Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl) 2022
Lesendarýni 5. september 2022

NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl) 2022

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson og Guðrún Björg Egilsdóttir, félagsmenn í NØK

Dagana 24.-27. júlí sl. var 37. ráðstefna NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl) haldin á Selfossi. NØK eru norræn samtök áhugamanna um nautgriparækt í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð en samtökin voru stofnuð þann 21. ágúst 1948 í Falkenberg í Svíþjóð.

Guðrún Björg Egilsdóttir
Guðmundur Jóhannesson

Tilgangur þeirra er að vinna að norrænu samstarfi um nautgriparækt, miðla þekkingu og reynslu milli félagsmanna auk þess að byggja upp tengsl og rækta góða vináttu.

Ráðstefnan

Ráðstefnan var sett sunnudaginn 24. júlí við hátíðlega athöfn í Selfosskirkju. Þar héldu Jóhannes Torfason, fráfarandi formaður NØK, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, ávörp. Á milli ávarpa lék Erna Vala Arnardóttir á píanó. Að setningu lokinni var boðið upp á fordrykk í Skyrlandi, þar sem Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, tók á móti hópnum og sagði frá sýningunni, sem er einkar glæsileg og fjallar um sögu skyrgerðar á Íslandi. Gestir gátu þar upplifað söguna, smakkað hið víðfræga íslenska skyr og nýtt tímann til að kynnast öðrum ráðstefnugestum og fjölskyldum þeirra.

Á mánudeginum voru haldin tólf erindi undir yfirskriftinni „loftslagsmál, umhverfi og velferð“ og að erindum loknum bauðst ráðstefnugestum að ferðast á Þingvelli og heimsækja Friðheima. Á þriðjudeginum voru haldin tólf önnur erindi en í það skiptið undir yfirskriftunum, „norrænt samstarf og mjólkurframleiðsla“ og „ræktun – kýr framtíðarinnar – nýir eiginleikar – litlir stofnar“. Að kvöldi var haldinn glæsilegur veislukvöldverður á Hótel Selfossi. Hátíðinni lauk á miðvikudeginum með sameiginlegum hádegisverð að lokinni hópferð um Flóann en í þeirri ferð var einangrunarstöðin á Stóra- Ármóti heimsótt sem og bændurnir á Stóra- og Litla-Ármóti.

Erindi ráðstefnunnar

Í þessu blaði munum við fjalla um erindi mánudagsins sem sneru að loftslagsmálum, umhverfi og dýravelferð. Í næsta tölublaði blaðsins munum við birta seinni hluta umfjöllunarinnar sem snýr að norrænu samstarfi og kúm framtíðarinnar.

Þjóðir heimsins hafa margar hverjar sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu áratugum. Á sama tíma eykst eftirspurn eftir fæðu sökum fólksfjölgunar og aukin áhersla er lögð á dýravelferð. Töluverðar áskoranir eru því fram undan og fjölluðu fyrirlesarar um það hvernig bændur og sérfræðingar geta tekist á við þessar áskoranir.

Ekki verður fjallað nákvæmlega um aðgerðir í hverju landi heldur stiklum við á stóru um það í hverju þessar aðgerðir felast.

Hjarð- og bústjórnun

Ýmsir þættir geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hverju búi fyrir sig. Mikilvægt er að lágmarka sóun í allri framleiðslukeðjunni en það má t.d. gera með því að horfa til hringrásarhagkerfisins og stuðla að réttri nýtingu og geymslu búfjáráburðar. Notkun á endurnýtanlegri orku, góð landnýting og hámarksuppskera af hverri flatareiningu eru einnig umhverfisvænar aðgerðir, sem og að stunda fóðuröflun sem næst búunum, til að draga úr flutningsþörf.

Heilsuhraustar kýr mjólka meira og meiri framleiðsla á hverja kú þýðir minni losun á hvern lítra mjólkur. Frjósemi og ending kúnna skiptir sömuleiðis máli, en því yngri sem kýrnar bera og því lengur sem þær endast í framleiðslu, því minni er losun gróðurhúsalofttegunda. Langlífari kýr þýðir færri kvígur í uppeldi á hverjum tíma og hagstæðari rekstur búanna, en greint var frá því að danskar kýr skila ekki jákvæðri afkomu fyrr en eftir 2,5 ár í framleiðslu. Hér á Norðurlöndunum er valið fyrir aukinni endingu í kynbótastarfinu og því að kýrnar haldi hárri nyt lengur út mjaltaskeiðið en með því fást meiri afurðir eftir hvern grip. Flest bendir til að ending fái aukið vægi í framtíðinni. Til að viðhalda hárri nyt horfa menn nú til þess að lengja mjaltaskeiðið með því að seinka sæðingum. Dönsk rannsókn sýndi fram á að auðveldara var að greina beiðsli kúnna við áttunda gangmál samanborið við annað gangmál þar sem hreyfing kúnna jókst um 22%.

