Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ná þarf stjórn á losun landbúnaðar – Síðari hluti
Lesendarýni 16. desember 2019

Ná þarf stjórn á losun landbúnaðar – Síðari hluti

Höfundur: Kári Gautason
Í fyrrihluta greinar fjallaði ég nokkuð um stöðu landbúnaðar í ljósi þeirrar loftslagsvár sem við er að glíma á heimsvísu. Þar kom fram að viðfangsefni íslensks landbúnaðar er skýrt: Það þarf að draga úr losun úr  2,5 milljónum tonna losun gróðurhúsalofttegunda frá búrekstri eins og hægt er og kolefnisjafna afganginn. Og það þarf að gerast hratt. 
 
Tuttugu ár er þangað til Ísland ætlar að verða kolefnishlutlaust. Kúabændur hafa samið við ríkið um að kolefnisjafna framleiðslu sína fyrir 2030, sauðfjárbændur hafa gert samninga um kolefnisbindingu og garðyrkjan hefur sett sér markmið um að kolefnisjafna alla sína framleiðslu.
 
5,4 Heiðmerkur af skógi
 
Til að setja hlutina í samhengi þá hafa skógar á Íslandi bundið u.þ.b. 7,2 tonn af kolefni á hektara á ári, jafnað yfir vaxtarlotuna. Því þyrfti að planta í um það bil 350 þúsund hektara til þess að binda alla losun Íslensks landbúnaðar. Núverandi skóglendi á Íslandi er u.þ.b. 100.000 hektarar. Það myndi þýða að á ári hverju næstu tuttugu árin þyrfti að planta trjám í sem nemur 5,4 Heiðmörkum til þess að ná markmiði um að kolefnisjafna landbúnað. Því verður að draga úr losun samhliða því að binda kolefni í gróðri.
 
Aukin framleiðni búfénaðar og nytjajurta
 
Þá er hægt að gera ýmislegt til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu. Það liggur beinast við að auka framleiðni búfénaðar og nytjajurta. Fyrir hverja hundrað lítra sem bætast við meðalnyt íslenskra kúa má fækka í kúastofninum um mörg hundruð gripi. Við það dregur úr heildarsporinu umtalsvert. Með því þarf ekki viðhaldsfóður fyrir þá, hægt er að taka land úr rækt sem fór í að fóðra þá og svo framvegis. Aukin uppskera nytjaplantna hefur sömu áhrif. Fyrir meiri uppskeru úr hektaranum má draga úr því landi sem nýtt er og eftir atvikum moka ofan í skurði. Þá má ætla að það land sem sparast sé ófrjósamömustu svæðin og því mun áburðarnotkun einnig minnka. Hér á skjólbeltarækt stórt hlutverk. En með markvissri ræktun skjólbelta má bæta ræktunarskilyrði mikið.
 
Metandrifnar dráttarvélar 2021
 
Þá standa vonir til þess að til komi bætiefni sem hægt sé að blanda beint í kjarnfóður jórturdýra til þess að draga úr metanmyndun í vömb. Bætiefni að þessu tagi gætu lækkað metanmyndun um tugi prósenta. Þannig væri enn hægt að draga úr vistsporinu úr framleiðslu mjólkurkúa. Erfiðara er að nýta þessháttar lausnir í sauðfjárrækt þar sem að sauðfé er ekki á húsi nema hluta ársins. Einnig er hægt að framleiða metan úr hauggasi til að knýja dráttarvélar. Dráttarvélaframleiðandinn New Holland hefur boðað að árið 2021 rúlli fyrstu metandrifnu dráttarvélarnar af framleiðslulínunum. Eini útblásturinn er vatn og koltvísýringur og er útblásturinn 80% minni en af díseldrifinni vél af sömu stærð. Ljóst er að fyrirtæki bænda, Auðhumla gæti einnig farið í það verkefni að drífa flutningabíla sína með hreinorku og þannig dregið frekar úr kolefnisfótspori. 
 
