Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bjarni í Arnarholti við gegningar í febrúar 2022.
Bjarni í Arnarholti við gegningar í febrúar 2022.
Lesendarýni 2. mars 2022

Framleiðslukostnaður og verðmæti blóðs

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir

Stóðbændur, sem halda hross til blóðframleiðslu, standa nú í réttinda- og kjarabaráttu fyrir sig og sína og hafa mátt verjast á mörgum vígstöðvum. En nú er svo komið að við hyggjumst sækja fram. Í síðasta Bændablaði var sagt frá því að flestir stóðbændur hafa fyrir skemmstu sagt upp samningum við líftæknifyrirtækið Ísteka, sem kaupir afurðina af bændum.

Þó svo að þessi búgrein hafi verið stunduð hér á landi í 40 ár, hefur hún hlotið litla athygli og rekstrarforsendur blóðframleiðslu sjaldan verið til umfjöllunar. Jafnvel hefur verið litið á starfsemina sem þægilega aukagetu með öðrum búgreinum og framleiðslukostnaði því enginn gaumur gefinn. Slíkar hugmyndir eru löngu úreltar.

Blóð tekið úr merum sem voru til hvort sem var

Á fyrsta tímaskeiði blóðframleiðslu hér á landi, var gengið í stóð sem voru til hvort sem var. Þetta voru samtals nokkur hundruð merar á þeim svæðum sem best gefast til að halda hross án mikils tilkostnaðar. Sá tími er löngu liðinn.

Blóð framleitt á bæjum þar sem fólk býr hvort sem er

Þegar umsvifin í blóðinu jukust og kaupandinn vildi fá meira blóð, þurfti að fjölga hrossum. Annað tímaskeið í blóðframleiðslu hófst. Menn halda hross sérstaklega til blóðframleiðslu, gjarnan samhliða öðrum búskap. En þetta tímaskeið er líka á enda. Allar greinar landbúnaðar standa nú frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna verðhækkana á aðföngum. Það bætist ofan á margra ára og áratuga samdrátt í sveitum landsins, þar sem mannfækkun og byggðaröskun hefur þegar höggvið skörð í mörg byggðarlög, þjónusta dregst saman og ekkert lát virðist vera á þessari þróun.

Búseta á einstökum bæjum byggir á hrossabúskap til blóðframleiðslu

Þriðja tímaskeið í blóðframleiðslu er að hefjast. Þeir sem vilja kaupa íslenskt hryssublóð í framtíðinni geta ekki gert ráð fyrir því að hundruð manna búi sveitabúi og haldi hryssur til blóðframleiðslu sem aukagetu við annan búskap. Þeir geta ekki gert ráð fyrir því að menn afli sér tekna samhliða hrossabúskap með annarri vinnu á svæðum þar sem ekkert slíkt er að hafa. Hrossabúskapurinn verður einfaldlega að standa undir sér ef einhver framtíð á að vera í þessari starfsemi.

Framleiðslukostnaður blóðs

Hér mun ég gera grein fyrir útreikn­uðum kostnaði við framleiðslu á blóði, miðað við að starfsemin standi undir sér og sé ekki niðurgreidd af öðrum rekstri. Margar leiðir eru færar til að reikna út slíkan kostnað en hér hef ég notast við meðaltal kostnaðar tveggja ára á raunverulegu búi sem heyjar og gefur 350-380 rúllur á ári. Við meðalaðstæður dugar sá heyfengur til að framfleyta 100 hrossa stóði með 80 hryssum. Meðalafurðir af slíku búi eru um 360 brúsar af blóði á ári. Við erfiðari aðstæður og í vondu árferði getur þurft meira af heyi fyrir svo stórt stóð á útigangi. Því gef ég einnig upp útreikning miðað við að heyjaðar séu 500 rúllur á þessu sama búi. Vinnulaun eru samkvæmt forskrift ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald hrossabónda, annars vegar fyrir 75% starf, hins vegar fyrir 100% starf eins manns. Niðurstöður eru birtar í töflu 1 og samkvæmt þeim þurfa að fást 28-35 þúsund krónur fyrir brúsa af blóði til að standa undir kostnaði við framleiðsluna.

Kjör merabænda fram til þessa

Viðskiptasamningar við Ísteka, sem allflestir merabændur hafa nú sagt upp, innifela verðskrá fyrir tímabilið 2019-2023. Þegar þau viðskiptaskilyrði voru settir fram af hendi Ísteka, höfðu merabændur reifað málstað sinn og kynnt kostnað og tekjur við hrossahald, reiknað út af ráðunaut hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Ráðunautur RML gerði afar hófsama nálgun á þennan kostnað, þar sem föstum kostnaði í búrekstri var nær alfarið sleppt. Samkvæmt þeim útreikningum þurfti lágmark 12.245 krónur til að framleiða brúsa af blóði. Það var árið 2018. Þrátt fyrir svo hógværar kröfur ákvað Ísteka að setja fram verðskrá með þrem verðflokkum, þar sem enginn verðflokkur náði útreiknuðu kostnaðarverði. Hæsti flokkurinn var 90% af útreiknuðum kostnaði, miðflokkurinn 82% og lægsta verðið 68%. Lægri verðin borgar Ísteka þeim sem eru með hlutfallslega litlar afurðir miðað við talinn fjölda mera í stóði. Maður með nokkrar geldar merar sem gefa ekki blóð, fær minna borgað en aðrir fyrir hvern lítra af blóði. Til að komast hjá allt að fjórðungs verðfellingu á öllum sínum afurðum hafa margir bændur neyðst til að sóna hryssuhópinn hjá sér til að ná geldu merunum út. Þessu flokkakerfi hafa bændur ævinlega mótmælt, enda er það svívirða, en málefni þess eru efni í aðra grein.

