Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rannsókn rifjuð upp í tilefni 40 ára afmælis
Mynd / Bbl
Lesendarýni 24. janúar 2022

Rannsókn rifjuð upp í tilefni 40 ára afmælis

Blóðsöfnun úr fylfullum hryssum hefur verið ansi mikið til umræðu að undanförnu og hefur sú umræða frekar byggst á æsifréttum en traustum upplýsingum. Árið 1982 birtu þeir Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson niðurstöður rannsóknarinnar „Blóðsöfnun úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu“, sem þeir unnu við Tilraunastöð Háskólans í meinafræðum að Keldum.

Grein með því nafni kom út í Ráðunautafundi 1982 og í 12. tölublaði Freys það sama ár. Hér hyggst ég rifja upp niður­stöður þessarar rannsóknar og bera þær saman við reynslu af blóðmerabúskap. Búskaparhættir og verklag við blóðmerahald hafa breyst nokkuð frá þeim tíma sem greint var frá í grein Eggerts og Þorsteins en hér verður sagt frá þeim aðferðum sem nú eru viðhafðar.

Inngangur Eggerts og Þorsteins

„Undanfarin þrjú sumur hefur verið gerð tilraun hérlendis á vegum fyrirtækisins G. Ólafsson h/f til blóðsöfnunar úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Fyrsta sumarið (1979) var þetta í smáum stíl og var tekið blóð úr um 80 hryssum norður í Skagafirði; annað árið (1980) var starfsemin aukin verulega og tekið blóð úr um 680 hryssum víðs vegar um landið og síðastliðið sumar var enn um talsverða aukningu að ræða og tekið blóð úr liðlega 1000 hryssum.“ (Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson, 1982, bls. 472).

Fræðilegur grundvöllur og ákvörðun fyljunar

Eggert og Þorsteinn fóru í grein sinni yfir fræðilegan grundvöll hormónaframleiðslu hjá hryssum, sem hér verður ekki fjallað um, en sá grundvöllur er óbreyttur. Einnig gerðu þeir grein fyrir framkvæmd blóðsöfnunar og ákvörðun fyljunardags. Því verklagi hefur verið breytt frá upphafsárunum en á sínum tíma voru graðhestar jafnan í stóðunum. Fyljunartími hryssanna gat því verið ansi óviss en blóðsöfnun úr hverri hryssu miðaðist við áætlaðan dagafjölda frá fyljun. Nú er hleypt til meranna í fastákveðinn tíma.

Graðhestur er aðeins í stóðinu sem nemur tveimur gangmálum. Eftir það er hormónastaða hverrar hryssu mæld vikulega með blóðsýni. Blóðtaka hefst hjá viðkomandi hryssu þegar hormónið PMSG hefur náð hæfilegum styrk í blóði. Misjafnt er hversu lengi hver hryssa hefur hormónið í nægum styrk til að gefa blóð nýtilegt til vinnslu. Að meðaltali gefur hryssa blóð í fimm skipti en aldrei er blóð tekið oftar en átta sinnum. Blóðtökutímabilið stendur frá því í lok júlí og út september.

Í umfjöllun Eggerts og Þorsteins um hormónavinnslu úr hryssublóði segir að erlendis hafi þetta verið gert frá því um 1930. Enn fremur kemur fram að erlendar rannsóknir hafi leitt í ljós að hormónamagnið í blóðinu geti verið mjög mismunandi. Því hafi einnig verið haldið fram að smáhestakyn (ponies) framleiði hlutfallslega meira en stærri hestakyn. Þá sé verið að rannsaka hvernig þessu sé farið hjá íslenskum hryssum. Auk þessara atriða bentu þeir félagarnir á að íslenski hrossastofninn sé laus við alla þá smitsjúkdóma sem hrjá hross víða um heim og að það sé ef til vill okkar sterkasta vopn þegar kemur að samkeppni við aðra framleiðendur afurða úr hryssublóði.

Hér eftir gef ég vísindamönnunum orðið:

Framkvæmd blóðsöfnunar

„Á blóðtökutímabilinu er hverri hryssu tekið blóð fimm sinnum 5 lítrar í senn með viku millibili eða 25 lítrar alls. Ég vík nánar að niðurstöðum rannsókna á áhrifum blóðtökunnar á hryssurnar hér á eftir en vil aðeins benda á nú þegar, að hér er um all mikið vökvamagn að ræða. Það er því nauðsynlegt að hryssurnar hafi nægan aðgang að drykkjarvatni á blóðtökustað og í haganum og æskilegt er að þær hafi einnig aðgang að salti.

Blóðtakan fer fram í sérstökum básum. Vegna öryggis hryssanna, og ekki síður þeirra, sem við blóðtöku starfa er ákaflega mikilvægt að þessir básar séu vel úr garði gerðir og ekkert til þeirra sparað. Því er ekki að neita að á ýmsu getur gengið í byrjun, en flestar hryssur temjast ótrúlega fljótt. Básarnir verða að vera hlutfallaréttir svo að hryssurnar hafi sem minnst svigrúm til þess að hreyfa sig, án þess að þær séu þó þvingaðar á einn né annan hátt. Gerð hefur verið vinnuteikning að básum þessum, þar sem öll mál eru sýnd.

