Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
En það er bara ekki nóg að hafa fögur orð um fæðuöryggi meðan athafnir fylgja þeim ekki eftir. Margir hafa því vaknað upp við vondan draum nú og áttað sig á að stríðsátök í fjarlægu landi geti haft jafn miklar afleiðingar hér og raun ber vitni.
En það er bara ekki nóg að hafa fögur orð um fæðuöryggi meðan athafnir fylgja þeim ekki eftir. Margir hafa því vaknað upp við vondan draum nú og áttað sig á að stríðsátök í fjarlægu landi geti haft jafn miklar afleiðingar hér og raun ber vitni.
Mynd / Agrigate Global
Lesendarýni 6. maí 2022

Hvernig tryggjum við fæðuöryggi

Höfundur: Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa

Það hefur aldrei vantað neitt upp á að þjóðin og stjórnmálamenn vilji í orði tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar, sem þýðir á mannamáli að við getum alltaf skaffað nægan mat fyrir alla á viðráðanlegu verði. Á sama hátt viljum við öll tryggja matvælaöryggið en í því felst að fæðan sé holl og hafi ekki neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar. En þrátt fyrir þetta er lítið um aðgerðir í þá átt og eins og þetta sé alltaf eitthvert óljóst viðfangsefni sem hægt sé að taka á þegar betur árar í samfélaginu eða vinnuálagið í þinginu verður eitthvað minna.

En það er bara ekki nóg að hafa fögur orð um fæðuöryggi meðan athafnir fylgja þeim ekki eftir. Margir hafa því vaknað upp við vondan draum nú og áttað sig á að stríðsátök í fjarlægu landi geti haft jafn miklar afleiðingar hér og raun ber vitni. Þrátt fyrir alvarleikann þá virðist samt umræðan meðal helstu ráðamanna vera á þann veg að þetta verði nú frekar milt hér hjá okkur, eða eins og hæstvirtur landbúnaðarráðherra, Svandís Svavarsdóttir, orðaði það nýlega í svari við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen þingmanns á Alþingi: „Það er ekkert sem bendir til þess að fæðuöryggi landsmanna verði raskað en það mun koma upp hiksti í framleiðslukeðjunni víða og auðvitað meiri líkur á slíku eftir því sem ófriðurinn dregst á langinn,“ sagði Svandís. https://www.dv.is/eyjan/2022/03/28/ekkert-sem-bendir-til-thess-ad-faeduoryggi-landsmanna-verdi-raskad/

Spurning Ingibjargar Isaksen þingmanns var þessi: „Ef allt fer á versta veg vofir yfir framleiðslustöðvun í eggja-, alífugla- og svínarækt ásamt því að draga þarf verulega úr framleiðslu í mjólkuriðnaði, nautgripa- og sauðfjárrækt. Staðan er því graf­alvarleg. Uppistaðan í dýrafóðri er korn. Því vil ég spyrja hæstvirtan matvælaráðherra, er til staðar viðbragðsáætlun til að bregðast við ástandinu sem nú vofir yfir? Og hvernig getum við tryggt aðgengi að lykilaðföngum til innlendrar framleiðslu næsta árið?“

Hver er hin raunverulega staða?

Það er vissulega enginn að fara að svelta á Íslandi, því við höfum nægan fisk að borða, en það eitt og sér uppfyllir ekki það sem fæðuöryggi felur í sér.

Ef við tökum landbúnaðinn og skoðum hann nánar þá eru áburður, fóðurhráefni og olía þau innfluttu aðföng sem við getum ekki verið án. Útlit er fyrir að nægan áburð verði að fá í ár, en ef stríðið hefði skollið á nokkrum vikum fyrr er ólíklegt að svo væri þar sem uppistaðan í áburðarhráefnunum kemur frá Rússlandi. Mikil óvissa er því um áburð næsta árs ef átökin halda áfram.

Eins og fram hefur komið áður hækkaði verð á áburði mjög mikið milli ára eða nálægt tvöföldun á verði. Sú verðhækkun var þó komin fram áður en stríðsátökin brustust út og var afleiðing orkukreppunnar í Evrópu. Ríkið hefur brugðist við því með 700 milljóna kr. styrk til bænda sem dekkar þó líklega ekki nema um 20% af verðhækkuninni á áburðinum milli ára.

