Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Er veisluhöldunum að ljúka?
Mynd / Melissa Askew - Unsplash
Lesendarýni 29. apríl 2022

Er veisluhöldunum að ljúka?

Höfundur: Erna Bjarnadóttir

Fyrirsagnir í heimspressunni, sem og innlendum fjölmiðlum, vísa nú í vaxandi mæli til þess að lífskjörum í heiminum er nú ógnað af verðhækkunum og á næstu mánuðum muni verðbólga leika okkur grátt. Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 13. apríl sl. var fyrirsögnin: Vandræðin eru kannske rétt að byrja.

Vandinn sem birtist okkur er margþættur. Matvælaverð rýkur upp, verð á gasi og olíu er í sögulegum hæðum og önnur hráefni eins og málmar og timbur hafa hækkað gríðarlega og eru jafnvel illfáanleg. Norski hagfræðingurinn Christian Anton Smedshaug (Chr. Anton) fer yfir þetta í grein sinni í vefritinu www.klassekampen.no sama dag undir fyrirsögninni Festen er over. Niðurstaða þessara tveggja greininga er þó ólík, ef litið er til lokaorða þeirrar fyrrnefndu.

Hvað er í gangi?

Fyrrnefndur Chr. Anton leitar svara við þessari spurningu í grein sinni. Þegar hagkerfi heimsins voru kæld niður við upphaf Covid-19 faraldursins í mars 2020 komu veikleikar alþjóðavæðingar fyrst í ljós af alvöru. Heimurinn reyndist svo háður iðnaðarafurðum frá Kína að hagkerfi heimsins tóku að hökta. Annað áfallið var svo innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar sl. Þá birtust kristaltærar afleiðingar þess að hrávörur frá Rússlandi hurfu úr viðskiptum á Vesturlöndum.

Nú orðið er erfitt að útvega iðnaðarafurðir frá Kína, bæði hvað varðar magn og afhendingartíma. Á sama tíma er sett viðskiptabann á stærsta hrávöruframleiðanda heimsins. Þessu lýsir Chr. Anton síðan þannig:

„Nú eru góð ráð næstum jafn dýr og hækkandi verð á vörum, orku og matvælum.”

Hátt áburðarverð – hátt vöruverð

Um heim allan fara áhyggjur af hækkandi vöruverði vaxandi, nánast dag frá degi. Áburðarverð hefur ekki áður verið hærra í sögunni og má vísa til áburðarverðvísitölu CRU því til stuðnings.

Í ársbyrjun 2009 stóð áburðar- verðvísitala CRU í 360 stigum en er nú komin í tæp 380 stig. Köfnunarefni er unnið úr andrúmsloftinu en til þess þarf orku sem hefur hækkað gríðarlega í verði undanfarnar vikur. Fosfór og kalíum, sem bæði eru mikilvæg næringarefni í ræktun, eru hins vegar takmarkaðar auðlindir. Í Norður-Afríku er að finna 70% af fosfórbirgðum heimsins. Heimsmarkaður á kalíum er borinn uppi af útflutningi frá Kanada og síðan Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, sem samanlagt flytja út álíka mikið magn og Kanada. Þessi næringarefni munu hins vegar á einhverjum tíma ganga til þurrðar, þ.e. þær námur sem þau koma frá í dag munu tæmast.

Hvorki hinn frjálsi markaður né aðrir stórir gerendur á markaðnum (lesist ríkisstjórnir efnahagsvelda heimsins) hafa enn gripið til aðgerða til að bregðast við þessu. Hátt áburðarverð nú ógnar framleiðslu víða um heiminn. Sumir dreifingaraðilar erlendis standa frammi fyrir því að erfiðara er að fá lán til að fjármagna viðskiptin.
Þá skortir bændur fjármagn til áburðarkaupa. Víðast hafa þeir heldur ekki tekjutryggingu sem þýðir að áburðarkaup eru orðin mjög áhættusöm. Í Bandaríkjunum hefur verð á áburði til að rækta beitargróður fyrir búfé fjórfaldast á einu ári, sem dæmi. Bændur bregða því ýmist á það ráð að kaupa minna (sem dregur úr framleiðslu) eða þá að kaupa ekki áburð og hætta framleiðslu alveg.

Eru Vesturlönd að tapa forskoti sínu?

Chr. Anton segir í grein sinni að veislan sé búin núna. Peninga­prentun undangenginna ára, sem hefur haldið skulda- og fjárhagsvanda í skefjum, gagnast ekki lengur til að takast á við framleiðslusamdrátt og hrávöruskort. Markaðshagkerfið sem varð ráðandi í heiminum eftir fall Berlínarmúrsins getur ekki leyst þau vandamál sem við nú stöndum frammi fyrir.

Síðustu 30 árin höfum við aukið bæði neyslu og skuldir samtímis því að færa mengandi iðnað og framleiðslustarfsemi sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda til landa, út fyrir Vesturlönd. Afleiðingin er langar og brothættar framleiðslukeðjur sem getur leitt til þess að forskot Vesturlanda á m.a. Kína muni nú tapast. Kína mun hins vegar sjá um sig. Þeir hafa fleiri hlekki framleiðslukeðjunnar í hendi sér og grípa óhikað til útflutningsbanns (t.d. á áburði) þegar þurfa þykir.

Telja verður að það sé einungis tímaspursmál hvernig efnahagsveldin munu þurfa að bregðast við þessu og tryggja sjálfbærni efnahagskerfa sinna að þessu leyti.

Afleiðingar þess sem á undan er gengið

Sérfræðingar vara við að afleiðingar þessarar „kreppu“ verði miklar og langvinnar. Í Bandaríkjunum mælist nú mesta verðbólga sem sést hefur í 41 ár. Þann 20. mars sl. sagði New York Times í fyrirsögn „Ukraine war Threatens to Cause a Global Food Crisis“. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði þann 28. mars sl. að skortur á matvælum verði raunverulegur. Þannig má áfram telja fyrirsagnir úr fréttum síðustu vikna.

Margir bændur standa nú (eða munu gera á næstu mánuðum) frammi fyrir ákvörðun um fram­leiðslu komandi mánaða og ára, og það á ekki aðeins við hér á Íslandi. Framleiðslukeðjur í landbúnaði eru langar og ofan á markaðsóvissu bætast áhrif veðurfars. Frjáls markaður leysir ekki vandamál af þeim toga sem hér er lýst heldur þurfa stjórnvöld að grípa inn í og draga úr óvissu gagnvart innlendum matvælaframleiðendum, með raunhæfum og markvissum aðgerðum.

Erna Bjarnadóttir

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...