Dýrmætasta auðlindin
Þegar ekið var um sveitir landsins nú í byrjun maímánaðar mátti víða sjá í stafla af pokum með tilbúnum áburði á sveitabæjum.
Það er auðvitað frábært að bændur hafi aðgang að lausnum til að tryggja sér fóður fyrir búpening. En því miður er þetta ekki besta lausnin sem þeir gátu valið. Hún er bæði dýr, ósjálfbær og grefur undan líffræðilegum fjölbreytileika jarðarinnar, hvort sem hann er á yfirborðinu, rétt undir yfirborði eða úti í sjó. Allt líf á þessari jörð byggir á þessum líffræðilega fjölbreytileika.
Vistkerfin láta á sjá
Tilbúinn áburður er oft og tíðum einnig orsök þess að nota þarf eiturefni í ræktun þar sem hann veikir mótstöðuafl jarðvegslífsins gegn sjúkdómum í plöntum. Þá er gripið til eiturefna.
Talið er að í einni teskeið af góðum ræktunarjarðvegi geti fundist allt að 7 milljarðar lífvera. Nú eru dæmi um að aðeins 20% sé eftir af þessum lífverum í slíkum ræktunarjarðvegi, og að 40% allra skordýrategunda í heiminum fari mjög fækkandi. Þá er þriðjungur allra skordýrategunda í útrýmingarhættu. Dauð svæði í heimshöfunum hafa myndast vegna ofauðgunar á næringarefnum sem runnið hafa frá t.d landbúnaði.
Þau svæði eru talin vera á um 415 stöðum víðs vegar um heiminn. Það lítur ekki vel út.
Hefðbundinn landbúnaður losar mikið af gróðurhúsalofttegundum
Talið er að allt að helmingur gróðurhúsalofttegunda í hefðbundnum landbúnaði sé komið frá tilbúnum áburði, þ.e. frá vinnslu hans, flutningi og notkun. Þá hindrar tilbúinn áburður eðlilega bindingu á koltvísýring úr andrúmslofti vegna þess að jarðvegur tapar náttúrulegum eiginleika sínum til að binda og geyma kolefni til langs tíma í ræktun.
Rangar aðferðir í landbúnaði ógna fæðuöryggi
Það er rétt hjá bændum að það sprettur lítið eða ekkert þar sem notkun á tilbúnum áburði er sleppt eftir langtímanotkun. Það segir okkur mikið um tilbúna áburðinn og hversu ótækur og gallaður hann er þegar kemur að sjálfbærni.
Bændur neyðast til að nota hann aftur og aftur vegna þess að þeir hafa þegar skaðað hinn líffræðilega fjölbreytileika jarðvegsins. Þeir eru fastir í vítahring. Það væri ansi illa komið fyrir bændum og þjóðinni ef það lokaðist fyrir framleiðslu og aðföng á tilbúnum áburði. Hvað yrði um fæðuöryggið? Einu bændurnir sem haldið gætu sömu uppskeru væru bændur sem ekki eru háðir tilbúnum áburði.
Koltvísýringur leggur grunninn að uppskeru í lífrænni ræktun
Binding koltvísýrings úr andrúmslofti með plöntum leggur grunninn og er fótstykkið í lífrænni ræktun. Plöntur taka niður koltvísýring úr andrúmsloftinu fyrir tilstuðlan ljóstillífunar. Plönturnar breyta koltvísýringnum í sykur sem leiðist niður í rætur plantna og þaðan út í jarðveginn þar sem þessi sykur er tekinn upp sem næring fyrir það jarðvegslíf sem þar býr.
Jarðvegslífið hannar og vinnur í staðinn þá næringu til plöntunnar sem hún hefur þörf fyrir á hverjum tíma. Með réttum lífrænum áburði, belgjurtum, og góðum ræktunar- og beitaraðferðum, getum við örvað og aukið uppskeru og bindingu kolefnis í jarðveg. Því meira líf í jarðveginum því meiri uppskera, því meiri dauði, þvi meiri binding kolefnis.
Virkjum dýrmætustu auðlindina
Með því að taka upp nýtingu á dýrmætustu auðlindinni geta bændur sparað sér mikil útgjöld án þess að minnka framleiðslu.
Að breyta um ræktunarstefnu er ígildi nýsköpunar. Hér þarf nýjan hugsunarhátt. Hann er nauðsynlegur til að allt það orðaglamur um sjálfbærni, fæðuöryggi og loftslagslausnir sem fjallað er um á ráðstefnum um landbúnað þessi misserin, fái einhverja merkingu.
Segjum sem svo að allir ræktendur á Íslandi hefðu farið í lífræna ræktun þegar sú bylgjan gekk yfir landið fyrir um 25–30 árum.Þá væri uppskeruframlegð lífrænnar ræktunar hjá þessum bændum í dag, væru allir ræktendur lífrænir, jafnvirði 6–7 milljarðar á ári. Bændur geta enn þá sótt sér þessa fjármuni til að setja í eigin vasa og það ættu þeir að stefna að. Um hvaða fjárhæðir er hér um að ræða vita bændur best sjálfir.
Farið varlega af stað
Það fer mikið eftir forsögunni hvers vænta megi í uppskeru að tilbúnum áburði slepptum.
Tún sem alltaf hefur fengið búfjáráburð meðfram tilbúnum áburði er mun betur sett en tún sem aldrei hefur fengið búfjáráburð eða annan lífrænan áburð.
Þeir sem eru með búfjárrækt og vilja minnka notkun á tilbúnum áburði ættu að byrja á þeim spildum sem best hefur verið hlúð að með búfjáráburði í gegnum tíðina. Þá væri ekki verra að viðkomandi spildur væru með smára. Byrja á því að hætta notkun á tilbúnum áburði á t.d. 3–4 ha og bera þar á góðan skammt af búfjáráburði t.d. 40–50 t. á h. af mykju beint í ginið á gróandanum.
Hugsanlega getur orðið um eitthvert uppskerufall fyrstu árin á þessum spildum en í besta falli sama uppskera en það fer eftir ástandi hins líffræðilega fjölbreytileika jarðvegsins.
Sparnaður í áburði er þá 2–3 t. en uppskera á svipuðu róli og áður á öðrum spildum. Ekki spara tilbúinn áburð á aðrar spildur nema gera aðrar ráðstafanir í staðinn, t.d. að nota lífrænan áburð.
Að lokum óska ég bændum öllum gleðilegs sumars og vona að ykkur auðnist að narta svolítið í þá fjármuni sem framleiðendur áburðar ætla sjálfum sér.