Fyrir hvern ert þú eiginlega að vinna?
Sex ára starfsemi upprunamerkis sem sauðfjárbændur hafa af framsýni og skilningi fyrir kröfum nútímans byggt upp skilur eftir góða reynslu og þekkingu.
Árangur á ferðamannamarkaði sl. sex árin hefur verið framar vonum, og miðlun til íslenskra neytenda síðustu tvö árin verið kærkomin.
Samstarf við Kjarnafæði Norðlenska lofar góðu og notkun merkisins eykst. En þessi pistill fjallar ekki meira um merkið íslenskt lambakjöt, nema sem hluta stærri sögu. Því hunsun af hálfu örfárra stjórnenda afurðastöðva í eigu sömu bænda og standa að baki upprunamerkinu hefur haft hamlandi áhrif. Ekki bara framgangi þess, heldur miklu víðar. Neikvæðni og fýlustjórnun hafa ráðið för, sem speglast líka í viðhorfi til nýrri verkefna bænda í upprunamerkingum. Stjórnendur þessir eru vanir að segja vinnuveitendum sínum, eigendum afurðastöðva, til um hvað má hugsa og segja, vinnufriður er bestur þegar eigendur þegja. Á bannlistanum eru sannreyndar upprunamerkingar. Sem geta stórbætt samningsstöðu bænda og afurðastöðva. Talað til óska neytenda og aukið eftirspurn og virði íslenskra afurða.
Vilji íslenskra neytenda
- 72% eru óánægð með að erlendar kjötvörur séu seldar undir íslenskum vörumerkjum.
- 63% óska þess að innlendar matvörur verði upprunamerktar.
- 20% telja sig hafa verið blekkt til kaupa á erlendum matvörum í íslenskri verslun vegna óskýrra eða villandi merkinga t.d. undir íslenskum vörumerkjum.
- 80% telja upprunamerkingar á öllum kjötvörum skipta miklu.
- 53% segjast frekar velja lambakjöt með merkingu sem staðfesti íslenskan uppruna.
- 36% segjast vera tilbúin að borga meira fyrir lambakjöt með merkingu sem staðfesti íslenskan uppruna.
- 80% segjast frekar velja kjötvöru merkta vernduðu evrópsku
afurðaheiti.
Gallup 2020-2021 fyrir íslenskt lambakjöt
Ef við seljum ekki innflutt, þá gerir það bara einhver annar
Algengasta afsökun stjórnenda afurðastöðva er þessi, af henni leggur fullkomið sinnuleysi gagnvart afdrifum vinnuveitenda þeirra, bænda. Líka metnaðarleysi og sérhlífni þess sem veit að innflutningur og sala er mun einfaldari starfsemi en rekstur afurðastöðva.
Ég spyr á móti, hver á að vinna þína vinnu þegar þú hefur ákveðið að sinna ekki þeim skyldum sem þú varst ráðinn til?
- Að setja afkomu vinnuveitenda þinna, eigenda afurðastöðvar, í forgang.
- Að koma vörum eigenda í sem best verð, tryggja markaðshlutdeild og framlegð sem tryggi rekstur þeirra ekki síður en afurðastöðva.
- Að tala upp og gildishlaða afurðir frá íslenskum bændum og matvælaframleiðslu.
- Að tala upp aukin gæði í búskap, og úrvinnslu íslenskra afurða.
- Að sinna vöruþróun og auka gæði í fyrirtækjunum, lesa í markaðsaðstæður og greina tækifæri í stefnum og straumum.
- Að miðla öllum þeim upplýsingum sem neytendur óska með auðskiljanlegum og sannarlegum hætti.
- Að nota þriðja aðila upprunamerki og gæðavottanir sem bæta samningsstöðu bænda og afurðastöðva eftir sannreyndum fordæmum.
- Að skilja lögmál verðteygni, neytendur velja ekki bara út frá niðurstöðu í töflureikni.
Markaðurinn ræður?
Samkvæmt stjórnendum afurðastöðva ráða þeir langt í frá hvað þeir selja, ef markaðurinn vill innflutt nautakjöt, verðfellum við það íslenska og búum til pláss fyrir innflutta samkeppni. Og plássið hefur svo sannarlega myndast, verðlausir kálfar verið aflífaðir nýfæddir sl. árin, takk fyrir! Afurðastöðvar í eigu bænda flytja svo inn og selja innflutt naut sem er helvíti fínn „bissness“ í Excel-skjalinu, enda vantar einmitt nú kjöt á markað! Kálfana sem bændur „nenntu“ ekki að ala þarna í hitteðfyrra eftir síðasta verðhrun.
