Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Stöndum vörð um íslenska mjólkurframleiðslu
Af vettvangi Bændasamtakana 23. júní 2023

Stöndum vörð um íslenska mjólkurframleiðslu

Höfundur: Reynir Þór Jónsson, meðstjórnandi í stjórn Bændasamtaka Íslands og stjórn Nautgripabænda BÍ.

Kúabúum á Íslandi heldur stöðugt áfram að fækka. Um aldamótin voru yfir 1.000 kúabú með skráð greiðslumark hér á landi en þeim hafði fækkað niður í 679 bú árið 2011.

Reynir Þór Jónsson.

Á síðasta ári fór fjöldi kúabúa á Íslandi niður fyrir 500 bú og samkvæmt skýrsluhaldsuppgjöri maímánaðar er fjöldi kúabúa í dag 483. Á sama tíma hefur greiðslumarkið aftur á móti aukist úr 100 milljónum lítra í 149 milljónir lítra. Ljóst er því að framleiðslan hefur aukist á sama tíma og kúabúum fer fækkandi. Búin eru því í dag stærri, framlegð meiri, auk þess sem meðalnyt á hverja árskú hefur aukist frá aldamótum.

Í gögnum sem RML vann upp úr skýrsluhaldsforritinu Huppu, kemur fram að til að ná að framleiða 150 milljónir lítra á ári, má básum í framleiðslu ekki fækka frá því sem nú er nema til komi aukning í nyt. Meðalbúið á Íslandi telur um 51 árskýr. Þetta þýðir því að fyrir hvern bás sem fer úr framleiðslu þarf nyt að aukast um nálægt 0,25 kgákúáári,eðaum12,5kgákú á ári fyrir hvert bú sem hverfur úr framleiðslu, ef takast á að viðhalda sömu heildarframleiðslu.

Íslenska greiðslumarkskerfið

Greiðslumarkskerfið sem við vinnum eftir í dag er byggt á tvíhliða samningum við íslenska ríkið. Bændur skuldbinda sig til að framleiða upp í útgefið greiðslumark en heildargreiðslumark hvers árs á að sjá til þess að eftirspurn á innanlandsmarkaði sé mætt. Á móti greiðir ríkissjóður mjólkurframleiðendum af liðum í búvörusamningum, bæði út á innveginn lítra og á hvern lítra greiðslumarks. Þegar svo margir fylla ekki upp í greiðslumark sitt verður myndin hins vegar skökk.

Á Íslandi er 100% framleiðsluskylda á mjólk. Það þýðir að mjólkurframleiðendum er lögum samkvæmt skylt að framleiða að fullu upp í það greiðslumark sem þeir eiga. Framleiðsluskyldan hefur verið 100% undanfarin þrjú ár, eða frá árinu 2020, en þrátt fyrir það hefur mikill fjöldi mjólkurframleiðenda ekki fyllt upp í sitt greiðslumark á undanförnum árum. Af þeim 495 mjólkurframleiðendum sem voru starfandi á árinu 2022 voru um 200 bú sem ekki náðu greiðslumarki sínu, þar af rúmlega 110 sem vantaði yfir 20 þúsund lítra upp á. Raunin var svipuð árið þar á undan.

Til þess að tryggja nægilegt framboð á markaðnum býr mjólkurframleiðslan við svokallaða útjöfnun sem á sér stað í lok hvers árs (eða upphafi næsta árs). Þá þurfa þeir bændur sem ekki fylltu upp í greiðslumark sitt að endurgreiða þann hluta af opinberu greiðslunum sem nemur ónýttu greiðslumarki. Færast þær greiðslur þá yfir á þá sem framleiddu mjólk umfram sitt greiðslumark en um er að ræða flókna útreikninga sem verða ekki raktir hér.

Hver stendur við þínar skuldbindingar?

Fyrir hvert bú sem ekki framleiðir upp í greiðslumark sitt, þarf að treysta á að eitthvað annað bú framleiði mjólk umfram sitt greiðslumark, til þess að heildargreiðslumark ársins náist. Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi fjölmörg bú framleitt umfram sitt greiðslumark, er það ekki sjálfgefið. Umframmjólkurverð hefur undanfarin ár verið töluvert lægra en afurðastöðvaverð og engin leið er að vita hversu mikil mjólk verður til útjöfnunar. Þótt sumir séu „heppnir“ og fái alla sína umframmjólk greidda að fullu að lokinni útjöfnun, þá á útjöfnunin sér oft ekki stað fyrr en mörgum mánuðum eftir að varan hefur verið framleidd og til hennar er kostað. Þeir sem taka áhættu á umframmjólkurframleiðslu kosta þannig töluverðum fjármunum til án nokkurrar vissu um að fá mjólkina greidda að fullu einhverjum mánuðum seinna. Ef allir myndu framleiða upp í greiðslumark sitt, ætti engin útjöfnun sér stað og öll umframmjólk væri seld á erlenda markaði, á lægra verði.

Það fylgir því ákveðin óvissa að framleiða umframmjólk, en það fylgir því mikið tekjutap að mjólka ekki upp í greiðslumark sitt. Bændur sem ekki fylla upp í greiðslumark sitt þurfa að greiða til baka til ríkissjóðs því sem nemur ónýttu greiðslumarki á búi sínu. Auk þess missa þeir bæði af þeim afurðatekjum sem þeir annars fengju fyrir mjólkina og þeim opinberu greiðslum sem greiddar eru út á innvegna mjólk.

Vil ég hvetja þá kúabændur sem hafa ekki framleitt upp í greiðslumark sitt árum saman að gera hvað þeir geta til að auka sína framleiðslu. Ráðunautar RML víðs vegar um landið eru boðnir og búnir að ráðleggja bændum um hvernig ná megi betri árangri í mjólkurframleiðslunni ef vandinn liggur þar. Ef fyrirséð er að greiðslumarkseignin er of mikil, gæti verið góður kostur að bjóða þann hluta sem útaf stendur á greiðslumarksmarkað. Þannig má gefa öðrum kost á að auka greiðslumark sitt í samræmi við framleiðslugetu og búa þannig til meiri stöðugleika í framleiðslunni. Það er okkur mjólkurframleiðendum í hag að fyrirsjáanleiki og stöðugleiki í rekstri búanna sé sem mestur. Eftirspurn eftir hágæða mjólkurvörum á einungis eftir að aukast og því er mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum. Saman verðum við að standa vörð um okkar íslensku mjólkurframleiðslu.

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...