Að binda ráð sitt við refshala
Höfundur: Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn
Víða liggja vargsins spor
varla drepast mun úr hor
finnur allskyns æti.
Hans mun endast þrek og þor
þar til kemur aftur vor
kænn á kvikum fæti.
Birkir Friðbertsson
Það er ekki hátt risið á Alþingi Íslendinga um þessar mundir. Samkvæmt skoðanakönnunum er virðing þingsins og traust á þingmönnum komin niður fyrir grasrótarmörk.
Hvernig á það líka annað að vera þegar einn þeirra – Skagfirðingur að vísu – gengur erinda áfengisauðvaldsins við að koma brennivíni í búðir?
Annar, og helsti meðreiðarsveinn hans, foringi síns þingflokks í íþróttamálum, vill líka umfram allt lögleiða spilavíti. Sá þriðji er ekki vel séður í flugvélum, samanber síðasta áramótaskaup. Sá fjórði leggur, að sögn, sessunaut sinn í einelti, svo hún þarf áfallahjálp ásamt gestum formanns fjárlaganefndar. Sá sjötti vill síðan friða refastofninn.
Refur í sauðargæru
Almannarómur sem sjaldan lýgur heldur því fram að í sumar hafi Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur, spendýravistfræðingur og doktor í hagamúsum, fyrrverandi forstöðumaður Melrakkasetursins í Súðavík og sjálfskipaður verndari refavargsins, gengið á milli þingmanna til að finna í þeirra hópi einhvern til að reka erindi sín.
Afraksturinn var þingskjal 303 – „Tillaga til þingsályktunar um eflingu rannsókna á vistfræði melrakkans.“ Flutningsmaður Róbert Marshall. Að „efling rannsókna“ sé helsta markmið þessarar þingsályktunartillögu er yfirskin, enda eru fyrst Theódór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi og síðar Páll Hersteinsson prófessor, búnir að rannsaka allt sem þörf er á varðandi refi.
Í gr.gerð með þingskjalinu sem væntanlega verður birt með þessari grein minni, geta lesendur blaðsins sjálfir lagt mat á tilganginn, sem mér virðist mega greina í þrennt.
Refir valda svo litlu tjóni að það réttlætir ekki fjárframlög hins opinbera til að halda stofninum niðri.
Orðið hefur „tilfinnanleg“ fækkun í stofninum á undanförnum árum.
„Því ber að hætta öllum opinberum stuðningi við (refa) veiðar, forðast að trúa á „getgátur og sögusagnir“ um tjón af völdum refa, en veita rausnarlegu fé til verndaráætlunar fyrir tegundina og vistfræðirannsóknir í hennar þágu.“
Hafi einhver efast um aðkomu E.R.U. að þessu máli, hverfur sá efi væntanlega við lestur gr.gerðarinnar, svo glögg sem fingraför hennar eru á efnistökum og málflutningi. Gagnslitla, skaðmenntaða og þurftarfreka stóðið hjá Náttúrufræðistofnun er, eins og refurinn, í stöðugri ætisleit.
Í vasa hverra skyldi nú hið „rausnarlega fé til verndaráætlunar fyrir tegundina“ eiga að fara?
Í ljósi reynslunnar þarf enga að undra þótt sjálfskipaður verndari refa gangi fram með þessum hætti. Hitt er verra, miklu, miklu verra, að þingmaður og það fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, láti frá sér fara jafn einhliða málflutning, fullan af rangfærslum, staðleysum og hreinu óráðshjali, sem hlýtur að jaðra við alþingismet á þeim vettvangi.
Stórtjón og kostnaðarauki
Frá landnámsöld hafa forfeður okkar, og ekki að ástæðulausu, barist við refinn og miðaði lítið fyrr en skotvopn og síðar eitur komu til sögunnar.
En nú hefur Hálsaskógarheilkennið um að Mikki refur sé krúttlegur og meinlaus rótfest sig svo í kollinum á stórum hluta veruleikafirrts þéttbýlisfólks að slæm reynsla kynslóðanna af refum verður að „getgátum og sögusögnum“ í þess eyrum. Því skal hér vitnað til nútímastaðreynda.
