Nú fyrst fer að þrengja að sauðfjárbændum
Í haust skilaði umboðsmaður Alþingis afar athyglisverðu áliti varðandi skyldur sveitarfélaga til að smala ágangsfé.
Mátti skoða álit hans sem viss straumhvörf gagnvart rétti sauðfjáreigenda til að beita lönd annarra eða öllu heldur réttleysi þeirra til þess. – Nú hefur dómsmálaráðuneytið bætt um betur og tekið undir sjónarmið umboðsmanns varðandi túlkun laga sem lúta að lausagöngu búfjár. Þetta tvennt, sem nefnt er hér að ofan, gefur fyrirheit um að nú hilli loks undir að í hönd fari gjörbreyttir tímar varðandi landnotkun á Íslandi. Hér er um túlkun á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að ræða og því ekki neitt smámál sem í hlut á. Eðlilega hafa orðið nokkrar umræður um málið á spjallþráðum á netinu og sýnist sitt hverjum. Það verður þó að teljast með miklum ólíkindum þegar yfirlögfræðingur Bændasamtakanna (ætli séu margir lögfræðingar á launaskrá hjá Bændasamtökunum?) reynir í síðasta Bændablaði að afvegaleiða umræðuna og verja núverandi framkvæmd, þ.e. að sauðfé geti lagt landið undir sig í 10–12 vikur á ári og haft um það frjálsa för eins og fuglinn fljúgandi.
Frá mínum bæjardyrum séð er um grundvallarmál að ræða. Sjónarmiðið snýst einfaldlega um vernd eignarréttinda sem kveðið er á um í 1.mgr. 72 gr. stjórnarskrárinnar og beitingu heimilda löggjafans til almennra eignaskerðinga. Til að stjórnvöld geti beitt borgarana eignarskerðingu þarf yfirleitt að koma til eignarnáms að uppfylltum ákv. lagaskilyrðum en einnig geta komið til almennar eignarskerðingar sem leitt geta af settum lögum. Í báðum tilvikum þarf þó að vera til staðar skýr lagaheimild og skilgreind almenningsþörf. Hvorugt á við í þessu tilfelli. Í gegnum tíðina hef ég heyrt mörg rök sauðfjárbænda fyrir lausagöngu. En málið snýst ekki um hvort sauðfé hafi unnið sér hefðarrétt, ekki um að landið sé annars vannýtt, ekki um að gott sé að sauðfé bíti úthaga því að það stuðli að meiri kolefnisbindingu, ekki um hagkvæmni sauðfjárræktar, ekki um hvort landið haldist í byggð, ekki um hvort skógrækt sé óæskileg, ekki um hvort sauðfjárbeit í hallandi landi dragi úr líkum á skriðuföllum og örugglega ekki um að yfirlögfræðingur Bændasamtakanna telji að fæðuöryggi þjóðarinnar standi og falli með úthagabeit!
Við lagasetningu á síðustu öld, voru aðstæður í landinu allt aðrar en nú er. Í sveitum landsins var fyrst og fremst stunduð kvikfjárrækt og sauðfé á nær öllum bæjum og hagsmunir einstakra landeigenda því harla líkir. Sameiginleg sumarbeit og sameiginlegar göngur þóttu eðlilegar og hagkvæmar. Lítið reyndi á aðra tekjuaflandi landnotkun utan túnræktar, svo sem til skotveiða, ferða á fjöll með ferðamenn, virkjanir, skógrækt, beit stórgripa og nýtingu lands undir byggð óháða hefðbundnum búskap. Menn voru lítið að hugsa um annað en vænleika fjárins af fjalli og hugtök eins og stjórnarskrárvarin réttindi mönnum lítt hugleikin. Það stóð reyndar í boðorðunum að ekki mætti stela en það var nú aðallega til helgidagabrúks að veifa slíku.
En nú eru allar aðstæður verulega breyttar. Þó stjórnvöld hafi ekki þekkt sinn vitjunartíma, fyrr en e.t.v. nú í kjölfar álits umboðsmanns, þá er því miður ekki sjálfgefið að réttlætið nái fram að ganga vandræðalaust. Hætt er við að fram undan séu kærumál og í framhaldinu dómsmál sem að endingu enda mögulega fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg sem getur ekki annað en fallist á sömu rök og álit umboðsmanns byggir á. Hætt er við að meðan stjórnvöld ganga ekki fram fyrir skjöldu og taka af öll tvímæli um bann við lausagöngu búfjár, hangi sauðfjárbændur eins og hundur á roði og þrjóskist við að horfast í augu við breytta framtíð.
Sú breytta framtíð getur aðeins verið á þann veg að ef ekki liggja fyrir samningar allra hlutaðeigandi landeigenda um sameiginlega sumarbeit á landi sem hefur náttúrulegar varnir, þá verður sauðfjárbúskapur ekki stundaður nema innan girðinga á landi sem sauðfjárhaldarar hafa yfir að ráða.
Þetta er hinn blákaldi veruleiki málsins, sársaukafullur sem hann kann að reynast einstökum bændum.