Varðandi kornvörur til fóður­framleiðslunnar þá er staðan mjög þröng og verð hefur hækkað gríðarlega. Úkraína ein og sér býr yfir stærsta ræktarlandi Evrópu og er mjög stór í viðskiptum með kornvörur á heimsmarkaði. Þannig er landið annar stærsti ræktandi á byggi, þriðji stærsti framleiðandi á maís og framleiðir um helming af sólblómaolíu heimsins. Sem útflutningsland er Úkraina 4. stærsti útflytjandi á kornvörum. Á sama tíma og kornvara er lokuð inni í Úkraínu er lokað á allan útflutning á korni frá Rússlandi, en saman eru löndin tvö með 25–30% af heimsviðskiptum með kornvörur. Það má því öllum vera ljóst að nægt korn er ekki til skiptanna í Evrópu. Áhrifanna gætir þegar hér þar sem ekki er hægt að skaffa alla þá kornvöru sem innlendir fóðurframleiðendur þurfa til sinnar framleiðslu. Bygg er nú ekki fáanlegt en með breyttum uppskriftum og meiri notkun á hveiti sem að jafnaði er dýrara hráefni tekst að halda hlutunum gangandi enn þá án skaða. Söluaðilarnir geta einfaldlega ekki staðið við afhendingar sem búið var að lofa þar sem aðfangakeðjan er rofin. Kornið er ekki að berast til birgðastöðvanna í Evrópu eins og til stóð.

Fæðuörygginu er líka ógnað, sérstaklega nú þar sem bændur munu ekki hafa efni á að framleiða sínar afurðir nema til komi hækkanir sem dekka þann mikla kostnaðarauka sem á þeim dynur. Við sem þjóð þurfum einfaldlega að gera okkur grein fyrir og sætta okkur við að verð á hollum innlendum matvælum þarf að stórhækka á næstu vikum og mánuðum ef við ætlum ekki að veikja eða stórskaða þessa mikilvægu atvinnugrein sem er undirstaða bæði matvæla- og fæðuöryggis okkar. 

Hvað gerist ef við fáum ekki áburð og nægt korn til fóðurframleiðslu

Ef við fengjum engan áburð til að bera á ræktarland má búast við að uppskera á grasi til gróffóður­framleiðslu bænda myndi minnka um 30–50% og til lengri tíma færi að bera á mjög skaðlegum næringarskorti í túnum bænda sem síðan hefði bein áhrif á heilsufar búfjár. Ef ekki fengjust kornvörur til kjarnfóðurframleiðslu yrðu áhrifin strax mjög dramatísk í svína-, kjúklinga- og eggjabúskap sem algjörlega reiðir sig á kornvörur í sínu eldi.

Mjólkurframleiðsla myndi dragast mjög mikið saman ef kjarnfóður væri tekið af með öllu eða hluta. Ætla má að kjarnfóðurgjöf í dag skili einhvers staðar á bilinu 30–40% af því mjólkurmagni sem framleitt er í landinu. Í dag framleiðum við aðeins lítið brot innanlands af þeirri kornvöru sem þarf til kjarnfóðurframleiðslunnar.

Við erum því mjög langt frá því að vera sjálfum okkur nóg. Staðan er einnig sú í dag að fóðurframleiðendur hafa enga tryggingu fyrir því að geta skaffað næg hráefni út árið. Það verður heldur ekki leyst til skamms tíma með hvatningu til bænda um aukna kornrækt, það þarf einnig að vera fjárhagslega mögulegt.

Sem dæmi þá hefur Bústólpi á Akureyri, það fyrirtæki sem ég er í forsvari fyrir, til fjölda ára unnið með bændum að eflingu kornræktar. Fyrirtækið er þannig aðili með bændum að tveimur þurrkstöðvum fyrir korn á Norðurlandi og kaupir einnig korn af bændum eða vinnur það í sérfóður fyrir þá sjálfa.

Síðastliðið ár var mjög gott kornár og þá komu inn til Bústólpa tæp 500 tonn af byggi til vinnslunnar sem var mjög gott. En í stóra samhenginu þá vantar mikið upp á því á síðasta ári notaði fyrirtækið um 22.000 tonn samanlagt af hrávöru í sinni starfsemi. Af því magni er bygg 5.000 til 6.000 tonn. Þrátt fyrir að nota hlutfallslega mikið af innlendu fiskimjöli eru stræstu hráefnin innfluttar korntegundir, bygg, hveiti, maís og sojamjöl.

Fæðuöryggi til skamms tíma – viðbrögð við núverandi ástandi

Til að tryggja fæðuöryggi nú er nauðsynlegt að tryggja þegar í stað afkomu bænda þannig að þeir framleiði áfram þær vörur sem við þurfum á að halda. Miklar verðhækkanir aðfanga hafa gert það að verkum að framlegð í kjötgreinunum flestum er algjörlega óviðunandi og ljóst að bændur munu draga úr framleiðslu. Þess sjást þegar merki í nautakjötsframleiðslunni þar sem mikil aukning er í ungkálfaslátrun. Afkoma sauðfjárbænda er þannig að útilokað er að afurðaverð standi undir áburðarkaupum ársins.

