Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tifinningatiltekt
Af vettvangi Bændasamtakana 4. september 2023

Tifinningatiltekt

Höfundur: Halla Eiríksdóttir, stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

„Ég er þeirrar skoðunar að lífið sé að öllu jöfnu gott, byrja daginn með bros á vör geng út í daginn og hef hlaðið snyrtilegt því það hjálpar mér að halda í þessa jákvæðni í lífinu.“ Þannig komst Thor Gunnar Kofoed, stórbóndi í Bornholm í Danmörku, að orði þegar hann var að kynna búskaparhætti sína fyrir austfirskum bændum.

Hansen er stór­tækur korn­- og fræframleiðandi, óðalseigandi og virkur í félags­málum bænda á eynni. Hann kvaðst hafa lært og tileinkað sér mjög snemma að halda hlaðinu á bænum snyrtilegu, því það hefði meiri áhrif á líðanina en nokkurn mann óraði fyrir. Ástæðan fyrir því að hann héldi alltaf hlaðinu á bænum snyrtilegu væri meðal annars sú að það væri það þá fyrsta sem maður sér að morgni en ekki hrópandi kall á tiltekt eða verk sem er ólokið. Vildi Kofoed meina að það væri mikilvægur áhrifaþáttur til að hlúa að eigin sálufrið að vera laus við ákall vinnustaðarins, sem er jafnframt heimili, upp á hvern einasta morgun þegar farið er á fætur.

Lífsspeki Thors Gunnars Kofoed er um margt til eftirbreytni og getur breytt hugarfar oft auðveldað lífið. Óneitanlega fylgja því margir kostir að búa nálægt vinnustaðnum, en aftur á móti geta því fylgt margar áskoranir því alltaf eru einhver verkefni ókláruð og ýmsu þarf að sinna. Til að fá frí verður maður að fara að heiman svo vélar, hús, girðingar og tún hætti að hrópa á athygli manns. Það er svo ótrúlega lýjandi að vera einhvern veginn aldrei búinn, ekki fyrr búinn með eitt verk að þá kallar það næsta. Jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir alla daga er val. Það er þó hægara sagt en gert og enginn er búmaður nema barmi sér var máltæki sem var notað hér áður fyrr. Bændur þurfa að búa bæði að góðu úthaldi og seiglu í sínu starfi og hið íslenska viðhorf „þetta reddast“ hefur trúlega bjargað geðheilsu margra. Það var að minnsta kosti tilgáta Sigmundar Sigfússonar, geðlæknis á Akureyri, sem var frábær í sínu fagi og mikill mannvinur. Hann taldi þetta viðhorf hjálplega geðheilsu Íslendinga og með því tækist okkur yfirleitt að gleyma því slæma en halda frekar í tiltrú á betri tíma.

Eitt er að halda hlaðinu hreinu en annað er að taka til í kollinum á sér. Þar, eins og á öðrum stórbúum, ægir öllu saman, allt frá gersemum til algers óþarfa. Hugurinn er nefnilega alveg stórmerkilegur, hann getur haldið manni uppteknum við neikvæðar hugsanir án útgöngu eða lausna. Það ágerist gjarnan þegar maður leggst út af að kvöldi, allt fer í gang og rússíbaninn fer af stað. Við þurfum að ákveða að vera bílstjórar í okkar eigin lífi, fara í „ökuskóla tilfinninganna“ eins og ég vil kalla það. Í þeim skóla þarf að læra að greina hugsanaóreiðu og gera æfingar. Til að mynda er gott að ímynda sér skúffu fulla af alls konar dóti og drasli sem þarfnast tiltektar en þar ægir öllu saman líkt og í kollinum þínum. Eins og þú gerir venjulega þá er skúffan opnuð, einn hlutur tekinn fram í einu og ákveðið hvað á að gera við hann. Á sama hátt tekur þú „eina hugsun“ og ákveður hvað þú ætlar að gera við hana, annaðhvort losa þig við hana sem þýðir að gleyma þessu, eða geyma áfram í skúffunni sem þýðir að þú ætlir ekki að vinna neitt meira með hana, bara geyma áfram eða eiga hana og gera að minningu. Á þennan hátt er hægt að vinna sig smám saman í gegnum tilfinningarússíbanann.

Það skrýtna við þessa tiltekt er sú tilhneiging okkar til þess að eiga erfitt með að henda slæmum tilfinningum. Viljinn til þess að halda í þær er ótrúlega sterkur en jafnframt sársaukafullur. Í því felst ákveðin þráhyggja sem verður til þess eins að það er verið að spinna sterkan þráð sem erfitt er að rekja upp og hugsunin festist í kollinum. Sjálfsvinnan og tiltektin felst í því að láta af þessum neikvæðu hugsunum og þegar þær skjóta upp kollinum þá skal setja upp stöðvunarskyldumerkið og stoppa hugsun. Síðan þarf maður að velja hvort maður vilji hafa þessar hugsanir með í för eða skilja þær eftir í vegkantinum og halda áfram. Í þeirri vinnu þarf maður að vera hreinskilinn gagnvart eigin tilfinningum, reyna að skilja af hverju þær eru erfiðar og ákveða framtíð þeirra. Bílstjórinn ræður alltaf, þannig er það, en hann þarf að fylgja umferðarreglunum í ökuskóla tilfinninganna, því þá er lífsleiðin bæði auðveldari og öruggari.

Skylt efni: bændageð

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...