Athugasemd vegna umræðu um lausagöngu búfjár
Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um lausagöngu búfjár. Þess misskilnings virðist gæta í umræðunni að lögum hafi verið breytt með setningu laga um búfjárhald árið 2002, nú lög 38/2013. Svo var ekki.
Í þeim lögum felst eingöngu heimild sveitarstjórna og landeigenda til banns við lausagöngu búfjár á ákveðnum svæðum. Lög um fjallskil og afréttarmálefni nr. 6/1986 segja hins vegar til um hvar búfé á að vera. Þetta er augljóst og blasir við ef löggjöfin er lesin í samhengi. Þetta staðfesti umboðsmaður Alþingis með áliti sínu frá því í október sl. og dómsmálaráðuneytið með úrskurði sínum frá því í janúar sl. Lögin um fjallskil og afréttarmálefni hafa verið nánast óbreytt í núverandi mynd frá árinu 1969 en byggja á aldagömlum grunni.
Þá virðist einnig gæta misskilnings um merkingu hugtaksins „lausaganga búfjár“.
Hugtakið er skilgreint í 7. tl. 3. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald og er svohljóðandi: „Lausaganga er þegar búfé getur gengið í annars manns land í óleyfi.“ Þannig fellst ekki í lausagöngu heimild til að beita búfé í annars manns land einsK og sumir virðast telja heldur aðeins að búfé þarf ekki að vera í girðingum. Búfjáreigendur bera engu að síður ábyrgð á að búfé þeirra sé þar sem það á að vera þótt lausaganga sé heimil. Þurfa þeir að sjálfsögðu leyfi eigi það að vera í annarra manna löndum. Gangi búfé í annarra manna lönd skv. framansögðu ber sveitarstjórn og eftir atvikum lögreglu að sjá til þess að því sé komið þangað sem það á að vera á kostnað eigenda óski landeigandi þess.
Réttur landeigenda að þessu leyti byggir á almennum reglum eignarréttar og er varinn af stjórnarskrá. Verður honum hvorki haggað af ráðuneytum né sveitarstjórnum.
Þannig eru réttindi og skyldur búfjáreigenda hvað þetta varðar vel skilgreind í lögum. Séu þessar einföldu og skýru lagareglur virtar ættu flestir að geta vel við unað.