Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vel hirtir nytjaskógar eru mikil prýði.
Vel hirtir nytjaskógar eru mikil prýði.
Lesendarýni 30. nóvember 2022

Sameining áþekkra landsstofnana

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands.

Í bígerð er sam­ eining tveggja gamalgróinna stofnana.

Hlynur Gauti Sigurðsson.

Skógarbændur eiga mikið undir annarri þeirra og það er áhyggjuefni að þeir verði út undan í nýrri stofnun.

Skógrækt á bújörðum

Í byrjun árs 2017 varð til ríkisstofnunin Skógræktin með sameiningu fimm landshlutabundinna skógræktarverkefna og Skógræktar ríkisins ásamt fleiri verkefnum. Umfang nýrrar stofnunar stækkaði til muna og sinnir nú mörgum verkefnum, svo sem rannsóknum í skógrækt, fræðslu og ráðgjöf, umfang allra þjóðskóga landsins (sem felur í sér umhirðu, vörslu skóga, gerð og umönnun útivistarsvæða og tjaldsvæða svo það helsta sé nefnt), umfangsmiklum skógræktarverkefnum á þjóðlendum og síðast en ekki síst umsjón með skógrækt á bújörðum. Skógrækt á landi bænda er víðfeðm og umfangsmikil þar sem samningar um skógrækt eru yfir 600 talsins. Skiptar skoðanir eru um ágæti og ávinning af sameiningunni 2017 á meðal skógarbænda, enda kemur það lítið á óvart þegar svo útbreitt skógræktarstarf er við að etja þar sem margir hagaðilar koma að. Sameining af þeirri stærðargráðu verður varla óumdeild. Tilgangur hennar var einna helst að einfalda skilvirkni, nýtingu fjármagns og starfskrafta stofnana. Það eru oft gildi miðstýringar og oftar en ekki leiða sameiningar til miðstýringar í stað þess að ákvarðanir eru unnar heima í hverri sveit fyrir sig. Að þessu sögðu ríkir viss hræðsla við fyrirhugaða sameiningu. Vafalítið er hugurinn góður og gildur en óttinn felst í að sú þjónusta og það fjármagn sem snýr að bændum og landeigendum með skógræktarsamninga verði hlunnfarin með minnkaðri þjónustu sem leiðir til rýrnunar á nýrri auðlind þjóðarinnar, skógum. Bændur í nútíð og framtíð hafa marga og mikla hagsmuni af skógrækt. Hér þarf ný stofnun virkilega að halda vel á spilunum. Sérhagsmunir og jafnvel geðþótti getur haft áhrif á stjórnir og nefndir. Ísland er fámenn þjóð í stóru landi. Fámennið getur verið kostur þegar kemur til dæmis að hröðum ákvörðunum, en í langtíma verkefnum sem skógrækt er, er ekki öruggt að stór miðstýrð stofnun mæti hagsmunum vel. Þrátt fyrir þá ágalla sem fylgir fámenninu þarf að gæta að hlutleysi og að skynsemi verði í hávegum höfð hjá nýrri stofnun, ellegar að úthýsa verkefnum skógarbænda aftur til þeirra sjálfra líkt og tíðkaðist þegar landshlutaverkefnin fimm voru upp á sitt besta.

Endurheimt

Endurheimt birkikjarrs og skóga tengir skógrækt og landgræðslu sterkt saman. Þegar fjallað er um vistkerfi þar sem ríkjandi tegund er birki má ætla að það sé gott og hlýlegt vistkerfi þó einhlítt sé. Erfitt er að deila um skoðanir en ástæður þeirra eru gjarnan byggðar á einhverju, svo sem rómantík (fortíðarhyggju), ógöngusögum smalamannsins (aðgengi), náttúrufegurð (þjóðarstolt) og svo mætti lengi telja. Hér er mikilvægt að við göngum ekki fram úr hófi. Hér þarf skynsemi, byggða á rannsóknum og reynslu, að leiða umræðu um endurheimt lands. Það mun verða þung þraut fyrir nýja stofnun að standa á bakvið áskoranir er snúa að nýtingu þjóðlenda. Þær aðgerðir sem unnar eru í nafni ríkisins munu hafa áhrif á skoðanir landsmanna og landeigenda einkalands. Það er ekki víst að þær ákvarðanir gangi í takt og því er mikilvægt að hófsemi, vandvirkni og hlutleysi ráði för.

