæðinu í kringum Laugarás, Flúðir og Reykholt. Niðurstaðan var sú að slík veita myndi borga sig upp á fimm til sjö árum þannig að augljóst væri að RARIK myndi missa þar drjúgan spón úr aski sínum. 
 
Frá því það var sagt hafa fjórar ríkisstjórnir setið við völd, raforkuverð hefur ekki lækkað, en búið að auka mikið við starfsemina í garðyrkjunni. Búið er að byggja við víða m.a. með um 7.000 fermetra nýbyggingu hjá gróðrarstöð Lambhaga í Reykjavík og um 2.000 fermetra á Hveravöllum sunnan við Húsavík. Mikil aukning hefur því orðið á orkunotkun garðyrkjunnar á Íslandi samfara aukinni erlendri samkeppni. Lítið virðist hins vegar enn vera að frétta af auknum skilningi á þeirri ósk garðyrkjubænda að garðyrkjan fái notið magninnkaupa á raforku. Raforkudreifingin hefur að vísu verið greidd niður en með fastri krónutölu. Með auknum umsvifum og fjölgun í greininni eru hins vegar fleiri um hituna og hefur hlutfall niðurgreiðslunnar á dreifingu því lækkað að mati Axels Sæland, eða úr hátt í 90% í um 67%. 
 
Samkvæmt heimildum Bændablaðsins munu einhverjir grænmetisframleiðendur hafa íhugað að draga úr lýsingu í gróðurhúsum yfir vetrartímann til að mæta auknum rekstrarkostnaði. Það gæti þýtt mikinn samdrátt í innlendri framleiðslu og aukinn innflutning með tilheyrandi gjaldeyrissóun fyrir þjóðarbúið. 

36 myndir:

Skylt efni: Espiflöt | blómarækt

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....