Básinn þarf að standa við góða rétt og hentugt er að hafa dilk eða rennu aftan við básinn til þess að auðvelda innrekstur. Við réttina þarf að vera gerði eða hæfilega stór girðing svo að hægt sé að fylgjast með hryssunum fyrst eftir blóðtöku.

Það er höfuðatriði að viðhöfð séu fumlaus og ákveðin handtök á blóðtökustað. Ótamdar stóðhryssur eru viðkvæmar og þess vegna hæfir ekki neitt „stóðréttaryfirbragð“. Tveir til þrír menn auk dýralæknis er hæfilegur mannskapur. Hæfileg afköst eru 30-40 hryssur á dag en komast má upp í 50-60 hryssur með vönum mönnum og hryssum. [Hér er átt við aðstöðu með aðeins einum bás.]

Blóðið er tekið úr bláæð í hálsi í sérstaka plastbrúsa, sem í er lausn sem hindrar storknun. Í þessum kútum er það flutt þangað sem skiljun fer fram.“ (Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson, 1982, bls. 474).

Áhrif blóðtökunnar á hryssur og folöld

(a) Áhrif á hegðun hryssanna
„Greinarhöfundar hafa starfað við blóðsöfnun öll þessi þrjú ár, sem þessi starfsemi hefur farið fram hérlendis og eiga að baki um 4000 blóðtökur. Höfum við því getað fylgst með áhrifum blóðtakanna á mikinn fjölda hryssa. Yfirleitt verður þeim lítið um. Sumar vilja þó híma dálítið fyrst á eftir og taka ekki í jörð. Einstaka hryssur virðast kenna einhverra ónota, sem lýsa sér í því að þær leggjast, velta sér yfir hrygg og liggja um hríð marflatar. Sérstaklega var þetta áberandi þurrviðrasumarið 1980. Við höfum ekki séð þess nokkur dæmi að hryssur hafi orðið afvelta fljótlega eftir blóðtöku. Undirstikar þetta aðeins nauðsyn þess að vel sé fylgst með hryssunum a.m.k. fyrsta sólarhringinn eftir blóðtöku. Folaldsmerum hættir við að klumsa ef þær eru settar í aðhald og eru nokkur dæmi um það. Gegn því má sporna með því að forðast allan hamagang og læti í kringum hryssurnar, hafa aldrei fleiri en 20-30 hryssur inni í rétt eða húsi í senn og sjá til þess að þær hafi nægan aðgang að drykkjarvatni.

Ekki höfum við séð þess nein merki að hryssurnar hafi lagt af vegna blóðtökunnar, en vitaskuld ber að gjalda varhuga við að taka þeim hryssum blóð sem eru illa framgengnar og þunnholda.

Slys geta alltaf orðið þegar átt er við ótamin hross. Hryssurnar eru tryggðar af kaupanda blóðsins gegn hvers kyns skakkaföllum er þær kunna að verða fyrir á blóðtökutímabilinu og rekja má til blóðtökunnar. Venjulega róast og temjast flestar hryssurnar eftir 1-2 skipti í blóðtökubásnum. Einstaka hross kann frelsisskerðingunni þó svo illa að þau eru lítt meðfærileg og borgar sig ekki að setja menn og skepnur í þá hættu, sem af því leiðir. Þetta verður að meta í hvert skipti en venjulega höfum við þann háttinn á, að ef hryssan hefur ekki gefið sig eftir 2-3 skipti í básnum er henni sleppt við frekari blóðtöku.

(b) Áhrif á sæld folalda
Ætla mætti að við blóðtökurnar og þá röskun, sem þeim fylgir myndu hryssurnar geldast og það koma fram á fallþunga folalda að hausti. Lausleg athugun virðist þó ekki benda til þess að svo sé. Verið er að vinna úr gögnum frá sláturhúsinu í Djúpadal í Rangárvallasýslu yfir meðalfallþunga folalda á blóðtökubæjum bæði fyrir og eftir að blóðtökur hófust og til samanburðar einnig meðalfallþungi folalda á bæjum, sem ekki hafa verið með í blóðsöfnun.

(c) Áhrif á blóðgildi
Öll þrjú árin, sem blóðsöfnun hefur farið fram hérlendis, hafa verið tekin blóðsýni úr ákveðnum hóp blóðtökuhryssa og fylgst með áhrifum blóðtökunnar á ýmsa þætti í blóðinu. Mælinganiðurstöður hafa verið bornar saman við normalgildi þessara þátta í blóði íslenskra hrossa. Sýni hafa verið tekin samhliða blóðtökunum til þess að fylgjast með skammtímaáhrifum blóðtökunnar og einnig hefur verið fylgst með ákveðnum hóp blóðtökuhryssa næsta vetur til þess að athuga hvort áhrifa blóðtöku gæti til lengri tíma. Megin áhersla hefur verið lögð á mælingar blóðrauða (haemoglobin) og blóðkornahlutfalli (haematocrit) þar sem breytingar á þessum þáttum gefa ákveðna vísbendingu um blóðleysi (lækkun) eða of mikið vökvatap (hækkun blóðkornahlutfalls). Einnig voru mældir eftirfarandi þættir: heildarprótein, kolesterol, albumin, þvagefni, magnesium, calsium og ólífrænn fosfór.