Samkvæmt rannsóknum Páls Hersteinssonar er þéttleiki grenja hvergi meiri en á Hornströndum og í ágúst 1998 auðkenndi hann nokkra yrðlinga með eyrnamerkjum, hálsböndum og radíósendum. Það tók ungviðið undraskamman tíma að ferðast óravegu frá upprunastöðvunum. Snemma í nóvember sama ár, var sá fyrsti skotinn við æti á Rauðamýri á Langadalsströnd við Djúp.
Síðar þennan vetur í mars, skaut ég radíóref við æti og hlaut litlar þakkir fyrir hjá Páli, enda hefði verið miklu meiri veiði í honum á Snæfellsnesi eða Skagafirði.
Samkvæmt merkingaheimtum á refum Páls má ætla að út úr þessari ríkisreknu vargaútungunarstöð og nágrenni hafi síðan 1994 streymt yfir okkur Vestfirðing, um 10.000 refir á leið sinni austur í Húnaþing og Skagafjörð og suður til Dala, Borgarfjarðar og Snæfellsness.
Sem dæmi um refavöðuna er að 2013 voru, á svæðinu frá Hrútafjarðarbotni norður Strandir að Reykjarfirði nyrðri og að Djúpi milli Kaldalóns og Ísafjarðarár, felldir rúmlega 500 greiðsluskyldir refir og þá eru til viðbótar verulegur hluti útburðar og ljósaskyttufelldra dýra og þau sem ekið var yfir.
Afleiðingar þessara óskapa er, að rjúpa er nánast horfin hér vestra, enda er hún, eða var, aðalfæða refa allan ársins hring. Fálkinn heyrir því líka sögunni til hér um slóðir, kríuvörp hafa einnig þurrkast út nema í eyjum langt frá landi.
Æðabændur þurfa á vori hverju að standa vopnaða vakt allan sólarhringinn í 5–6 vikur og dugir þó ekki alltaf til. Í Þernuvík við Djúp gróf refur sig undir vandaða og vel niðurnjörvaða girðingu meðan heimafólk brá sér af bæ og sundraði 40 hreiðrum. Þá var refur einnig skotinn þar í fjörunni við að murka lífið úr selkóp.
Tjón okkar sauðfjárbænda er þá ótalið, t.d. hurfu frá mér í vor á algerlega hættulausum heimatúnum, þrjú 4–5 vikna gömul lömb og náðist sá skaðvaldur ekki, þrátt fyrir vöktun öflugra veiðimanna og óvenjulega ýtarlega grenjaleit.
Þetta eru þó smámunir, því sunnan Djúps, hjá Rögnu á Laugarbóli, vantaði 26 lömb í haust eða um 12% og til viðbótar komu skaðbitnar ær.
Síðast en ekki síst er sú rýrnun lífsgæða sem felst í því hjá öllu sæmilegu fólki þegar raddir vorsins, sem það hefur frá blautu barnsbeini alist upp við og notið, hljóðna eða hverfa með öllu, svo sem orðið er fyrir löngu á Hornströndum og í Jökulfjörðum og stefnir í á Snæfjallaströnd og Kaldalóni og að sögn mjög víða hér vestra.
Um allt land heyrast svo fregnir að þær tegundir fugla sem refurinn á greiðan aðgang að eggjum og ungum hjá, séu á hröðu undanhaldi.
Refavinir ættu að lesa ritgerð Ævars Petersens fuglafræðings í síðasta hefti Náttúrufræðingsins, þar sem hann greinir frá reynslu sinni í vor af heimsóknum refa í himbrima- og lómabyggð vestur á Mýrum. Þar mun enginn ungi hafa komist upp í sumar.
Þegar mávar ógnuðu flugöryggi á Keflavíkurflugvelli sagði Páll Hersteinsson að einfaldast og ódýrast væri að leysa það vandamál með því að friða refi á Miðnesheiði og nágrenni.
Hann sagði einnig í skýrslu til Refanefndar 2003, að „engir rannsóknarhagsmunir“ mæltu gegn því að hætt væri að friða refi á Hornströndum.
Í samþykkt sem allir stjórnarmenn í sjö þáverandi sauðfjárræktarfélögum á Ströndum og við Djúp sendu Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi landbúnaðar- og umhverfisráðherra, vorið 2013, var þess krafist að refur á Hornstrandasvæðinu væri affriðaður og skrúfað fyrir útstreymið með eðlilegri grenjavinnslu. Við vorum ekki virt svars og heldur ekki af núverandi refamálaráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur.