Krónutöluhækkun er milli ára í verðskrá Ísteka. Þar til nú hefur sú hækkun rétt lafað í að halda í við vísitölu, en engin tenging er við verðlag í viðskiptaskilyrðum Ísteka og engin endurskoðunarákvæði. Áburðarverðshækkunin sem nú er skollin á, auk annarra hækkana á verðlagi, gerir það að verkum að vonlaust er að blóðframleiðsla geti borið sig á grunni þessarar verðskrár. Þess vegna sögðum við henni upp.

Merabændur þurfa ekki nokkurra tuga prósentuhækkun á afurðaverði. Þeir þurfa margföldun á afurðaverði. Tvöföldun til þreföldun á verði fyrir blóð er nauðsynleg til að greinin haldi velli í yfirstandandi þrengingum og geti þróast eðlilega til framtíðar. Mörgum getur þótt það bratt að fara fram með slíkar kröfur en hér hef ég aðeins fjallað um framleiðslukostnað á blóði. Næst skulum við líta á verðmæti blóðs.

Verðmæti blóðs

Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur keypt hryssublóð af bændum til lyfjaframleiðslu frá því árið 2002. Segja má að eigandi fyrirtækisins sé aðeins einn, Hörður Kristjánsson, en hann og félag í hans eigu á yfirgnæfandi meirihluta í fyrirtækinu. Ársreikningar Ísteka frá upphafi til vorra daga sýna að mínu mati margt áhugavert og hef ég tekið saman helstu tölur í töflu 2. Niðurstaðan er að hvert einasta ár allan þennan tíma hefur fyrirtækið skilað hagnaði. Fram til ársins 2016 eru reikningarnir reyndar hauslausir og sýna ekki grunntölur rekstrarreiknings, þ.e.a.s. tekjur og gjöld. Þess vegna get ég ekki reiknað hagnað sem prósent af veltu nema fyrir sex síðustu árin, en þá var hagnaðurinn oftast um 38%. Á því tímabili fjórfölduðust eignir félagsins og gott betur, svo einhverju hefur þar verið úr að spila. Árið 2016 var hagnaðurinn reyndar ekki nema tæplega 18% af veltu, eða 85 milljónir, sem var lítið miðað við önnur ár bæði á undan og eftir. Þá hefur fátæktin einnig sorfið svo að eigandanum að hann greiddi sér 160 milljónir í arð til að rétta af persónulegan fjárhag sinn.

Samanlagður arður greiddur til eiganda, á þeim 19 árum sem þessar tölur ná yfir, nemur rúmlega 1,3 milljörðum að núvirði. Það jafngildir 5,9 milljónum á mánuði allan þennan tíma.

Hvernig urðu allir þessir peningar til?

Vöxtur Ísteka stendur í beinu sambandi við aukna blóðframleiðslu hjá bændum. Stundum hafa Ístekamenn reynt að skýra gróða sinn með einhverju öðru, en þær skýringar hafa aldrei haft neina sýnilega stoð. Hlutfallslegur hagnaður fyrirtækisins af vinnslu blóðs hefur verið mikill og stöðugur svo langt sem séð verður.

Árið 2020 borgaði Ísteka 10.582 krónur fyrir brúsa af blóði, ef blóðið kom úr stóði sem lenti í miðflokki. Reikna má með að um 5 þúsund merar hafi verið í blóði þá um sumarið og að hver þeirra hafi gefið blóð í fimm skipti. Kostnaður Ísteka vegna kaupa á blóði hefur verið um það bil 265 milljónir. Hagnaður fyrirtækisins var 740 milljónir. Meðan bóndi fékk á bilinu 8.818 til 11.636 krónur fyrir brúsa af blóði, hagnaðist Ísteka um 29.600 krónur á hverjum brúsa. Ef þessum hagnaði hefði verið skipt til helminga milli bændanna og fyrirtækisins, hefði blóðbrúsinn fært 25.382 krónur heim á býli sem lenti miðflokki. Ísteka hefði aðeins hagnast um 370 milljónir árið 2020, en það hefði Herði Kristjánssyni líklega þótt of lítið. Mér skilst líka á framkvæmdastjóranum, Arnþóri Guðlaugssyni, að hann treysti sér alls ekki til að halda fyrirtækinu réttum megin við núllið við þau skilyrði.

Ísteka hefur mokað inn hagnaði og þanið út eigur sínar alla sína tíð, sem nú eru orðin 20 ár. Frumbýlingsárin eru liðin. Litla sprotafyrirtækið sem eitt sinn stóð svo völtum fótum (þetta er háð) er nú orðið að lyfjarisa á heimsvísu. Þetta fyrirtæki óx og safnaði arði á sama tíma og bændur notuðust við aðstöðu búna til úr drasli, borguðu afsláttarverð fyrir merar og stóðu í blóðtöku í sínum eigin frítíma og annarra. Þetta verður að breytast. Við eigum gríðarlega fjármuni inni hjá þessu fyrirtæki og kröfur okkar um afurðaverð sem stendur undir framleiðslukostnaði eru löngu tímabærar, sanngjarnar og raunhæfar.

Sigríður Jónsdóttir

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...