Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sigurður á Kolskeggi að taka við verðlaunum með Magnúsi Einarssyni og
Guðna Halldórssyni o.fl.
Sigurður á Kolskeggi að taka við verðlaunum með Magnúsi Einarssyni og Guðna Halldórssyni o.fl.
Mynd / KollaGr.
Lesendarýni 2. september 2022

Enn ríða hetjur um Rangárþing

Höfundur: Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra

Landsmót hestamanna, sem stóð að vanda í heila viku í júlí, á Gaddstaðaflötum að þessu sinni, var eitt hið glæsilegasta bæði hvað hestakost varðar og ekki síður allt það frábæra reiðfólk sem nú fer fyrir liði hestamanna.

Landsmótssvæðið á Hellu sannaði sig, hreinsar af sér bæði vind og regn himinsins. Þúsundir gesta eru komnir um langvegu til að njóta þess að sjá ræktun og framfarir og glæsta gæðinga þeysa um velli. Lopapeysan, lopahúfan og lopasokkarnir og góð skjólföt sigra kulda og regn. Landsmótin eiga ekki sinn líka sem viðburður bæði í íþróttum og ræktun íslenska hestsins, mótið hverju sinni er heimsviðburður. Hesturinn er prýði ræktunar og afreka í landbúnaði.

Enn glittir í gömlu mennina sem hafa séð og sigrað í áratugi, en margir þeirra eru komnir í brekkuna og orna sér yfir gömlum og ekki síður nýjum afrekum æskunnar. Nú fer fremstur reiðmanna Árni Björn Pálsson, en yngri kynslóð er á hæla hans. Árni Björn er margverðlaunaður, hann sigraði í töltinu á Ljúf frá Torfunesi og var það í fjórða sinn sem hann sigrar töltið tvisvar á Ljúf og áður á Stormi frá Herríðarhóli. Árni Björn er að því leyti líkur Skarphéðni Njálssyni að hann sigrar hvern andstæðing sinn og er í dag Hergarpur hestamennskunnar. Nú hlaut hann einstök verðlaun, Gregesenstyttuna, fyrir meðferð og hirðingu hesta sinna. Öldungurinn Sigurbjörn Bárðarson, ekki með grátt hár í sínum rauða kolli, á enn sína sigra af jafnmikilli sannfæringu og fyrir fimmtíu árum.

Árni Björn Pálsson á Ljúf í töltinu.

Hesturinn er í dag ekki síður tekinn mjúkum tökum kvenna sem gefa ekkert eftir, þær dansa á fáksspori um grund. Helga Una Björnsdóttir á Fákshólum hlaut reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna, Fjöðrina, sem er mikill heiður. Hin átján ára Björg Ingólfsdóttir frá Dýrfinnustöðum í Skagafirði reið Kjuða föður síns til mikilla verðlauna og hlaut bikar gefinn í minningu Einars Öders Magnússonar fyrir prúðmennsku og góðan árangur utan sem innan vallar. Enginn hestur vakti jafn mikla athygli og Sindri Stálasonur frá Hjarðartúni með hæstu hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið, 9,38, þar af þrjár tíur, en Hans Þór Hilmarsson vann þetta afrek, heimsmet. Sleipnisbikarinn er æðsta viðurkenning íslenskrar hrossaræktar og veitt þeim hesti sem efstur stendur heiðursverðlauna hesta fyrir afkvæmi. En Sjóður frá Kirkjubæ ræktaður af Ágústi Sigurðssyni og fjölskyldu hlaut bikarinn nú. Sjóður er í eigu Hoop Alexandru sem rekur hrossabúgarð í Dalsholti í Biskupstungum.

Björg Ingólfsdóttir á Kjuða frá Dýrfinnustöðum.

