Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Blandaður kór Kjósarsýslu starfaði á árunum 1959–1976 og var fyrst og fremst skipaður kirkjukórsfólki úr Mosfellssveit, af Kjalarnesi og úr Kjós. Þessi mynd var tekin 31. maí 1959, en í bókinni koma fram nöfn kórfélaga og búseta.
Blandaður kór Kjósarsýslu starfaði á árunum 1959–1976 og var fyrst og fremst skipaður kirkjukórsfólki úr Mosfellssveit, af Kjalarnesi og úr Kjós. Þessi mynd var tekin 31. maí 1959, en í bókinni koma fram nöfn kórfélaga og búseta.
Líf&Starf 3. nóvember 2021

Þegar Kjósin ómaði af söng

Söngmenning og kórastarf hefur löngum verið stór hluti af menningu Íslendinga og bæði glatt lund og geð. Í Kjósarhreppi meðal annars, stóð sú menning ríkulega fyrir sínu og glæddi samfélagið bæði og göfgaði á tuttugustu öldinni. Í nýútkominni bók Ágústu Oddsdóttur og Bjarka Bjarnasonar er fjallað um samfélag, söng- og menningarlíf hreppsins á þessum tíma en faðir Ágústu og afi voru báðir ötulir söngmenn og vel virkir í þeirri starfsemi.

Ágústa Oddsdóttir, annar höfunda bókarinnar, ólst upp á bænum Neðra-Hálsi þar sem faðir hennar, Oddur Andrésson, stjórnaði kórastarfi sýslunnar, auk kirkjukórs Reynivallakirkju, um áratugaskeið.

Líkt og dóttir hans ólst Oddur upp við virka þátttöku söngfólks í kringum sig en faðir hans og afi Ágústu, Andrés Ólafsson, lagði ríka áherslu á að glæða áhuga fjölskyldunnar með því að taka þátt í söngstarfi kirkjunnar auk þess að æfa raddaðan samsöng heima við.

Hverfandi þekking

Hugmyndin að bókinni kviknaði í kjölfar þess að þrátt fyrir öflugt starf samfélagsins fyrr á tímum virtist vitneskjan um það fara hverfandi. Ágústa, sem hefur síðan árið 1981 viðað að sér heimildum er varða söngstarf föður síns og afa – auk ritaðra heimilda um félags- og menningarlíf í Kjósinni á árum áður, ákvað að sá fróðleikur mætti ekki falla í gleymskunnar dá. Með nokkurt safn heimilda á höndum sér tók hún til viðbótar viðtöl við eldri Kjósverja um sveitarbrag og sönglíf í Kjósinni á 20. öld. Er það efni grunnur þessarar bókar, en árið 2018 hafði Ágústa svo samband við Bjarka Bjarnason rithöfund sem samþykkti að vinna með henni efni í bók og jafnframt ritstýra verkinu.

Þriggja hluta verk

Bókin, sem skiptist í þrjá hluta, segir í fyrsta hlutanum frá lífi heimamanna í Kjósinni á síðari hluta 19. aldar, en þar má m.a. finna lýsingar á fábreyttu hlutskipti þeirra hvað varðaði búsetu og kjör.

Trúarleg tónlist var að mestu ráðandi og heimilin og kirkjan vettvangur sönglífsins.

Annar hluti lýsir þeim breytingum er ríktu á fyrri hluta 20. aldar ef litið er á menntun, atvinnulíf, húsbyggingar, tækjakost og félagsleg samskipti. Bræðrafélag (málfunda-, skemmti- og lestrarfélag), ungmennafélag og kvenfélag eru stofnuð í Kjósinni á þessum árum og sönglífið í sveitinni blómstrar. Í þriðja hluta bókarinnar er svo fjallað um sögu söngs og tónlistar í Kjósinni sem líka teygði sig út á Kjalarnes og suður í Mosfellssveit. Sagt er frá baklandi söngstarfsins og kórunum sem Oddur stjórnaði.

Þar má finna söngbændatal og örstutt æviágrip yfir þrjátíu kórfélaga í Karlakór Kjósverja á árunum 1935-1960 auk mynda.

Lestur Kjósarinnar sem ómaði af söng er því bæði athyglisverður og fræðandi og ef gripið er níður í hana má gjarnan finna greinargóðar hugmyndir af tilveru fólks – eins og sjá má á blaðsíðu 58, þar sem föðursystir Ágústu, Ágústa Andrésdóttir er tekin tali.

„Faðir minn las húslestur á kvöldin og heimilisfólkið, þar á meðal við systkinin, sungum sálm á undan og eftir lestrinum. Pabbi æfði einnig raddaðan söng með okkur, einkum sálmalög. Ég lærði um skamma hríð á orgel hjá séra Halldóri á Reynivöllum og æfði raddaðan söng með systkinum mínum. Þá sungum við upp úr Íslenska söngvasafninu sem var kallað Fjárlögin í daglegu tali.“

Ljóst er að saga sönglistar í Kjósinni hefur fallið í góðar hendur en yfirgripsmiklar lýsingar og heildarsýn höfundanna Ágústu og Bjarka grípa lesendur föstum tökum. Félagatal kóra er ítarlegt og saga mannlífs í heild afar áhugaverð og lýsandi og ættu sem flestir að hafa gagn og gaman af.

Skylt efni: Kjós | kórar

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....