Áburðarnotkun má minnka
 
Notkun á tilbúnum áburði er u.þ.b. einn tíundi af losun gróðurhúsalofttegunda í innlendum landbúnaði. Hægt er að draga verulega úr áburðarnotkun ef að bændur nýta sér þær tækninýjungar sem til eru í dreifingu og með markvissri notkun búfjáráburðar og áburðaráætlanagerð. Þó er óraunhæft með öllu að ætla landbúnaðinum það markmið að hætta notkun tilbúins áburðar. Slíkar aðgerðir hefðu sennilegast þau áhrif að umhverfisfótspor landbúnaðar myndi stóraukast á hvert kílógramm matvæla. Þá er einnig nokkur gerjun í nýsköpun á sviði örframleiðslu á áburði með rafgreiningu sem hægt er að framleiða á hverju býli. Kolefnisfótspor þeirrar framleiðslu er allt annað en á áburði framleiddum með jarðgasi. Þá þarf að fara yfir það hvaða áburður telst vera lífrænn, loðdýrarækt hefur um áratugaskeið framleitt loðskinn og áburð úr úrgangi og þar með dregið úr kolefnisfótspori landsins. Ef að áburður er framleiddur úr skólpi, sem vel er hægt að gera, þá er erfitt að rökstyðja hvers vegna hann ætti ekki að teljast „lífrænn“. Meira magn áburðarefna fer í gegnum holræsakerfi Höfuðborgarsvæðisins heldur en eru flutt í formi tilbúins áburðar. 
Samantekið gætu þessar aðgerðir dregið úr losun landbúnaðar talsvert en það er óframkvæmanlegt að losunin verði engin. Talsverð binding í formi skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis er nauðsynleg. 
 
Minni sóun minnkar losun
 
Það er rétt að átta sig á því að hér hefur einungis verið einblínt á framboðshlið losunar vegna landbúnaðar. Það verður hinsvegar ekki hægt að leysa þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir með því einu saman. Af hverjum þremur innkaupapokum sem verslað er í matinn lendir innihald eins í ruslinu. Mest er sóunin hjá einstaklingum og á veitingastöðum. Draga mætti verulega úr losun ef að þessi sóun minnkar. En það felur jafnframt í sér að framleiðsla mun dragast saman um þriðjung. Verði slíkur samdráttur í íslenskum landbúnaði þá mun losun þó ekki dragast saman um þriðjung þar sem að mikill meirihluti losunar er frá framræstu mýrlendi sem ekki hættir að losa koltvísýring nema það séu bleytt upp aftur. Því þarf að horfa til keðjunnar allrar. Loðdýrarækt er aftur gott dæmi um skynsamlega, náttúrulega lausn. Loðdýr framleiða verðmæti úr „sóun“ annarra atvinnugreina. Fleiri slíkar lausnir verða til ef að urðun er gerð ósamkeppnishæf með grænum gjöldum eins og stefnt er að. Horft hefur verið til þess að framleiða prótín til notkunar í fóðurs með notkun skordýra eða annarra lífvera. Eða framleiðsla á metangasi, áburði og svo framvegis. Hér eru mikil tækifæri í nýsköpun.
 
Ódýrustu aðgerðirnar fyrst
 
Mikilvægt er að ráðast í fyrst í ódýrustu aðgerðirnar, til þess að lágmarka hækkun á matvælaverði. Sé ekki að því gætt er allt eins líklegt að neysla á innfluttum matvælum aukist. Þannig muni íslenskur landbúnaður verða enn ósamkeppnishæfari í verði en áður og losun gróðurhúsalofttegunda einfaldlega flutt út til annarra landa. Það er einmitt það sem áhersla Evrópusambandsins á að draga úr notkun á tilbúnum áburði hefur skilað. Innflutningur á t.d. sojaprótíni frá Suður Ameríku hefur aukist mjög mikið og útblástur CO2 flust frá Evrópu til Suður Ameríku. Þá er rétt að benda á aftur að losun úr framræstum mýrum minnkar ekki þó að framleiðsla dragist saman. Sé óskynsamlega haldið á málum og innlend framleiðsla minnkar meðan innflutningur eykst má allt eins ætla að raunveruleg losun vegna neyslu matvæla á Íslandi aukist. En með skynsamlegri stefnu stjórnvalda og bænda má ná miklum árangri og ná markmiðum. Það mun auka samkeppnishæfni landbúnaðarins að geta boðið neytendum upp á kolefnis­hlutlausar vörur.
 
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...