Línuritin [sem fylgja þessari grein] sýna glöggt þær breytingar sem verða á blóðrauða [efri mynd] og blóðkornahlutfalli [neðri mynd] samfara blóðtökum. Þessi gildi lækka í upphafi blóðtöku, en hækka síðan aftur undir lok blóðtökutímabilsins. Þær breytingar sem mælst hafa á þessum blóðgildum í blóðtökuhryssunum hafa þó ekkert árið farið út fyrir eðlileg mörk.

Veturinn 1979-1980 voru tekin sýni 4 sinnum úr ákveðnum hóp blóðtökuhryssa, fylfullum hryssum, sem ekki voru með í blóðtökum og geldum hryssum og mældir þeir þættir sem nefndir voru hér að framan. Við tölfræðilega athugun á þessum blóðgildum reyndist ekki vera marktækur munur á blóðgildum blóðtökuhryssa og annarra fylfullra hryssa. Við svipaða athugun veturinn 1980-1981 fengust sömu niðurstöður.

Niðurstöður athugana á áhrifum blóðtöku á hryssur og folöld benda ekki til þess að hún hafi nein neikvæð áhrif á heilsufar og sæld. Hryssunum verður líklega hvað mest um hið skyndilega vökvatap sem þær verða fyrir þegar teknir eru 5 lítrar á kannske 3-5 mínútum. Það er því mikilvægt að þær hafi greiðan aðgang að vatni á blóðtökustað og í haga. Þá er skynsamlegt að hryssurnar hafi aðgang að síld eða fóðursöltum með haust- og vetrarbeit. Vitaskuld er fráleitt að taka í blóðtöku hryssur sem eru illa framgengnar og þunnholda og í því sambandi er rétt að benda mönnum á að láta hryssur ekki kasta snemma vors, jafnvel löngu áður en komin eru græn grös.“ (Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson, 1982, bls. 474-475).

Traustar niðurstöður

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru að mínu mati enn í fullu gildi. Einnig umfjöllun höfundanna um hvaðeina sem viðkemur búskaparlagi og framkvæmd blóðtökunnar. Frá því að rannsóknin var gerð og þau orð skrifuð sem hér er vitnað til, hafa hrossin ekkert breyst. Náttúran hefur heldur ekki breyst ef frá er talið heldur hagstæðara veðurfar en gerðist á árunum 1979-1981. Búskaparhættir hafa hins vegar breyst að því leyti að nú er yfirleitt auðveldara að heyja en fyrir 40 árum þegar rúllutæknin var ekki komin til sögunnar. Enda er nú alsiða að hafa hryssurnar á fullri heygjöf þegar þær kasta snemma vors.

Ekki verður annað séð en að leiðbeiningum Eggerts og Þorsteins hafi verið fylgt með góðum árangri. Halla Bjarnadóttir, bóndi í Ártúnum, var unglingur á Rangárvöllum og vann að hrossaragi og blóðtöku þegar þessar tilraunir voru gerðar. Hún hefur búið með blóðmerar alla tíð og að hennar mati hefur reynslan sem varð til í upphafi, æ síðan nýst til að koma í veg fyrir áföll á hryssum í kjölfar blóðtöku. Þeir búskaparhættir sem okkur voru kynntir, þegar ég kynntist blóðbúskap fyrir um þremur árum, eru einnig í fullu samræmi við ráðleggingar þeirra Eggerts og Þorsteins. Fylgikvillar eða sýnilegar afleiðingar blóðtökunnar á hryssur, klums eða vanki, sem þeir urðu aðeins varir við, hafa t.d. ekki komið upp hjá okkur. Enda hefur hrossunum verið tryggður aðgangur að saltsteinum og vatni, bæði í haga og á blóðtökustað, eins og eindregið hefur verið mælt með frá upphafi.

Í undanförnu yfirlýsingafári hefur því verið haldið fram að rannsóknir vanti um hvaðeina sem viðkemur blóðtöku úr fylfullum hryssum. Því er áhugavert að sjá hversu vel og fagmannlega hefur verið staðið að þessari starfsemi í upphafi og hversu vel sá grundvöllur hefur staðist tímans tönn.

Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson heimiluðu mér góðfúslega þessa meðferð á verki sínu. Sú grein sem hér birtist er fremur þeirra verk en mitt, þó missagnir og rangtúlkanir, sem hér kunna að vera færðar fram, séu alfarið af mínum völdum.

Sigríður Jónsdóttir
Arnarholti

Heimild:
Eggert Gunnarsson & Þorsteinn Ólafsson (1982). Blóðsöfnun úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Freyr, 1982(12), 472-476.

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...