Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hamphúsið sem stendur í Grímsnesinu.
Hamphúsið sem stendur í Grímsnesinu.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 12. desember 2023

Fyrsta íslenska hamphúsið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrsta íslenska hamphúsið var reist í sumar í Grímsnesinu. Iðnaðarhampur er fjölhæf nytjajurt og talin ákjósanleg til að mynda bæði sem lækningajurt og hráefni til húsbygginga.

Það var arkitektastofan Lúdika sem hannaði og byggði húsið. Úr trefjaríkum stilkunum er búin til hampsteypa sem þykir búa yfir ýmsum eftirsóknarverðum eiginleikum byggingarefnis; til dæmis varðandi kolefnisbindingu, einangrun, gegndræpi, veðrunarþol og þol gegn myglu.

Banni á ræktun aflétt 2020

Ræktun á iðnaðarhampi var bönnuð á Íslandi í mörg ár, en banninu var aflétt árið 2020 – ekki síst vegna baráttu Hampfélagsins sem stofnað var í september árið 2019.

Leyfilegt er að rækta þessa tegund hamps sem inniheldur minna en 0,2 prósent af THC sem er virka vímuefnið í lyfjahampinum, systurplöntu iðnaðarhampsins.

Í blómum og blöðum iðnaðarhamps er efnið CBD að finna, sem talið er að geti haft jákvæð heilsufarsleg og róandi áhrif á fólk, án þess að vera vímugefandi.

Sigurður Hólmar Jóhannesson.

Fæðubótarefni selt sem húðvara

Ræktunin á iðnaðarhampinum hefur stóraukist frá því leyfið fékkst, en áætlað var að um 150 hektarar lands hafi verið teknir undir þessa ræktun á síðasta ári. Sigurður Hólmar Jóhannesson, sem er í ráðgjafaráði Hampfélagsins, segir að í ár sé gert ráð fyrir að ræktað hafi verið á 120– 150 hekturum. Hann segir ólíklegt að ræktunin aukist að ráði fyrr en búið sé að fjárfesta í stórvirkum vinnsluvélum til að vinna efnið.

„Nokkrir bændur eru byrjaðir að rækta hamp innandyra og selja sem te aðallega en einnig í ýmislegt annað. Nokkur félög eru enn þá í vöruþróun fyrir framleiðslu á hampplasti, hampkubbum til bygginga, líni í fatavinnslu og fleira mætti nefna. Hamphúsið í Grímsnesinu er nú tilbúið og í vetur fara fram rannsóknir á loftgæðum, einangrun og fleiru til þess að sjá hvernig húsið stendur sig í íslenskri veðráttu,“ segir Sigurður þegar hann er spurður um hvað verið sé að vinna úr þessu hráefni öllu. „Bændur eru byrjaðir að kaupa tæki til vinnslu en enn þá vantar styrki frá ríkinu til þess að kaupa stórvirkar vinnsluvélar,“ bætir hann við.

Ruglingslegt lagaumhverfi

Lagaumhverfið sem lýtur að framleiðslu og sölu á hampvörum til heilsubótar hefur verið að vissu leyti ruglingslegt í augum neytenda. Til að mynda hefur ekki verið leyft að selja CBD olíu, sem unnin er úr iðnaðarhampi, sem fæðubótarefni. „Lagaumhverfið er óbreytt,“ segir Sigurður. „CBD er enn þá flokkað sem lyfjaefni og því má aðeins selja það sem húðvöru, þrátt fyrir að margir aðilar séu að selja CBD fæðubótarefni sem er skráð sem húðvara. En það bannar ekkert neytendum að taka inn CBD vörur sem eru framleiddar sem fæðubótarefni.“

Sigurður segir að á döfinni hjá Hampfélaginu sé að halda ráðstefnu um hampinn fljótlega á næsta ári og verður lögð áhersla á lyfjahamp meðal annars. „Hampfélagið frumsýndi nýlega í Bíó Paradís heimildarmyndina Græna byltingin, sem var unnin af kvikmyndafélaginu Hókus Fókus en hún segir frá fyrstu skrefunum í hampræktun á Íslandi, auk þess að fara yfir alla þá möguleika sem plantan býður upp á. Hún er núna aðgengileg í Sjónvarpi Símans.“

Skylt efni: hampur | iðnaðarhampur | Hamphús

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....