Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hefur helgað líf sitt baráttu fyrir verndun Þjórsárvera
Mynd / Úr einkasafni
Líf&Starf 12. október 2017

Hefur helgað líf sitt baráttu fyrir verndun Þjórsárvera

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Þjórsárver eiga svo gríðarlega stóran og öflugan stuðningshóp úti um allt,“ segir Sigþrúður Jónsdóttir, sem hefur helgað líf sitt baráttu sinni fyrir verndun Þjórsárvera og fékk Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru 16. september síðastliðinn fyrir þá baráttu.
 
„Nei, ég átti ekki von á þessu núna, en það gladdi mig auðvitað mjög mikið. Þessi viðurkenning er reyndar hugsuð fyrir fólk sem hefur lagt hart að sér til að vernda náttúruna og það hef ég gert. 
Ég vissi ekki að menn hefðu veitt því þessa athygli. Hins vegar hafa ótrúlega margir útlendingar komið til mín og tekið viðtöl við mig um náttúruvernd á Íslandi og aðkomu mína að þeim og svo veit ég ekki meira um það og veit ekki hvernig þeir fundu mig,“ segir Sigþrúður Jónsdóttir í Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  
 
Sigþrúður Jónsdóttir.
Hún hefur helgað líf sitt verndun Þjórsárvera og unnið markvisst að vitundarvakningu um einstæða náttúru þess. „Hún hafi verið meðal stofnenda Áhugahóps um verndun Þjórsárvera, haldið baráttufundi gegn virkjunum í Þjórsá, safnað undirskriftum gegn virkjunum og leiðsagt fjölmörgum hópum í gönguferðum um Þjórsárver. Hún hafi varið tíma, orku og fjármunum í baráttuna svo gengið hafi nærri henni og fjölskyldu hennar. Líkt og Sigríður í Brattholti hafi hún verið rekin áfram af einlægri hugsjón og sannfæringu um mikilvægi þess að umgangast landið og náttúruna af varkárni og virðingu“, segir í rökstuðningi umhverfis- og auðlindaráðherra  um viðurkenningu Sigþrúðar.
 
Fædd og uppalin í Eystra-Geldingaholti
 
Foreldrar Sigþrúðar eru Margrét Eiríksdóttir frá Steinsholti og Jón Ólafsson í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi. Þar ólst hún upp ásamt systkinum sínum fjórum, Eiríki, Ólafi, Árdísi og Sigrúnu.
 
„Heima var og er enn blandaður búskapur, mjólkurkýr, kindur, hestar, nokkrar hænur og hundur. Pabbi minn lést árið 2001, rétt áður en síðasta baráttulota hófst, en hann hafði unnið mikið að verndun Þjórsárvera, var einn af þeim sem boðaði til fundarins góða 1972 og sat síðar í Þjórsárveranefnd,“ segir Sigþrúður.  Maðurinn hennar er Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur á Suðurlandi, og eiga þau tvö börn, Pálínu, sem er í framhaldsnámi í sálfræði og Jón Karl, nemanda í læknisfræði. Sigþrúður gekk í Ásaskóla í Gnúpverjahreppi, eftir það lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, var einn vetur í líffræði við Háskóla Íslands en fór svo í háskólann í Bangor í Norður-Wales og nam þar landbúnaðarfræði. Þar tók hún síðan mastersgráðu í beitarfræðum.
 
Þjórsárver er stærsta gróðurlendi á miðhálendi Íslands
 
Sigþrúður segir Þjórsárver sannarlega skipa stóran sess í lífi sínu enda eru óteljandi þær stundir lífsins sem hafa farið í baráttu fyrir verndun þeirra og stækkun friðlandsins.
 
„Þessi verkefni hafa verið í forgangi og oft reynt á, ekki síst þegar baráttan var sem hörðust frá 2001 til 2006. Ég heyrði um Þjórsárver þegar ég var barn og fann að þetta var eitthvað merkilegt svæði og átti alltaf þann draum að komast þangað, sem ég síðar gerði. Svæðið fyrir innan Sand, eins og við köllum það, var pabba mjög dýrmætt, sem og öðrum fjallmönnum og ég fann að þetta var eitthvað sérstakt. Ég kom þangað fyrst í fjallferð 1984 og það var stórkostlegt.“ 
 
Sigþrúður leggur mikla áherslu á friðun Þjórsárvera, það sé grundvallaratriði. 
 
„Já, það er gríðarlega mikilvægt og er prófsteinn á vilja þjóðarinnar til að vernda svæði sem á ekki sinn líka í heiminum. Þjórsárver er stærsta gróðurlendi á miðhálendi Íslands, þar er gróður óvenjulega fjölbreyttur, víðáttumikil votlendi, freðmýrarrústir, víðiheiðar og afar sjaldgæft blómskrúð. Þarna eru kjölfestuvarpstöðvar heiðagæsarinnar. Lífríkið er fjölbreytt og vistkerfin heilbrigð. Þjórsárver njóta líka alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsarsamningnum og Bernarsáttmálanum. Svo eru þau líka hluti af stóru víðerni á miðhálendinu, sem út af fyrir sig skiptir máli. Það eru bara til ein Þjórsárver og við gætum aldrei búið þau til á ný.“
 
Þriggja kynslóða barátta
 
Þegar Sigþrúður er spurð hvernig henni finnst baráttan um friðun Þjórsárvera ganga segir hún að það mjakist í rétta átta en hafi tekið afskaplega langan tíma, margir áfangasigrar hafi náðst.
 
