Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Náttúruspjöll í skjóli pólitísks valds
Lesendarýni 7. september 2016

Náttúruspjöll í skjóli pólitísks valds

Höfundur: Sveinn Runólfssón
Það hefur lengi viljað loða við stjórnsýslu hér á landi, að þingmenn og ráðherrar hafa þrýst ótæpilega á stofnanir í þágu örfárra kjósenda og knúið fram aðgerðir sem gjarnan ganga þvert á hagsmuni almennings og komandi kynslóða. 
 
Náttúruspjöll í Eldhrauni í júlí sl. eru sorglegt dæmi um misbeitingu valds.
 
Hentaði ekki landeigendum að fara rétta leið
 
Eftir langvarandi úrkomuleysi og þurrka sl. vor og fram á sumarið voru lækir í Landbroti orðnir þurrir á efri vatnasviðum sínum. Það átti ekki að koma landeigendum við Grenlæk á óvart og þeim var í lófa lagið að sækja um leyfi til áveituframkvæmda til þess bærra stjórnvalda, þ.e. Orkustofnunar og sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Það virtist þó ekki henta þeim og þess í stað lögðu þeir stíft að ráðherrum og þingmönnum að grípa til einhverra úrræða, væntanlega til að komast hjá því að fara í mat á umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda eins og Skipulagsstofnun hafði boðað að gera yrði ef til áveituframkvæmda kæmi. Enn fremur þurfti sveitarstjórn ráðrúm til að leita umsagnar Umhverfisstofnunar o.fl. aðila til að gefa út framkvæmdaleyfi. Fyrir liggur að Grenlækjarmenn héldu uppi markvissum fjölmiðlaáróðri og hvöttu ráðamenn óspart til að koma vatni í Grenlæk.
 
Ólögmætar áveituframkvæmdir að mati Orkustofnunar
 
Á liðnum áratugum hefur það síst verið háttur forsvarsmanna Veiðifélags Grenlækjar og fyrri landeigenda Tungulækjar að sækja um leyfi stjórnvalda til áveitna þegar lækirnir hafa þornað eins og þeir hafa gert margoft. Frekar hafa þeir gripið til fjölmargra áveituframkvæmda sem Orkustofnun telur allar ólögmætar, samanber bréf stofnunarinnar til sveitarstjórnar.
 
Sótti ekki um framkvæmdaleyfi
 
Hótelbóndinn í Efri Vík í Landbroti, Hörður Davíðsson, lét síðan verða af hótun sinni sem hann birti í Bændablaðinu og opnaði þann 8. júlí sl. áveiturör sem Orkustofnun hafði nýlega lokað, skv. ákvörðun sinni frá 20. nóvember 2014. Ennfremur gróf hann tvær vatnsrásir úr Skaftá að varnargarðinum með fyrrnefndum rörum. Hann hafði ekki sótt um framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn eins og honum bar að gera samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Ennfremur voru þessar aðgerðir skýlaust brot á a.m.k. vatnalögunum nr. 15/1923 og náttúruverndarlögum nr. 60/2013 en á leið sinni norður Eldhraunið, að áveitugarðinum, gerði hann slóða í Eldhraunið frá 1783. Þess ber að geta að allt hraunið norðan Hringvegar er á náttúruminjaskrá en ekkert hefur heyrst frá þeim aðilum sem eiga að fara með náttúruvernd og sjá til þess að lögum sé fylgt.  
 
Væntanlega hafa pólitísk öfl þrýst mjög á Orkustofnun að grípa til aðgerða og viðbrögð Orkustofnunar við þessum gjörningi og brotum á m.a. Vatnalögunum, sem eru á forræði þeirrar stofnunar, voru þau að heimsækja hótelbóndann þann 12. júlí. Orkustofnun móttók daginn eftir beiðni hans um leyfi til áveituframkvæmda. Daginn þar á eftir, þann 14. júlí, veitir stofnunin Herði tímabundið leyfi til áveituframkvæmda með ýmsum skilyrðum. Í leyfinu fólst m.a. heimild til að rjúfa stórt skarð í fyrrnefndan varnargarð, sem væntanlega er eign umhverfisráðuneytisins sem kostaði uppsetningu hans árið 2000. Orkustofnun heimilaði einnig, þann sama dag, Lindarfiski ehf. o.fl. aðilum tímabundið að stjórna opnun og lokun áveituröranna, en sveitarstjórn hafði veitt því fyrirtæki framkvæmdaleyfi 14. maí sl.
 
RÚV hampar lögbrotum
 
Þann 15. júlí rauf  Hörður skarð í garðinn og opnaði annan áður grafinn skurð úr Skaftá að skarðinu í varnargarðinum. Síðan vann hann eitthvað við veituframkvæmdir við Brest og við Litla Brest við Hringveginn og fór síðan að Skálarál í landi Skálar. Þar vann hann einnig að ólögmætum áveituframkvæmdum og er það mat undirritaðs að það séu einu aðgerðirnar sem hjálpuðu vatnafari í Grenlæk og Tungulæk nú í sumar. RÚV hampaði Herði með hressilegu viðtali við Hörð að kvöldi þess 15. júlí þar sem hann vann við þessar ólögmætu framkvæmdir. Nokkrum dögum seinna, þann 23. júlí, gróf hann skurð í Litla Brest, talsvert fyrir sunnan Hringveginn í landi Botna.
 
Sem betur fer er nú komið talsvert rennsli í umrædda læki og aðra læki í Skaftárhreppi sem einnig þornuðu í þessari minnstu úrkomu sem mælst hefur á Kirkjubæjarklaustri, en þó ekki meir en svo að 8. ágúst sækir Hörður enn um leyfi til að skarðið í varnargarðinum yrði opið til 15. september nk., en honum bar skv. tímabundna leyfinu að loka því þann 15. ágúst. Enginn veit hvaðan það vatn kemur sem nú rennur í Grenlæk en að mati undirritaðs er það fyrst og fremst rigningarvatn og væntanlega vatn sem síast hefur í hrauninu frá Skálarál.
 
Aukin hætta á sandfoki og svifryksmengun
 
Jökulleir og sandur úr Skaftá flæmist nú um mörg hundruð hektara og bætir enn frekar við hættuna á sandfoki af svæðinu á komandi misserum með tilheyrandi svifryksmengun fyrir sveitunga Grenlækjarmanna, sem er sú mesta á landinu. Auk alls þessa kaffærir og eyðileggur áveitujökulvatnið sáningar Landgræðslu ríkisins frá sl. vori, en ríkisstjórnin hafði veitt sérstaka fjárveitingu til þess að freista þess að minnka sandfokshættuna í kjölfar stærsta Skaftárhlaups sem mælst hefur og lék Eldhraunið afar grátt.
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...