Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Landbúnaðarháskóli Íslands verður hluti af evrópsku háskólaneti
Lesendarýni 7. september 2022

Landbúnaðarháskóli Íslands verður hluti af evrópsku háskólaneti

Höfundur: Ragnheiður I Þórarinsdóttir rektor og Christian Schultze, rannsókna- og alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands

Landbúnaðarháskóli Íslands og sjö aðrir samstarfsháskólar í Evrópu hlutu nýverið styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins að upphæð 6,83 milljónir evra, eða að jafngildi um 960 milljónir íslenskra króna til samstarfsnetsins UNIgreen (The Green European University).

Hinir háskólarnir eru Háskólinn í Almeria á Spáni, sem stýrir verkefninu, Landbúnaðarháskólinn í Plovdiv í Búlgaríu, Tækniháskólinn í Coimbra í Portúgal, Paris Sup’Biotech í Frakklandi, Háskólinn í Modena og Reggio Emilia á Ítalíu, Háskólinn í Varsjá í Póllandi og Háskólinn í Liege í Belgíu.

Efla á menntun, rannsóknir, nýsköpun, gæðamál og miðlun þekkingar

Evrópusambandið leggur áherslu á að efla samstarf æðri menntastofnana í Evrópu. Evrópskum háskólanetum er ætlað að tengja saman háskóla í ólíkum löndum álfunnar og efla samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Samstarfið leggur einnig áherslu á að auka gæði háskólastarfsins og styðja við þekkingarmiðlun og stjórnsýslu háskólanna. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir fyrir kerfisbundið og langvarandi samstarf sem nær bæði þvert á landamæri og námsgreinar.

Alls var 272 milljónum evra veitt til háskólanetanna að þessu sinni og hefur upphæðin aldrei verið hærri. Netin ná til 340 háskóla í 31 landi. Áður hefur Háskóli Íslands hlotið styrk vegna Aurora Alliance samstarfsnetsins. Landbúnaðarháskóli Íslands er því annar íslenski háskólinn sem sameinast evrópska háskólanetinu.

Ávinningur fyrir nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands

Þátttaka í samstarfsneti eykur möguleikana á fjármögnun alþjóðlegra rannsókna- og nýsköpunarverkefna og að koma upp og samnýta aðstöðu.

Nýir möguleikar opnast fyrir nemendur og starfsfólk háskólanna með auknu úrvali námskeiða og meiri möguleikum til skiptináms og nýtingu fjartækni til þátttöku í námskeiðum þvert á landamærin. Þá mun UNIgreen stuðla að auknu samstarfi við atvinnulífið meðal annars með starfsþjálfun, nýjum þverfaglegum verkefnum og áherslu á samlegðaráhrif og þekkingaryfirfærslu.

Að vera hluti af evrópsku háskólaneti opnar dyr til nýrra tækifæra, það er spennandi að fara í skipti- og verknám eða taka þátt í samstarfsverkefnum erlendis. Við getum lært margt af samstarfi við aðra háskóla á okkar fagsviðum og einnig margt sem við getum boðið okkar samstarfsaðilum. Við hlökkum til að fá enn fleiri gestakennara í gegnum samstarfið og bæta við okkar námsframboð fyrir háskólanema og jafnvel líka í gegnum endurmenntun skólans.

Samstarf við hagaðila

Evrópusambandið styrkir sérstaklega verkefni sem unnin eru innan evrópskra háskólaneta. Erasmus+ mun veita rúmlega milljarði evra til samstarfsneta háskóla á tímabilinu 2021-2027 og auk þess mun fjármagn frá Horizon Europe renna til rannsóknarsamstarfs innan netanna.

Þátttaka í samstarfsneti eykur þannig möguleika háskólanna á frekara samstarfi og að koma upp nýjum verkefnum í samstarfi við aðra hagaðila. UNIgreen er því afar mikilvægt fyrir framtíðarþróun Landbúnaðarhá- skóla Íslands.

Íslenskir stuðningsaðilar Landbúnaðarháskóla Íslands í UNIgreen eru Nemendafélagið Hvanneyri, Hvanneyrarbúið, Borgarbyggð, RML, Matís, Auðna Tæknitorg og Orkídea.

Heimsókn frá Almeria

Háskólinn í Almeria á Spáni leiðir verkefnið og fulltrúar þeirra koma í heimsókn til Íslands í byrjun næsta mánaðar til að ræða frekari samstarfsmöguleika við Landbúnaðarháskólann og aðra hagaðila hérlendis.

Þeir munu taka þátt í ráðstefnu um matvælaframleiðslu sem haldin verður á Selfossi þann 8. september og er öllum opin. Síðan verður fundur með fyrirtækjum í ylrækt og sérfræðingum Landbúnaðarháskólans. Farið verður yfir tækifæri Íslands til aukinnar framleiðslu, samstarf um rannsóknir og nýsköpun og möguleika á formlegu samstarfi um nám á háskólastigi.

Landbúnaðarháskóli Íslands sér fjölmörg tækifæri til eflingar landbúnaðar og vinnur að því að auka íslenska framleiðslu með nýsköpun og tækniyfirfærslu. Aukið alþjóðlegt samstarf í gegnum UNIgreen samstarfsnetið er stórt skref áfram og verðmæt viðurkenning fyrir starf skólans.

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...