Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Niðurstöður heyefnagreininga verða kynntar á fjarfundi þriðjudaginn 16. janúar kl. 11. Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum rml.is.
Niðurstöður heyefnagreininga verða kynntar á fjarfundi þriðjudaginn 16. janúar kl. 11. Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum rml.is.
Mynd / RML
Lesendarýni 15. janúar 2024

Áburðaráætlanir

Höfundur: Baldur Örn Samúelsson, Eiríkur Loftsson, Sigurður Max Jónsson. Höfundar eru ráðunautar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Með nýju ári og hækkandi sól kemur að þeim tímapunkti þar sem bændur þurfa að huga að áburðarkaupum fyrir komandi vor og sumar.

Áburðarkaup eru stór kostnaðarliður í búrekstri og því mikilvægt að vanda sig við þau, kaupa réttu tegundirnar, ekki meira en þarf en samt nóg til að spara sér ekki til skaða. Í þessari grein verða nefnd nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við gerð áburðaráætlana.

Fræðslufundur

Þriðjudaginn 16. janúar næstkomandi munu höfundar þessarar greinar halda fund á Teams um niðurstöður heyefnagreininga 2023, vinnu við áburðaráætlanir og gögn sem má nýta sér við gerð þeirra.

Þá verða m.a. rædd ítarlegar atriði sem nefnd eru í þessari grein ásamt fleiru. Fundurinn hefst kl. 11.00 og verður tengill fyrir fundinn á heimasíðu RML.

Uppskera og heygæði

Með því að stilla saman væntingar til magns uppskeru og heygæða er gott að taka tillit til ólíkra eiginleika túna innan búsins, ræktunarsögu þeirra og fyrirhugaðra nota svo hægt sé að ná markvissari nýtingu búfjáráburðar og vali á hentugri tegund tilbúins áburðar.

Góð áburðaráætlun miðar að því að nýting þess áburðar sem dreift verður á ræktarlandið verði sem best, en um leið að öflun heyfengsins verði árangursrík og að hann uppfylli þarfir þess búfjár sem hann er ætlaður.

Almennar áburðarþarfir má áætla út frá töflugildum sem m.a. má finna á heimasíðu RML, en með því að byggja áburðaráætlunina á gögnum sem gefa upplýsingar um eftirfarandi þætti fæst mun markvissari áætlun.

  • Upplýsingar um grunnfrjósemi jarðvegs
  • Áburðargjöf fyrri ára. Bæði tilbúins áburðar og búfjáráburðar
  • Jarðvegsgerð
  • Uppskeru
  • Heysýni
  • Jarðvegssýni
  • Efnagreiningar á búfjáráburði eða öðrum lífrænum áburði á búinu
  • Endurræktunarsögu

Þessi gögn er hægt að vista inn í jörð.is og geyma þar í gagnagrunni sem er ávallt aðgengilegur.

Við gerð áburðaráætlana þarf að meta áburðarþarfir spildna með tilliti til uppskeruvæntinga og fyrirhugaðrar nýtingar heyforðans. Til þess þarf að reyna að átta sig á því hversu mikið af næringarefnum verði fjarlægt með uppskeru og hvaða forða af þeim jarðvegurinn geymir. Inn í það spilar m.a. áburðargjöf undangenginna ára og ræktunarsaga spildunnar. Góð framræsla og heppilegt sýrustig hafa jákvæð áhrif á nýtingu þess áburðar sem borinn er á og einnig losun næringarefna úr jarðvegi og hafa með þeim hætti áhrif á áburðarþörfina.

Sýnatökur

Regluleg sýnataka úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði gefur góðar tölulegar upplýsingar um innihald næringarefnanna sem eru í hringrás innan búsins.

Reynslan hefur sýnt að næringarefnainnihald búfjáráburðar á milli búa getur verið æði misjafnt og það sama má segja um hey- og jarðvegsefnagreiningar sem geta reyndar líka verið ólíkar innan búsins sjálfs.

Með þessum upplýsingum er hægt að stilla betur af áburðargjöf svo að einstök áburðarefni sem eru nauðsynleg til vaxtar og viðhalds plantna nýtist sem best og séu ekki notuð að óþörfu. Þar er helst að nefna fosfór og kalí. Með tíð og tíma geta þessi steinefni safnast upp í jarðvegi við áburðargjöf og þá getur nýting á þeim orðið léleg ef haldið er áfram að bera mikið á spildur sem eru þegar með mikinn forða í jarðvegi.