Þetta hefði í för með sér lengra mjaltaskeið, hærra fanghlutfall við sæðingu, nytin helst lengur út mjaltaskeiðið og efnastyrkur mjólkurinnar eykst sömuleiðis. Frumutala, leiðni og sýrustig helst óbreytt.

Kynbætur gripa

Ein þeirra nýjunga sem hafa átt sér stað í kynbótum gripa á Norðurlöndunum er samstarfsverkefni NAV, VikingGenetics, Luke, Århus University, Seges og Växa en í sameiningu hafa þau þróað svokallaðan „Saved Feed index“ til að velja fyrir betri fóðurnýtingu gripanna. Áætlað er að ná megi fram 12% betri fóðurnýtingu með innleiðingu stuðulsins en hann byggir á „Cattle Feed InTake“ verkefninu sem felur í sér mælingar á fóðurinntöku með þrívíddarmyndavélum (3D).

Myndavélarnar greina át kúnna og þyngd þeirra á einstaklingsgrunni. Komið hefur verið fyrir myndavélum í 23 hjörðum sem saman telja yfir 1.000 Holstein, Jersey og rauðar danskar kýr. Um 1.600 myndarvélar eru virkar sem taka um 80 milljón myndir á dag. Til stendur að stækka verkefnið enn frekar og árið 2026 er stefnt að því að 10.000 kýr af hverju kyni verði myndaðar á hverjum tíma.

Fóðrun

Sérfræðingar horfa nú til nýtingar hliðarafurða sem fóður fyrir kýr. Með orðinu hliðarafurðir er átt við fóður eða annað sem fellur til við vinnslu á matvælum en mannfólk getur ekki nýtt. Þannig megi í raun hámarka nýtingu uppskerunnar og landsvæðin geta í senn nýst bæði til kornframleiðslu fyrir mannfólk og fóðurframleiðslu fyrir kýr. Svíar rannsökuðu hvort fóðrun á hliðarafurðum samhliða grasfóðrun hefði áhrif á át og mjólkurframleiðslu en svo reyndist ekki vera. Með því að skipta út korni og sojamjöli, sem maðurinn getur nýtt, fyrir hliðarafurðir, var hægt að auka fóðurframleiðsluna í heild án þess að það kæmi niður á framleiðslu og áti kúnna.

Auknar rannsóknir eru nú gerðar til að finna og/eða þróa fóður sem veldur minni losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir hafa sýnt fram á að minni losun sé til staðar ef gripir eru fóðraðir á olíuplöntum og þangi. Auk þess hefur notkun á 3NOP (3 nitrooxypropanol), sem er lítil sameind sem hindrar lokaskref metanmyndunar í jórturdýrum, sýnt fram á minni losun metans sé henni bætt í fóður. Talið er að ná megi fram 29-31% minni losun metans með notkun þess og hefur Evrópusambandið samþykkt notkun þess í fóðri.

Vinsældir beitar og beitarstjórnunar eykst sömuleiðis þar sem kolefnissporið er lægra og markaðurinn færist að einhverju leyti í átt að afurðum af gripum sem einungis eru aldir á grasi. Með aukinni áherslu á líffræðilegan fjölbreytileika er beit sömuleiðis góð. Dýrt er þó að fá „Grassfeed“ vottun, opinberar greiðslur eru óstöðugar, skemmdir á ræktarlandi geta verið vandamál sem og afföll dýra sökum úlfa og hunda. Allt er þetta þó spurning um framboð, eftirspurn og afkomu.

Hugsum hnattrænt, störfum staðrænt „Think globally, act
locally“

Mikilvægt er að horfa á stóru myndina þegar fjallað er um umhverfismál þar sem minni losun frá gripum getur þýtt neikvæðari umhverfisáhrif vegna vinnslu fóðurs, og öfugt. Í einhverjum tilfellum getur því borgað sig að fóðra gripina á umhverfisvænni hátt, þrátt fyrir að losun gripanna sé meiri. Við endum þessa umfjöllun á orðum Niels Martin Nielsen, ráðunautar hjá KvægXperten á Jótlandi, „margt smátt gerir eitt stórt“ en með því að auka notkun olíuplantna í fóður um 5%, bæta hjarðstjórnun um 5%, auka mjólkurframleiðslu grips um 5%, auka kynbætur um 5% og fóðurnýtingu um 5% þá minnkar kolefnisfótspor mjólkurframleiðslunnar um 25%.

Segja má að eftir þennan fyrri dag ráðstefnunnar standi að innan nautgriparæktarinnar er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að draga úr losun og mörg smá skref verða að einu stóru.

Til þess að hrinda þeim í framkvæmd þarf hins vegar breytta hugsun og stuðning samfélagsins alls.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...