„Baráttan hófst heima í Gnúpverjahreppi árið 1972, þegar almennur sveitarfundur mótmælti áformum um Norðlingaölduveitu harðlega og hefur staðið með hléum síðan.  Það er til ítarleg fundargerð frá þeim fundi. Síðasta baráttulotan hófst síðan 2001 en nú hillir undir að friðlandið verði stækkað. Þetta er því orðin þriggja kynslóða barátta. Mér finnst að viðhorf manna til verndunar Þjórsárvera hafi breyst og æ fleiri átti sig á hvers konar dýrmæti þau eru.“
 
Ungt fólk í sveitinni sem vill búa þar
 
Eins og gefur að skilja vegna baráttu Sigþrúðar og fleira fólks um verndun Þjórsárvera, þá kemur ekki til greina að virkja Þjórsá og skapa þannig störf, uppistöðulón og rafmagn?
 
„Hvaða störf? Er verið að virkja til að búa til störf í sveitinni? Nei, það fer enginn í milljarða framkvæmd til þess. Virkjunin mun ekki skapa nema örfá framtíðarstörf. Það yrðu mjög dýr störf sem að auki kostuðu fórnir á náttúru og landslagi sem gleymist að virða. Framkvæmdatíminn yrði einhvers konar æði og það er ekki huggulegt að hugsa til alls þess brambolts og umferðar sem yrði þá. Það er ekki árennilegt að búa í nágrenni við svona stórframkvæmdir,“ segir Sigþrúður. 
 
„Við verðum líka að hugsa um hvaða störf yrðu ekki til ef virkjun verður reist. Ég vil treysta á frumkvæði manna til að skapa sér vinnu og minni á að ungt fólk í sveitinni sem vill búa þar hefur komið fram með margar atvinnu- og uppbyggingarhugmyndir sem lofa góðu og eru í sátt við náttúru og menn. Þetta er umdeilt og hefur haft slæm áhrif á samfélagið. Uppistöðulón eru í sjálfu sér úrelt fyrirbæri og hafa oftast tortímt gróðri, jarðvegi og vistkerfum. Því verður að linna. Við höfum ekki efni á að eyða meira af þeirri dýru og óafturkræfu auðlind sem jarðvegur er. Hann er undirstaða lífs okkar og nær öll fæða manna kemur úr jarðvegi. Þjórsá er líka iðandi af lífi og ein mesta laxveiðiá landsins. Því er stefnt í hættu. Það er fáviska að horfa einungis á ár renna sem megavött, en ekki lífæð og lifandi vistkerfi.“
 
Það er allra hagur að fara vel með landið
 
Blaðamanni lék forvitni á að vita hjá Sigþrúði hvaða skoðun hún hefði á íslensku sauðkindinni og landgræðslu.
 
„Þetta er samspil margra þátta. Í þessu gildir að fara með gát og ofgera ekki gróðurauðlindinni, því sé það gert hnignar henni og hún gefur minna af sér og það getur leitt til jarðvegseyðingar. Minni uppskera og stundum verri beitarplöntur hafa áhrif á þrif búfjárins. Það er allra hagur að fara vel með landið. Við stöndum hins vegar í þeim sporum að hafa tapað um helming af grónu landi frá landnámi svo við þurfum að byggja upp jarðveg, gróður og virk vistkerfi. Það er mikið verkefni en nauðsynlegt. Annars er hægt að lesa meira um beitarfræði í bæklingi eftir mig sem Landgræðslan gaf út 2010 og nefnist Sauðfjárhagar.“
 
Lúpína á ekki erindi í gróin lönd
 
Þegar talið berst að lúpínunni hafði Sigþrúður þetta að segja. „Lúpínan er framandi ágeng tegund sem ber að fara varlega með en hún er mjög öflug niturbindandi jurt. Hún er að dreifast mjög hratt og er komin víða inn í gróin lönd þar sem hún á ekkert erindi. Það væri farsælt ef menn gætu lyft sér upp úr skotgröfunum vegna þessarar plöntu og horfst í augu við kosti hennar og galla án þess að missa sig.“
 
Dýrmætt að eiga góða vini
 
Nú berst talið að áhugamálum Sigþrúðar og fjölskyldu hennar, þar ber margt á góma. 
„Já, okkur finnst gaman að fara í gönguferðir saman, stuttar og langar. Við förum flest sumur í gönguferðir um Þjórsárver og stundum víðar. Einnig hef ég verið önnur þeirra sem í 15 ár hef leitt gönguhópa að fossunum miklu í Þjórsá á Gnúpverjaafrétti, beinlínis til að koma þeim á kortið, það er alltaf gaman.  Ég hef óbilandi áhuga á landbótum og sameina því göngur og landbótastörf með ýmsum hætti heima í Geldingaholti. Hef gaman af að sjá góð leikrit og hef tekið þátt í leiklistarstarfi í sveitinni. Við Axel eigum mikið af bókum, margar eru fræðilegs eðlis um náttúruna, landið, gróður, jarðfræði, heilsu og heilbrigðara líf, sögu, andleg málefni, samfélagsmál og manninn í tilverunni. Sjálf er ég heilluð af sauðfé og hef stúderað atferli þeirra lengi. Svo er dýrmætt að eiga góða vini og njóta samfunda með þeim.“
 
Áformin deyja smátt og smátt
 
Að lokum er Sigþrúður spurð um Þjórsárver og framtíð þeirra, hvað muni gerast. Það stendur ekki á svarinu. 
 
„Nú verður friðlandið stækkað og síðar verður það stækkað enn meira niður með Þjórsá. Smátt og smátt deyja áform um að setja upp lón á svæðinu og menn átta sig á að það verður ekki liðið. Þjórsárver eiga svo gríðarlega stóran og öflugan stuðningshóp úti um allt.“ 
Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....