Oft er þetta tilfellið með gömul tún sem þurfa þá ekki mikla áburðargjöf af þessum steinefnum án þess að það komi niður á uppskeru. Að sama skapi ef jarðvegurinn er snauður af þessum steinefnum gæti uppskeran aukist töluvert ef bætt væri í áburðargjöf af þessum steinefnum því plönturnar þurfa nær alfarið að fá þau með áburðargjöf.

Oft og tíðum er forði fosfórs og kalís lítill í efsta jarðvegslaginu í nýræktun og nýlega ræktuðum túnum og í þeim tilfellum duga hefðbundnir túnskammtar ekki til þess að uppfylla áburðarþörf sáðgresisins.

Dreifing búfjáráburðar

Þegar fjallað er um áburðaráætlanir má ekki gleyma að um áætlun er að ræða og ekki endilega víst að allar forsendur standist þegar til kastanna kemur. Ekki er t.d. víst að dreifing búfjáráburðar verði eins og fyrirhugað var og þá er gott að geta brugðist við og uppfært áætlunina í samræmi við aðstæður.

Síðast ber að nefna að jöfn dreifing búfjáráburðar og tilbúins áburðar er forsenda góðrar áburðarnýtingar, aukin uppskera af svæðum sem fá áburð umfram áburðarþarfir vegur ekki upp minnkun uppskeru þar sem áburðargjöf er of lítil því í fæstum tilvikum fæst tvöföld uppskera þar sem áburðardreifing var tvöfalt meiri en ráðgert var með.

Þegar vorið kemur þá hefst sá þröngi gluggi sem bændur hafa til þess að koma áburðarefnum á sitt ræktarland svo bæði nýting áburðarefna og vaxtatímabilsins í heild verði sem best. Að lokum er það veðurfar sem hefur áhrif á sprettu og hve hröð nýting áburðarins verður fyrir komandi uppskerutíð.

Niðurstöður heyefnagreininga

Í töflu eru birtar niðurstöður heyefnagreininga ársins 2023. Til samanburðar (innan sviga) eru þar einnig niðurstöður frá 2022.

Taflan sýnir meðaltöl fyrir fyrri slátt annars vegar og seinni slátt hins vegar og í báðum tilvikum landsmeðaltal og meðaltöl landsfjórðunganna.

Vorið 2023 var víða blautt og tafði það jarðvinnslu og áburðargjöf talsvert víða á landinu. Jarðvegur var einnig kaldur af þessum sökum, spretta hæg og upptaka grasa á næringarefnum lítil. Á öðrum svæðum var tíðarfar hagstæðara og hófst sláttur þar með fyrra móti.

Mun á árferði má stundum sjá í niðurstöðum heysýna en þann mun er oft auðveldara að greina í niðurstöðum einstakra búa eða minni landsvæða en í landsmeðaltali eða meðaltölum landsfjórðunga. Í þessum niðurstöðum má sjá að hey eru heldur þurrari árið 2023. Meltanleiki fyrri sláttar er minni 2023 en 2022 nema á Norðurlandi er hann litlu hærri. Meltanleiki annars sláttar er hærri í öllum landshlutum 2023. Prótein í heyjunum er að jafnaði meira árið 2023.

Kalsíum er lægst í fyrri slætti á Suður- og Vesturlandi en hærra í seinni slætti en í öðrum landshlutum. Kalí er hærra í fyrri slætti 2023 en árið á undan og er hækkun milli ára mest á Vesturlandi. Í seinni slætti er kalí í heyjunum einnig hærra 2023 en 2022 á Suður- og Vesturlandi en lægra á austan og norðanverðu landinu.

Meðaltöl mælinga á selen vekja athygli. Meðaltöl ársins eru hærri í öllum landshlutum árið 2023 en árið 2022, fyrir báða slætti. Undanfarin ár hafa sést stöku mælingar á selen sem eru mjög háar en þannig tilvik eru fleiri en áður 2023. Þannig mælingar eru að koma fram í öllum landshlutum.

Háar mælingar sem þessar hafa meiri áhrif á meðaltalið þegar heildarfjöldi sýna er ekki mikill og þannig kemur fram mikill munur milli ára á tölunum fyrir Austurland. Ef styrkur selens er yfir 2.000 μg/ kg þe í fóðri þarf að hafa varann á sér varðandi selen eitrun með langvarandi gjöf (sérstaklega fyrir hross) en þegar við erum komin upp í 4.000–5.000 μg/kg þe er orðin töluverð hætta á selen eitrun (lélegur vöxtur og tap á hárum).

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...