Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fé í Fjörðum.
Fé í Fjörðum.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 4. október 2017

Sauðkindin og mannkindin

Höfundur: Guðríður B. Helgadóttir
Umræðan um sauðfjárbúskapinn og sauðkindina þessa dagana kemur manni til að hugsa margt og velta fyrir sér ýmsum venjum í fari Íslendinga og lifnaðarháttum í gegnum aldirnar. Stefán Tryggva- og Sigríðarson skrifaði í Bændablaðið 24. ág. sl. ágæta grein til áminningar og umtals. 
 
Málið er margslungið og hreyfir við fjölbreyttri flóru í samfélagsgerðinni. 
 
Frá örófi alda hefur það verið og verður alltaf náttúrulögmál að lífkeðjan byggist á því að í fjölbreytileika tegundanna verða þær, hver og ein, að eiga líf sitt og viðgang undir því komið að nærast og bjarga sér hver með annarri  í þessum heimi og við þær aðstæður sem veðurfar og gróður býður upp á hvernig sem viðrar og aldarfar breytist. Að því leyti er engin tegund annarri meiri eða æðri. Þar um gilda sömu lögmál og sú óumflýjanlega staðreynd, að ef lífsskilyrði einnar tegundar versna svo hún deyr út, þá breytast líka möguleikar annarra tegunda til að afla sér viðurværis. Þær verða að breyta um lífsstíl og finna sér aðrar leiðir til að lifa af. Lífkeðjan er og verður alltaf hin eilífa hringrás. Þar í er maðurinn orðinn hættulegasti hlekkurinn, vegna heimsku sinnar og hroka við að þykjast mestur og einráður að tútna út og sprengja allt kerfið utanaf sér af fullkomnu fyrirhyggjuleysi án tillits til umhverfis og staðreynda.
 
Saga Íslands og Íslendinga er í rauninni skólabókardæmi um þessa þróun. Þetta eldfjallaland, alltaf í sköpun, háð veðrabrigðum staðháttanna og duttlungum náttúruafla um gróðurfar og gjafmildi við menn og skepnur. Landnámsmenn komu hér að undangengnum hlýviðraöldum. Landið allt gróðri vafið og kjarri vaxið frá fjöru til fjalla. Lax og silungur fylltu ár og vötn, fiskur svamlaði og hrygndi upp við landsteina, grös og berjalyng buðu upp á veislukost til matar. Mannfólkið naut og neytti ótæpilega. Ruddi skóg og reif hrís til eldsneytis, beitti skepnum á landið, sem bauð upp á ofgnótt til að byrja með. Menn tóku sér land eftir þörfum, meðan hér var fámennt með lítinn bústofn. Því opið haf óravegu útfrá þessari litlu eyju hér í norðurhöfum, og skipakostur þeirra fornaldartíma, buðu ekki upp á mannmergð né kvikfjárflutinga í stórum stíl svo langa úthafsleið og stranga. 
 
En tegundirnar fjölga sér, eðli sínu og náttúrulögmálum samkvæmt, svo smátt og smátt byggðist landið allt og fylltist fénaði. Öllum leið vel á meðan landið gaf gnótt matar og fénaður naut hagbeitar og góðæris.  Fólkið kom með sína verkkunnáttu með sér og heimfærði upp á nýjar aðstæður. Það notaði sköpunargáfu sína og hagleik handa, til að gera sér flíkur innst sem yst úr ull kindarinnar, skyr, smjör og rjóma úr mjólkinni, byttur, aska, trog og tunnur úr skógarviði, skinnklæði, skó og kuldahúfur úr húðum dýra. Auk þess sem mýrarrauðinn var unninn til járngerðar í áhöld og nytjahluti. Margir gripir frá fyrri tímum hafa varðveist og bera listfengi gerendanna fagurt vitni. Útsaumur og önnur handavinna kvenna frá öllum tímum er talandi dæmi um það.
 
Þannig leið fyrsta öldin við góðæri og gnótt sjálfsþurftarbúskaparins, meðan landsgæði entust og veðurfar var haganlegt. Ættir efldust og stækkuðu, menn gengu ótæpilega á gæði landsins, brenndu skóga til kolagerðar, rifu hrís til eldamennsku og upphitunar vistarvera. Árferði fór síðan kólnandi, úrkomusamt veðurfar gerði gil og skorninga í brött fjöllin, þar sem búið var að raska rótum jurta, vindurinn kom í kjölfarið og sópaði burt öllu lauslegu og feykti því út í veður og vind eða yfir lággróðurinn og kæfði rótina. Það harðnaði á dalnum með eldgosum og óáran. Þá fór að verða erfiðara að afla vetrarforða handa þeim sem gengu þá einnig nær viðkvæmu landinu þar til þær féllu úr hor og harðrétti. Og fólkið, sem lifði á afurðunum, fór þá sömu leið því með skepnunum fór matbjörgin, mjólk, kjöt, ull og skinn til klæðagerðar og taðið til eldiviðar. Hafís og harðindi tepptu siglingar og einangraðir eyjarskeggjar urðu að duga eða drepast. Fólki og búfénaði fækkaði svo að lá við útrýmingu í kjölfar farsótta og harðneskju. 
 