Við kjósendur í n.v.kjördæmi erum svo „lánsöm“ að eiga þrjá bændur á þingi. Ekkert lífsmark finnst með þeim í þessu efni. Það er greinilegt að þeir huga ekki á endurkjör.
Fjölgun eða fækkun?
Staðhæfingar R.M. fengnar frá Náttúrfræðistofnun um „fækkun í refastofninum um allt að þriðjung“ eiga sér enga stoð í raunveruleikanum enda er Náttúrufræðistofnun í þessu tilviki bara dulbúningur E.R.U.
Við ritun þessarar greinar hef ég verið í sambandi við marga af reyndustu og gerhygglustu veiðimönnum landsins, sem og fjölda annarra einstaklinga og öllum ber saman um að ref fjölgi og færi sig nær byggð, samfara hnignun fuglastofna.
Á því svæði sem ég hef með grenjavinnslu að gera voru í vor óvenju mörg greni í ábúð, og metfjöldi dýra sem náðust. Samt ók ég og mitt fólk yfir 4 tófur frá miðjum ágúst til loka október.
Ég vísa í Guðbrand á Bassastöðum og spyr eins og hann: „Með hvaða hætti fann Náttúrufræðistofnun þessa fækkun út?“
Gríðarleg stækkun friðlanda og þjóðgarða, grenjaleit sem hefur verið hætt hjá mörgum sveitarfélögum, eða veiði kvótasett og þak á greiðslur fyrir skiluð skott, ásamt kúgunaraðgerðum refavinaelítunnar í þeirra garð, hafa gert samanburðartölur aftur í tímann algerlega ómarktækar.
Langflestir veiðimenn hafa hafnað öllu samneyti við Ester Rut, enda kvartar hún hástöfum yfir að enginn sendi henni hræ og þar með eru allar aldursgreiningaforsendur foknar út í veður og vind. Frystikistur vítt um land bólgna út af refaskottum og slíkar kippur má víða sjá í bílskúrum.
Tvö undanfarin ár hefur Ester svo með jöfnu millibili komið fram í fjölmiðlum með furðusögur úr Hornvík. Fyrst hnaut hún í þokunni um nokkur refahræ á fjörukambinum og þá var stofninn um allt land auðvitað í útrýmingarhættu. Í vetur fór svo „Eyjólfur að hressast“ og það svo að í afar athyglisverðu viðtali hennar í útvarpi við Leif Hauksson í júnílok, voru öll greni í Hornvík setin og auk þess fjöldi húsnæðislausra hlaupadýra.
Ekki mátti á milli heyra, hvort var hamingjusamara yfir viðgangi vargsins, Ester eða útvarpsmaðurinn. „Blessuð skepnan, mikið eru þetta ánægjulegar fréttir.“ En hvernig rímar nú þessi frjósemi og velsæld við „tilfinnanlega fækkun í refastofninum“ í gr. gerð þingmannsins?
Í gr.gerð þingmannsins segir einnig: „Beinn kostnaður hins opinbera við refaveiðar nemur um 80–100 millj. á ári.“ Hins vegar sést á töflu sem fylgir gr.gerðinni að þessi kostnaður er þó mun lægri, 61–89 millj. svo ekki er nú nákvæmninni fyrir að fara hjá þingmanninum, en það er bara í takt við annað.
Hvergi kemur fram að vsk.tekjur ríkisins af okkur refaskyttum fer langleiðina í að dekka stuðninginn við sveitarfélögin og svo bætast skatttekjur okkar við, en veiðimenn eru, samkvæmt Ester Rut, um 500.
Ef þessi ríkisstuðningur skyldi nú samt ekki vera sjálfbær, get ég svo sem nefnt sjálfsagða og skaðlausa sparnaðarleið, sem er að fækka þingmönnum um 30, því, eins og alkunna er, gefast heimskra manna ráð því verr, sem þeir koma fleiri saman.
