Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Félagskerfi landbúnaðarins – opið bréf til bænda
Lesendarýni 30. maí 2016

Félagskerfi landbúnaðarins – opið bréf til bænda

Höfundur: Eiríkur Blöndal og Einar Ófeigur Björnsson
Bændasamtök Íslands eru okkar samtök. Þau stunda fjölbreytta starfsemi í þágu félagsmanna sinna. Bændasamtökin eru málpípa okkar og málsvari. Vegna almennrar þátttöku bænda í samtökunum og faglegrar þekkingar innan þeirra hafa þau viðurkennda stöðu sem hagsmunaaðili gagnvart stjórnvöldum og öðrum. Þessa stöðu eigum við að varðveita og styrkja. Samstaða stéttarinnar er mikils virði og þess vegna er mikilvægt að allir bændur verði áfram félagsmenn í BÍ.
 
Bændasamtök Íslands hafa þegar breytt samþykktum sínum til að bregðast við nýjum aðstæðum. Þar er gert ráð fyrir að taka upp veltuskatt sem tilsvarar 0,3% af því sem nú telst til búnaðargjaldsskyldrar veltu. Það er 25% af því sem bændur greiða í dag í búnaðargjald. Önnur aðildarfélög BÍ hyggjast ýmist nota gjald á hvern einstakling, búsgjald eða veltutengt gjald. Um nokkurra ára skeið hefur ríkt óvissa um framtíðarfjármögnun félagskerfis bænda. Breytingar á búnaðargjaldi hafa legið í loftinu en nýfallinn héraðsdómur, þar sem deilt var um lögmæti gjaldsins, og ályktanir samtaka bænda um málið eru hvort tveggja atburðir sem kalla á nýja nálgun.
 
Breytt framlög til ráðgjafarstarfs
 
Fram til þessa hafa framlög af búnaðargjaldi skipt verulegu máli fyrir Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Með nýjum búvörusamningum er brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin með aukinni fjármögnun úr rammasamningi. Þar er gert ráð fyrir að draga smátt og smátt úr því framlagi á næstu 10 árum. Þetta þýðir að RML verður þá að reka sig í enn meira mæli en nú er af útseldri þjónustu.
 
Bjargráðasjóður
 
Vert er að nefna að innheimta búnaðargjalds til Bjargráðasjóðs er talin lögleg í fyrrnefndum héraðsdómi. Á síðustu árum hefur þó komið í ljós að einstakar búgreinar sjá ekki fyrir sér áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til Bjargráðasjóðs. Þessi afstaða kom m.a. fram í umræðum um málið á nýliðnu búnaðarþingi. Minnt er á að svokölluð A-deild Bjargráðasjóðs, sem bætir náttúruhamfaratjón, var ekki fjármögnuð af búnaðargjaldi. Gert er ráð fyrir að þessi starfsemi verði hluti af nýjum hamfarasjóði á vegum ríkisins.
 
Félagskerfi tekur breytingum
 
Félagskerfið okkar er flókið að margra mati og mætti minnka að umfangi. Það verður hins vegar að gefa því tíma til að þróast og sjá hvaða einingar lifa í breyttu umhverfi. Skoðanir bænda eru mjög skiptar um hvaða einingar sé mest þörf fyrir og jafnvel eru þær skoðanir ólíkar eftir því hvar bændur búa. Þó þetta séu auðvitað allt frjáls félög er einsýnt að allar þessar einingar munu ekki lifa í breyttu umhverfi.
Mikilvægt er að Bændasamtökin þróist og aðlagist nýjum veruleika. Þar fer fram nauðsynleg hagsmunagæsla allra bænda og þar er mótuð stefna í samráði við búgreinarnar fyrir landbúnaðinn í heild sinni. Þaðan kemur mestur þungi í umræðu um landbúnaðarmál. Öll helstu samskipti við ríkisvaldið eru í höndum BÍ.
 
Einhverjum kann að þykja nokkuð há upphæð að greiða 0,3% af veltu til BÍ. Það er þó nokkurn veginn sú upphæð sem rennur til BÍ í dag í gegnum búnaðargjaldið. Þá er heimild í samþykktum BÍ til að setja hámark og lágmark á það gjald sem rennur til BÍ með þessum hætti.
 
Eru aðrir kostir í boði?
 
Innheimta með veltutengdu gjaldi er ekki eina leiðin sem er fær. Annar kostur er að nýta svipaða leið og er farin hjá stéttarfélögum þar sem félagsmenn greiða hlutfall af launum til starfseminnar. Fyrirmyndin að slíku kerfi er til. Ef það er vilji hjá bændum að fara slíka leið þá myndu ákveðin verkefni, sem snúa að bóndanum sem einstaklingi, verða fjármögnuð með þessum hætti. Þar má nefna t.d. sjúkrasjóð sem hugsanlegt væri að endurvekja ef vilji er fyrir hendi. Tekið skal fram að það hefur ekki verið mótuð nein stefna í þessa veru hjá stjórn BÍ en umræða um Bændasamtökin sem stéttarfélag er nauðsynleg á þessum tímapunkti.
 
Hvað fá bændur fyrir að vera félagar í BÍ?
 
Það er eðlilegt að bændur spyrji hvað þeir fái fyrir sinn snúð. Með því að vera félagi í Bændasamtökum Íslands bjóðast mönnum margvíslegar vörur og þjónusta. Hér eru nefnd nokkur atriði en listinn er ekki tæmandi:
  • Þátttaka í samfélagi bænda, netverki félaga í landbúnaði innanlands og utan.
  • Eigandaverð á þeirri þjónustu sem BÍ veita og þeim vörum sem þau framleiða, útgáfa, forrit ráðgefandi þjónusta, s.s. lögfræðiþjónusta.
  • Eigendaverð á þjónustu og vörum dótturfyrirtækja svo sem RML, Hótel Sögu og Nautastöðvar.
  • Aðgangur að orlofshúsastarfsemi og orlofssjóði. 
  • Aðgangur að starfsmenntasjóði.
  • Stuðningur þegar sérstaklega stendur á - ættliðaskipti - veikindi - búháttabreytingar - náttúruhamfarir. 
  • Aðkoma að gerð samninga við ríkið um starfsumhverfi, búvörusamninga, tollvernd, stærðarmörk búa o.fl.
Allir bændur – hvort sem þeir eru félagar eða ekki – njóta þess að Bændasamtökin vinna að því að skapa bændum bætt starfsskilyrði, m.a. með gerð búvörusamninga. Bændasamtökin skila álitsgerðum varðandi lagaumhverfið, ekki síst varðandi byggðamál, skattamál og eignarréttarleg málefni. Samtökin vinna að sameiginlegum hagsmunum bænda með þátttöku í fjölda nefnda og starfshópum. Samtökin vinna að landnýtingarmálum, m.a. vernd ræktanlegs lands og réttindum bænda til landnýtingar. Bændasamtökin láta sig varða umhverfismál og loftslagsmál og taka þátt í starfi norrænna bændasamtaka, evrópskra og heimssamtaka bænda. Með útgáfu Bændablaðsins, stuðningi við Opinn landbúnað og framleiðslu á öðru efni stuðla Bændasamtökin að kynningu á landbúnaði, bæði inn á við og út á við.
 
Að lokum viljum við  hvetja alla bændur til að vera áfram félagsmenn í BÍ þegar og ef kemur til þess að núverandi kerfi verði breytt.
 
Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
 
Einar Ófeigur Björnsson og Eiríkur Blöndal
Höfundar eru bændur og
stjórnarmenn í BÍ
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...