Umhirða

Yfir árin hafa áherslur í skógrækt verið að koma upp skógi. Fyrst og fremst felur það í sér gróðursetningu en einnig er hér átt við val og kynbætur álitlegra trjátegunda til nytja. Það að koma upp skógi, með besta fáanlega efnivið hverju sinni er gagnlegt til lengri tíma litið. Þótt gróðursetning sé afstaðin er skógræktinni alls ekki lokið. Umhirðu má ekki vanrækja. Skógana þarf að grisja svo þeir vaxi sem skyldi. Að vanrækja umhirðu rýrir ekki einungis timbur skógarins og þar með verðmæti þess, heldur hefur það sýnt sig að válynd veður geta haft alvarlegar afleiðingar og má í því samhengi nefna storma, þurrka, snjóalög og breytt árstíðamynstur. Til að halda uppi því göfuga starfi sem áunnist hefur síðustu ár og áratugi þarf ný stofnun að vera leiðandi og veita gott fordæmi í umhirðu. Byggja þarf upp frekari þekkingu og reynslu meðal heimamanna og þannig má ná fram tilætluðum markmiðum um skógarauðlind Íslands inn í framtíðina.

Viðarvinnsla

Sú stofnun sem hefur dregið vagn skógræktar síðustu áratugi hefur statt og stöðugt unnið vaxandi skógarauðlind til heilla. Það að áherslur síðustu skógræktarlaga (maí 2019) lúti í auknum mæli að loftslagsaðgerðum og kolefnisbindingu á það ekki að koma niðuzr á áratuga starfi nytjaskógræktar. Í elstu skógum þjóðarinnar er að finna álitlegustu tré Íslands til gagnviðar. Skógar skógræktarfélaga vítt og breitt um landið koma þar stuttu á eftir og skógar bænda munu geyma álitlegt timbur áður en langt um líður. Miklar framfarir hafa átt sér stað og er þar fyrir að þakka framsýni frumkvöðlanna og er þá ekki síst átt við það fólk sem hélt um stjórnartaumana hverju sinni. Mikilvægt er að haldið verði áfram því góða starfi sem stefnt var að þá, ekki síður en nú. Nú eru að eiga sér stað kaflaskil í íslenskri skógarsögu. Markaður viðarnytja er orðinn til á Íslandi og er það af sem áður var að einungis þjóðskógarnir sjái um viðarvinnsluna. Nú hafa skógræktarfélög og skógarbændur komið sér inn á markaðinn og veita þjónustu við viðarvinnslu. Nú er kominn tími til að ríkið slaki á taumunum í viðarvinnslu og leyfi markaðnum að spreyta sig.

Sjálfbærni

Draumar frumkvöðlanna er í sjónmáli. Fjölmargar tegundir nytjatrjáa vaxa á íslenskri grundu. Hnattræn hlýnun hefur í för með sér áskoranir sem fáir sáu fyrir. Hér er mikilvægt að ný stofnun landgræðslu og skógræktar gefi starfi frumkvöðlanna gaum og ryðji braut íslenskrar landnýtingar til framdráttar fyrir bændur og aðra landeigendur og verði íslenskri þjóð til sóma. Leiðin að búsældarlegu Íslandi er leiðin að sjálfbærni. Áhrifaríkasta leiðin að sjálfbærni er skynsamleg nýting lands. Efla þarf skógrækt til nytja og stefnan þarf að vera ótrauð á sjálfbært Ísland.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...