Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ólafur Arnalds.
Ólafur Arnalds.
Mynd / smh
Lesendarýni 27. apríl 2021

Sendimenn og skotmenn

Höfundur: Ólafur Arnalds

Formaður Bændasamtakanna ritaði leiðara í síðasta Bænda­blað (11. mars 2021) undir fyrirsögninni „Sameinumst um mikilvæg verkefni“. Mæli hann allra manna heilastur. Í greininn er formaðurinn hugsi yfir starfsmönnum Landbúnaðarháskólans og segir: „Nú skrifa fræðimenn greinar og skýrslur um ofbeit á Íslandi sem sé svo umfangsmikil og umtalsverð að eina lausnin liggi hreinlega í því að fella allan bústofn.“ Ja hérna! Að fella beri nautgripi, hesta, kindur og svín? Jafnvel hænsni? Varla hefur slíkum skoðunum verið haldið á loft af starfsmönnum LbhÍ. En áratugum saman hefur verið bent á að á sumum svæðum landsins er verið að beita vistkerfi sem eru í slæmu ástandi og hlífa ætti fyrir beit.

Þessar athugasemdir byggja á faglegum aðferðum við mat á vistkerfum, m.a. stöðu og virkni jarðvegs og gróðurs, þar sem tekið er tillit til jarðvegsrofs, möguleika kerfisins til að miðla vatni, orkunáms plantna og hringrásar næringar. Þar sem núverandi staða visteininga er borin saman við eðlilega virkni á hverju svæði sem er í samræmi við viðurkennda alþjóðlega aðferðafræði við mat á landi.

Tilraunir til að taka á þeim vanda sem felst í hrundum vistkerfum landsins hafa misheppnast, m.a. gæðastýring í sauðfjárrækt, sem tók gildi upp úr aldamótum. Hún varð þó ekki virk fyrr en tæpum áratug síðar. Síðan leið annar áratugur og í ljós kom að þetta kerfi er ekki að virka og fyrir því hafa verið færð skýr og fagleg rök. Síðast var komið á samvinnuverkefni á vegum Landgræðslunnar og Félags sauðfjárbænda um að meta og vakta ástand gróðurauðlinda – GróLind. Fyrstu niðurstöður þess verkefnis hafa nú verið birtar og þær staðfesta allt sem áður hefur verið sagt um ástand landsins. Það hefur löngum tíðkast að skjóta sendiboðann, ekki síst ef skortir vilja til að horfast í augu við staðreyndir. En það fer formanninum engan veginn að munda slík skotvopn og afneitun á slæmu ástandi lands þar sem það á við er alls ekki hagur bændastéttarinnar.

Formaðurinn ritaði í leiðarann „Væri ekki nær að skólinn og þeirra starfsmenn væru með uppbyggilegar leiðbeiningar til bænda hvernig betur mætti fara heldur en að mála þá sem skúrka náttúrunnar?“

Reyndar er það svo að leiðbeiningar um hvað betur mætti fara hafa legið fyrir áratugum saman: hætta beit á verst förnu svæðunum, minnka beit þar sem það á við. Þessu er unnt að ná fram með stórbættu styrkjakerfi í landbúnaði (eða til dreifbýlis öllu heldur), þar sem boðið væri upp á fækkun fjár, sérstaklega á þeim svæðum sem henta illa til framleiðslunnar. Um leið ætti að styrkja aðra valkosti við framleiðslu – m.a. í takt við breytt fæðuval þjóðarinnar og um leið stuðla að endurheimt landgæða. Endurskoðun á gæðastýringu í sauðfjárrækt verður að taka mið af faglegum sjónarmiðum er varða viðmið og sjálfbæra landnýtingu – sú reglugerð sem nú er í gildi og var harðlega mótmælt af Landgræðslunni leiðir „grænþvottar“, sem skaðar hag þeirra sem nýta gott land til framleiðslunnar. Þá væri ekki úr vegi að hætta framleiðslu á lambakjöti umfram eftirspurn á innanlandsmarkaði.

Ég tek undir lokaorð formannsins í leiðaranum um að „auka veg Landbúnaðarháskóla Íslands“ og þar mættu samtök bænda vera mun virkari. En ég hafna því alfarið að stofnunin sé notuð „í pólitískum áróðri gegn bændum“. Fræðafólk í háskólum setur fram niðurstöður sínar á eigin ábyrgð. Íslenska háskólakerfið hvetur fagfólk til samfélagsþátttöku á grunni sinnar þekkingar – sem betur fer. Háskólastofnanir sem slíkar hafa sjaldnast álit á tilteknum faglegum álitamálum. Það er ekki hlutverk háskólafólks að horfa fram hjá því sem miður fer á þeim fagsviðum sem það stundar. Þvert á móti: því ber beinlínis að rannsaka og benda á faglegar staðreyndir, t.d. um bágt ástand vistkerfa landsins og ranga nýtingu þar sem hún á sér stað.

Það er rétt hjá formanninum að við þurfum öll í sameiningu að takast á við brýnustu verkefnin. Eitt brýnasta verkefni íslensks samtíma er að takast á við ranga landnýtingu þar sem hún á sér stað, endurheimta hrunin vistkerfi og um leið að takast á við loftslagsvanda jarðarinnar.

Ólafur Arnalds,
prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...