Siggi, Kolskeggur, Loki og Gunnar á Hlíðarenda

Stundum líkti ég Sigurði Sigurðarsyni í Þjóðólfshaga eða Hestheimum, við hetjuna Gunnar á Hlíðarenda, sem reið glæstum fákum um Rangárvelli fyrir rúmum þúsund árum. Sigurður kom, sá og sigraði þetta Landsmót á gamminum Kolskeggi frá Kjarnholtum. Enn sýndi Sigurður að hann er engum manni líkur því Kolskeggur er fjórtán vetra, þeir sögðu hann hafa farið Krísuvíkurleið að sigrinum, reið Kolskeggi upp úr B úrslitum gæðinga í A flokk, kom og sigraði flokkinn og við harðsnúna menn var við að eiga, þá Daníel Jónsson sem sat Goða frá Bjarnarhöfn og í þriðja sæti Atlas frá Hjallanesi setinn af Teiti Árnasyni. Goði og Atlas eru báðir Spunasynir frá Vesturkoti. Sigurður á marga stóra sigra að baki sem hestamaður, hefur unnið B flokk þrisvar sinnum á þremur mismunandi hestum og A flokk tvisvar á tveimur mismunandi hestum. Ekki munaði Sigurði um að ríða Loka frá Selfossi átján vetra inn á Landsmótið. En á honum sigraði hann B flokkinn á Hellu 2014 með einstakri einkunn, 9,39. Það kom svo í hlut Annie Ívarsdóttur, unnustu Ármanns Sverrissonar, eiganda Loka, að ríða honum á mótinu en Loki hlaut nú 8,66 sem er glæsilegt. En Anný, sem er tvöfaldur heimsmeistari, sýndi glæsilega takta á Loka sem stendur enn fremstur meðal jafningja og er sífellt athyglisverðari gæðingafaðir. Svo geta menn spurt, hvert hefði Sigurður náð á Loka? Hefði hann sigrað B flokkinn og þar með bæði A og B? En Árni Björn vann B flokkinn hins vegar á Ljósvaka frá Valstrýtu. Sigurður á einstakt samband við Loka, þá sýningu muna menn enn frá Hellu 2014, þá Siggi situr Loka er eins og Óðinn sé mættur og ríði Sleipni hinum áttfætta yfir láð og lög, enda var Loki faðir Sleipnis í Goðafræðinni.

Sjóður frá Kirkjubæ og aðstandendur hans við afhendingu Sleipnisbikarsins.

Magnús í Kjarnholtum átti fegurstu tárin

Magnús Einarsson í Kjarnholtum var sá sem átti breiðasta brosið og fegurstu tárin sem féllu á Landsmótinu. Magnús er undramaður í ræktun Kjarnholtahrossanna og hefur eins og Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki verið fremstur meðal ræktenda hrossa sinna. Sigurður líkti Kolskeggi við þann mikla hest sem Sörli hét og ,,forðaði Skúla undan fári þungu, fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður, svo með blóðga leggi, brostin lungu á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.“ Þannig var það Skúlaskeið. En ,,Sigurðarskeið“ á Kolskeggi mun einnig lifa í sögunni og enn magna hann og aðra garpa af æskuskeiði runna til afreka. En sigurkórónuna ber Magnús Einarsson, frændi minn í Kjarnholtum, sem heldur áfram ótrauður sinni miklu hrossarækt.

Helga Una Björnsdóttir á Fákshólum hlaut reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna, Fjöðrina.

Kristinn Guðnason þyngdar sinnar virði í gulli

Landsmótið var hins vegar upphaf að einhverju nýju því þeir Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu og hans menn stóðu mjög faglega að öllu undir forystu og framkvæmdastjórn Magnúsar Benediktssonar sem lögðu nú upp með einstaklega vel undirbúið mót hvað umgjörð og fjárhag varðar.

Hestamennirnir ríða sparibúnir til leikanna, Álafossúlpan, gúmmístígvélin og brennivínið er horfið. Til hamingju með Landsmótið, Íslandshestamenn um allan heim. ,,Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd, þá ertu á framtíðarvegi,“ sagði Þorsteinn Erlingsson. Hestamennskan sem íþrótt er á framtíðarvegi og stendur nú fremst búgreina og byggir sveitirnar glæstu fólki, hún er landbúnaður ekki síður en skógræktin. Félag hrossabænda heiðraði svo Kristin Guðnason sérstaklega í mótslok, hann er þyngdar sinnar virði í gulli fyrir hrossabændur.

Skylt efni: Landsmót hestamanna

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...