Ef tollfrjáls kjúklingur býðst flytja afurðastöðvar hann inn og selja án upprunamerkinga, blekkjum bara neytendur og hunsum ruðningsáhrif á verðmyndun allra kjöttegunda. Svo er innflutta kjötið líka bara svo mikil gæðavara segja starfsmenn bænda.
Við getum ekki keppt við þetta, markaðurinn stýrir för! Stjórnendur afurðastöðva vilja ekki heldur valkvæðar upprunamerkingar, sem geta bætt rekstrargrundvöll íslenskra bænda á þeim forsendum að merkingum fylgi kostnaður.
Á hreinni íslensku
Eru þetta hrútskýringar og gaslýsing, neytendur vilja íslenskar matvörur en eru blekktir til að kaupa innfluttar vörur í skjóli gráa svæðisins í lögum um upprunamerkingar.
Lögum sem þeim er fullljóst að verður ekki breytt og eru bundin EES samningnum. Auðvitað fylgir kostnaður nýjum merkingum, en á móti löngu sannaður ávinningur þúsunda fordæma erlendis frá og í viðhorfi neytenda til afurða íslenskra bænda.
Bændur fá ekki nákvæmar upplýsingar um rekstur einstakra deilda í fyrirtækjum sínum, geta ekki haft upplýstar skoðanir á störfum stjórnarmanna og stjórnenda í eigin félögum. Árið 2023 vita eigendur t.d. ekki hver framlegð er í slátrun annars vegar og svo kjötvinnslu innan sömu fyrirtækja. En stjórnendur segja sama brandarann á fundum ár eftir ár. „Slök afkoma sláturhlutans“ er ástæða þess að verð til bænda er lélegt. Það virðist ekki henta að eigendur viti of mikið. Hverjir ætla að heyra sama uppistandið ár eftir ár þar til enginn situr lengur í salnum?
Stjórnendur sem fá sín laun frá bændum taka einfaldlega þátt með kerfisbundnum hætti í að skerða hlut bænda í markaðshlutdeild, framlegð og sverta ímynd íslensks landbúnaðar. Í opinberri umræðu halda stjórnendur bændum og samtökum þeirra nærri til að skapa sér skjól, t.d. í umræðu um tollamál. En snúa svo bakhlutanum að bændum með sinni framgöngu þegar þeim hentar. Þeir hafa komist upp með það lengi, og sjá ekkert athugavert við framferðið.
Enda launatékkinn ekki tengdur afurðaverði, sem bændur vilja endalaust ræða, sem er auðvitað ósköp þreytandi þegar menn hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa.
Grafið undan eigendum afurðastöðva
Sinnuleysi fyrir framtíð íslenskra bænda er því miður raunin, ábendingar bænda, vinna starfsmanna þeirra, markaðsrannsóknir og skýrslur óháðra sérfræðinga hagga ekki afstöðu stjórnenda, sem alltaf vita betur!
Með „spægipylsuaðferðinni“ eru bændur sneiddir niður, bú fyrir bú, fjölskyldu fyrir fjölskyldu.
Stærsta fyrirtækið í sauðfjár- og nautgripaslátrun og úrvinnslu sl. áratugi, sinnir t.d. engri markaðssetningu á smásölumarkaði fyrir sitt lamba- og nautakjöt, afurða sem 99% landsmanna neyta. En fyrirtækið og dótturfélög þess nýta neytendamarkaðssetningu þegar kemur að öðrum vöruflokkum og hakar fagmannlega í öll boxin. Einnig í sölu rekstrarvöru til bænda, sem telja um 1% þjóðarinnar. Jú, 99+1 eru enn 100, en samt gengur dæmið bara alls ekki upp?
Öllu snúið á hvolf
Um 3.000 starfandi bændur eru í landinu, markaðshlutdeild dregst stöðugt saman, meðalaldur afar hár og óvissa um rekstrarskilyrði og framtíðarstefnu stjórnvalda viðvarandi. Það hvetur ekki ungt fólk áfram í ákvörðun um að verða bændur.
Nokkrir starfsmenn bænda, teljandi á fingrum annarrar handar, virðast ekki líta á hlutverk sitt að gæta hagsmuna vinnuveitenda sinna.
Starfsmenn sem hafa löngu gleymt til hvers þeir voru ráðnir geta valdið vinnuveitendum sínum óbætanlegum skaða.
Vilja afurðastöðvar gera þetta eða hitt? spyrja bændur, og eiga þá við starfsmenn sína. Þegar spurningin ætti að vera; vil ég ásamt hinum eigendum fyrirtækisins breyta þessu eða hinu?
Hvenær ætla bændur að spyrja sína starfsmenn; fyrir hvern ert þú eiginlega að vinna?