Af dýralæknum og mjólkurframleiðslu
Höfundur: Brynjólfur Friðriksson, formaður Félags kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu
Sæl verið þið, lesendur góðir. Ástæðan fyrir því að ég sé mig knúinn til að færa í letur hugrenningar mínar um málefni kúabænda og stöðu þeirra gagnvart dýralæknaþjónustu í hinum dreifðu byggðum, er sú staða sem við kúabændur höfum þurft að búa við undanfarin ár. Þá er ég að tala um það regluverk sem í gildi er og við bændur sem í greininni störfum verðum að fara eftir.
Ég vil taka það fram að ég er ekki að setja út á hvernig eða hversu vel dýralæknar sinna sínu starfi, þeir þurfa líka að vinna samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru.
Oft er það þannig að skjótt þarf að bregðast við ef gripur veikist og getur það skipt öllu máli að það sé mögulegt að hægt sé að hefja meðferð gripsins strax. Til þess þurfa bændur að hafa í lyfjaskápum sínum þau lyf sem nauðsynleg eru til að geta hafið meðferð. Því miður hafa dæmin sannað það að sú er ekki raunin.
Í mínum huga er staðan sú að við búum við kerfi ofstjórnunar og algjörs vantrausts af hálfu Matvælastofnunar, sem verður þess valdandi að við sem störfum við þessa búgrein og eigum og viljum hafa velferð dýra á okkar búum sem besta höfum ekki tök á vegna þessa kerfis.
Því skora ég á Matvælastofnun að endurskoða vinnureglur þessar í samstarfi við kúabændur svo allir geti farið sáttir frá því borði.
Svo að allt öðru.
Við kúabændur stöndum frammi fyrir þeirri skemmtilegu og nýju stöðu að markaðurinn kallar á alla þá mjólk sem hægt er að framleiða í fjósum þessa lands.Nú eigum við að bregðast við kallinu og gera allt til þess sem hægt er til að fullnægja þörfinni. Bændur eru misvel í stakk búnir til að takast á við það verkefni.
Í raun þýðir þessi staða það að allir geta framleitt eins og þeir geta án nokkurra takmarkana, án tillits til greiðslumarks hvers býlis fyrir sig. Aftur á móti þýðir þessi staða líka það að þeir bændur sem nú þegar framleiða alla þá mjólk sem þeirra aðstaða leyfir verða fyrir beinni tekjuskerðingu, vegna þess að framleiðsluskylda hvers og eins er 100% fyrir árið 2015.
Það er að segja að A-hluti beingreiðslna er skertur í beinu hlutfalli við það sem vantar upp á að bóndinn framleiði upp í sitt greiðslumark.
Til viðbótar þessu kemur að eftir því sem greiðslumarkið eykst þá skerðast beingreiðslur á hvern lítra í hlutfalli við það.
Til þess að við bændur getum svarað kallinu og gert það sem þarf til þess, þarf að hækka afurðaverð til okkar umtalsvert. Það kostar að fara í dýrar framkvæmdir, sem varla er hægt að verja eins og staðan er í dag. Dæmið þarf nefnilega að ganga upp.
Er ekki kominn tími á að sjá lánasjóð landbúnaðarins endurvakinn?
Óska öllum landsmönnum farsældar á árinu!
Kveðja úr Blöndudalnum.