Ljóst er af þróun á kornmörkuðum að aðeins brot af hækkununum er komið fram og ástandið á því eftir að þyngjast mjög. Þar mun einnig reyna á vilja svína-, alifugla- og eggjabænda til að framleiða við þessar aðstæður.

Mikilvægt er því að við sem þjóð gerum okkur grein fyrir því að afurðaverð þarf að hækka verulega og þar með verð á matvælum til neytenda ef við ætlum að tryggja að bændur og matvælaframleiðendur geti sinnt hlutverki sínu. Við aðstæður sem þessar er hvorki hægt né rétt að ætlast til að greinin beri uppi kostnaðinn við að tryggja fæðuöryggið. Það er ekki nóg að hvertja bændur til aukinnar kornræktar meðan afkoman í kornræktinni er óviðunandi og áhættan sem fylgir ræktuninni mikil.

Við þurfum að hafa dug og þor til að grípa inn í nú þegar, líkt og Sandra Borch, landbúnaðarráðherra Noregs, hefur þegar gert, en um leið og hún hvatti norska bændur til að rækta meira korn gaf hún yfirlýsingu þess efnis að norsk stjórnvöld ábyrgðust viðunandi afkomu við ræktunina.

Fæðuöryggi til lengri tíma litið, hvernig tryggjum við það?

Til að tryggja fæðuöryggi þjóðar­innar til lengri tíma litið þarf hugarfarsbreytingu og raunverulegar aðgerðir stjórnvalda sem tryggja rekstrarumhverfi landbúnaðarins alls; bænda, fóðurframleiðenda og afurðafyrirtækjanna. Þannig þurfum við að viðurkenna mikilvægi þessara aðila allra í að stuðla að fæðuöryggi þjóðarinnar. Stærsta atriðið í því er að tryggja stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi til langs tíma.

Rekstrarumhverfi þar sem atvinnugreinin í heild býr við sanngjarnt og eðlilegt samkeppnisumhverfi. Rekstrarumhverfi þar sem greinin getur þróast og vaxið til lengri tíma litið.

Við munum áfram verða háð innflutningi á korni til kjarnfóður­framleiðslunnar, sérstaklega maís og sojamjöli sem ógjörningur er að rækta hér. Þá er einnig mjög langt í land með að innlend byggrækt eða hveitirækt gæti fullnægt okkar þörfum.

En hvað er þá hægt að gera til að auka öryggið? Svarið við því liggur einna helst í því að hér væru byggðir upp kornlagerar sem entust til lengri tíma en nú er, þ.e. þjóðin ætti öryggisbirgðir af korni á hverjum tíma. Kostnaði við slíkt birgðahald eða uppbyggingu á slíkum birgðastöðvum er ekki hægt að skella á bændur eða fóðurframleiðendur þar sem slíkt væri gert til að tryggja fæðuröryggið.

Til að tryggja bændum viðunandi afkomu og rekstraröryggi til lengri tíma litið þarf gjörbreyttan hugsunarhátt varðandi innflutnings­vernd og stuðning við greinina. Innlendur landbúnaður og matvæla­framleiðsla geta aldrei keppt við óheftan innflutning á vörum frá löndum þar sem vinnuafl er ódýrara og jafnvel minni kröfur gerðar til gæða. Verðlag í okkar landi er hátt og það eru laun og annar kostnaður í virðiskeðjunni líka.

Það er ekki bara fæðuöryggið sem kostar. Það þarf nefnilega líka að borga fyrir matvælaöryggið, holla matinn, sem þó getur skilað sér margfalt til baka í betri heilsu og lækkun kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Íslenskir bændur geta bara einfaldlega ekki framleitt sína hágæða vöru og tryggt fæðuöryggið okkar og matvælaöryggið um leið ef þeir fá ekki laun fyrir það eins og aðrir þegnar samfélagsins. Því þarf að stórauka tollvernd og almennan stuðning við greinina sem greiðslu fyrir fæðu- og matvælaöryggið ef bændum, fóðurframleiðendum og afurðastöðvunum er ætlað að sjá um það hlutverk fyrir þjóðina.

Þá væri mikilvægt skref að koma aftur á fót áburðarframleiðslu hér á landi þar sem framleitt væri köfnunarefni með umhverfisvænni orku. Eftir sem áður yrðum við þó háð því að geta skaffað okkur önnur efni til framleiðslunnar eins og t.d. fosfórinn.

Mikilvægt atriði einnig, þegar horft er til lengri tíma, er að stórefla þarf rannsóknir í landbúnaði. Sem dæmi um það er að nauðsynlegt er að vinna frekari rannsóknir á kornyrkjum til að fá fram yrki sem henta hér og gæfu öruggari uppskeru frá ári til árs. Það eitt og sér er grunnforsenda þess að auka hér kornrækt.

16. apríl,
Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa
á Akureyri.

Skylt efni: fæðuöryggi

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...