Um skaðmenntun
Nýyrðið „skaðmenntaður“ hefur orðið til í umræðu okkar veiðimanna og á við um þá aðila, sérstaklega í valdastofnunum umhverfismála sem hreykja sér hæst og hafa margir lengi verið áskrifendur að launum, án þess að nokkuð jákvætt hafi komið frá þeirra hendi fyrir umhverfi okkar, heldur frekar þvert á móti.
Þeir virðast gjarnan haldnir menntahroka, afneita algerlega því sem venjulega er kölluð heilbrigð skynsemi. Reynsla kynslóðanna og viskubanki eldra fólks talar ekki til þeirra.
Þeir hefjast handa á núlli í fræðigreininni samanber litprentaða kynningarpésann vegna minkaveiðiátaksins, sællar minningar, sem byrjaði svona: „Minkurinn er loðinn, með frekar mjóslegið skott og hefur 4 fætur.“ Þetta fólk er afar frekt til fjárins og hver ríkisspeni soginn til blóðs.
Enn tek ég undir ummæli Guðbrands á Bassastöðum. „Líffræðingar sem og annað vísindafólk er á margföldum launum veiðimanna, auk þess sem rannsóknir krefjast yfirleitt margfaldrar vinnu miðað við veiðar.“
Vargavernd virðist vera sáluhjálparatriði hjá umhverfisráðuneyti og stjórnmálamenn þora ekki um þvert hús án handleiðslu þessara aðila og er þar frægast dæmið Ólafur K. Nielsen rjúpnafræðingur sem aldrei kannast við afnám refa á þeim fugli. Þegar hann fer gegn lögum um að ekki megi heimila veiðar í ósjálfbærum stofni og veiði er svo nánast engin, afsakar hann það með hreti og ungadauða í byrjuðum júlí. Þegar ég afsanna hretið með upplýsingum frá Veðurstofunni ríkir þögn.
Þegar Svarfdælingur, roskinn og reyndur, spyr fræðinginn um þá nýbreytni þar, að mávar eru snemmsumars fram um allan dal og hlíðar, væntanlega í eggjum og ungum fugla, er svarið að þeir éti bara skordýr og orma. Í útvarpsviðtali í vikunni er vesöld rjúpnastofnsins ofbeit að kenna, hún sé jú grasbítur. Og svo sé aukin skógrækt til bölvunar.
Áður en refur útrýmdi rjúpu á Vestfjörðum og ég þekkti til hennar fæðuvals, sótti hún vissulega í smágerðan nýgræðing til háfjalla, áður en hann fór undir snjó, en rjúpnalauf, brum, ber og fræ allskonar er hennar kjörfæða og ofbeit er hvergi á Vestfjörðum. Skógrækt er öll í plús fyrir rjúpur, bæði til skjóls og fæðuöflunar.
Um orsakir stofnsveiflna er rjúpnafræðingurinn nú jafn ófróður og fyrirrennarar voru 1960. Þarna gæti ríkið sko, sér að skaðlausu, sparað í launagreiðslum. Refafræðilega ólst E.R.U. upp undir handarjaðri P.H. en vill samt meina að allt sé þar byggt á vanþekkingu. Sjálfri hefur henni þó tekist að leggja það til fræðanna, að nú liggur fyrir hvert þvermál eistna í refastegg er í mars.
Umhyggja vargavina snýr alls ekki að ríkissjóði heldur að ná þaðan fé til eigin hugðarefna. Tjón samfélagsins vegna alltof stórs refastofns er gríðarlegt, og opinber útgjöld til að verjast, smánarlega lág. Vesöld stjórnmálamanna og bændaforustu í þessu efni er yfirgengileg og nú mun næsta skref þeirra til frægðar að endemum, að leggja af kornrækt og bjóða kornbændum bætur í staðinn fyrir að ráðast til atlögu við álftaófögnuðinn með þeim úrræðum, sem blasa við og duga.
Að síðustu þetta. Ref er ekki hægt að útrýma enda engin ástæða til þess, en hann verður að vera alls staðar réttdræpur og koma þarf stofninum niður í 1.000–2.000 eins og var um 1980. Mér þykir mjög miður að Róbert Marshall skyldi láta leiða sig inn á þennan glapstig. Ég sé ekki að hann eigi fyrir sér bjarta framtíð í þingsölum.
Indriði Aðalsteinsson,
Skjaldfönn