Þá kemur að söguþætti sauðkindarinnar í þessu ferli
 
Hún er að eðli sínu nægjusöm, dugleg að bjarga sér, fótfrá og fjallsækin, hefur þykka og hlýja ullarkápu úr þéttu, fingerðu þeli innst með lengri og grófgerðari toghárum yst lokka, sem hrinda  frá sér bleytu og skýla  í vetrarhörkum. Hennar eðli er að losa sig við reyfið að vorinu og endurnýja að sumri á sama hátt. Það var því sauðkindin sem lengst og best dugði til að halda lífinu í fólkinu og með því. Hlýr fatnaður, unninn úr ullinni, kom í veg fyrir að fólkið króknaði úr kulda, kjöt og slátur var matarforði heimilanna, ásamt mjólkurmat úr sumarnytjum fráfæranna. 
 
Kýr og aðrir stórgripir þurftu margfalt meira fóður, sem óhægt var að afla á árum kulda og grasleysis. Kindin varð því lífgjafinn og félaginn í blíðu og stríðu, á ábyrgð mannsins að fóðra hana og vernda, háð lífsafkomu hans sjálfs hvernig með var farið og til vandað. Það er ekki að undra þó þetta nána samband yrði tilfinningaríkt og grópaðist í þjóðarsálina.  Og það er sennilega ekki heldur að undra, þó ofgnóttarþjóðfélag nútímans geti ekki skilið djúpum skilningi þau lífsskilyrði skorts, né sett sig í spor þessarar sjálfsbjargar og ábyrgðartilfinningar gagnvart öðrum. Nú, þegar ekki þarf annað en rétta út hönd til að fá í lófann það sem ágirnst er þá stundina. Enda tók ekki nema hálfa síðustu öldina og nútímann að þurrka út þessar minningar úr þjóðarvitundinni.
 
Vegna hlýnandi árferðis og breyttrar heimsmyndar, sem ekki verður rakið nánar hér, þá breyttist einnig gerð þessa þjóðfélags úr rótgrónu sjálfsþurftar bænda þjóðfélagi, í það fjölmenni þéttbýlis og launþegalíf, sem yfirstétt hálfskapaðs lýðræðis er að reyna að breyta í einræði verslunar og eignahalds örfárra handhafa peningavaldsins. Lýðurinn er áttavilltur og ráðalaus í þessu umróti tilfinninga og væntinga. Ræturnar við landið togna og slitna af ofþenslu, þegar einhæfar ákvarðanir flytja framleiðslu sjávar og strandbyggða á afmarkað rými þéttbýlis og yfirstjórnar. Aðrir landshlutar bíða skaða af, missa frá sér atvinnu og afkomumöguleika, samfélagsþjónustu og lífsviðurværi. Matvælaframleiðslan er vanmetin, einnig fjölhæfni landsins til menningarlegra lifnaðarhátta fólksins í umhverfisvænu samfélagi.  
 
Mitt í þessu öllu lendir aumingja sauðkindin og þessir fáu bændur sem enn halda saman landsbyggðinni, ásamt og með þorpum og smærri kaupstöðum, sem enn halda í trúna á þetta fósturland tækifæranna og hreina vatnsins. Uppsprettu lífs á jörðinni og hreina andrúmsloft úthafs eyjarinnar, sem hefur alið okkur og brauðfætt í blíðu og stríðu. Það er ekki að ástæðulausu að þessi bönd eru svo sterk, að segja má að þau hafi ráðið örlögum byggðar í þessu landi. Í augnablikinu má segja að vegna  matvælaframleiðslunnar sé ekki aðkallandi þörf fyrir kindakjöt á markaðinn, hvorki innanlands né utan, né óbreytt kjötframleiðsla sé eina afurðin eða notagildið af tegundinni. En samfelld saga landsins sýnir og sannar að þjóðin skuldar henni þakklæti og virðingu fyrir lífgjöfina og ræktarsemi við að varðveita verklag og þekkingu reynslunnar. En þetta að gera sauðkindina og bændur að einhverjum blórabögglum vanhæfrar ríkisstjórnar og vandræðalegra stundarhagsmuna einhverra, við að sjá og viðurkenna að gamla bændaþjóðfélagsgerðin er ekki lengur í gildi né nothæf til framtíðar. Og nútíminn verður að manna sig upp í það hlutverk og ábyrgð að leggja grunn að þjóðfélagsgerð og landnytjum framtíðarbúsetu í þessu landi. Það verður ekki gert með einu pennastriki til að útrýma sauðkindinni og þeim bændum sem nú byggja afkomu sína og fjölskyldna sinna þar á. Sú aðgerð þarf lengri aðdraganda og aðlögunarhæfni við að byggja þar upp önnur störf í staðinn og  heilbrigt líf til viðhalds menningar og mennta á landsbyggðinni. Sem þetta land getur ekki án verið sé jafnvægis gætt og góðrar afkomu. Að bændur þurfi að vera einhverjir ölmusuþegar í nútíð og framtíð er alveg fráleitt og með ólíkindum að þeir skuli sitja undir slíku ámæli án raka og staðreynda. 
Reiknistokkar hagfræðinnar verða að gefa sér aðrar formúlur, sem skekkja minna heilbrigða hugsun til framkvæmda. Sauðkindina er auðvelt að girða af á þar til völdum stöðum, eins og önnur húsdýr í þjónustu mannsins. Þá er líka fljótlegra að grípa til þeirra ef í nauðirnar rekur, til úrlausna á aðsteðjandi vanda af náttúruaflanna eða mannanna völdum. Umræðan ætti því að snúast um ÁBYRGÐINA við að skipuleggja framtíðarþjóðfélag fyrir alla landsmenn og land tækifæranna til sjávar og sveita, með gögnum þess og gæðum, þar sem allir fá notið sín með verkefni við hæfi og getu hvers og eins. Líka eldra fólks, fatlaðra, barna og bænda.
 
Guðríður B. Helgadóttir
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...