Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Merastóð á Suðurlandi í návist húsmóður sinnar.
Merastóð á Suðurlandi í návist húsmóður sinnar.
Lesendarýni 22. desember 2021

Sjónhverfingar - hver verður næstur?

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir búfræðikandídat, náttúru- og umhverfisfræðingur, mannréttindafrömuður og smali

Hrossabændur sem halda merar til blóðtöku liggja undir ámæli þessa dagana úr öllum áttum. Áróðursmyndbandi frá útlendu öfgasamtökum Animal Welfare Foundation (AWF) hefur óspart verið haldið fram sem sönnunargagni um illa meðferð á hrossum og annað hvort einstakar manneskjur eða búgreinin öll verið sökuð um að níðast á skepnum.

Almenningur, fjölmiðlar og þingmenn á hinu háa Alþingi ráðst að búgreininni og Matvælastofnun ræðst að nokkrum einstaklingum, sem sögur herma að bregði fyrir í nefndu myndbandi. Að mínu mati er þetta mál allt, frá upphafi til enda, tóm vitleysa. Myndbandið samanstendur einvörðungu af ólöglegu myndefni og alvarlegum rangfærslum og er ekki til vitnis um nokkurn skapaðan hlut.

Útsendarar á vegum AWF komu fyrir ólöglegum upptökubúnaði heima hjá fólki, braust inn í húsakynni á einhverjum bæjum og sat um fólk heima hjá því um allt land. Samkvæmt útlendingunum sjálfum voru þeir að sniglast á allt að 40 bæjum. Enginn nema þetta lið veit hversu miklu myndefni samtökin lúra nú á, hvar það er tekið eða hvenær eða hvað er á þessum upptökum.

Ég er satt að segja mjög hissa á því að enginn skuli gera athugasemdir við lögmæti þess að höndla með upptökur sem eru fengnar með þessum hætti. Á fundum okkar hrossabænda hefur komið fram að í atvinnuveganefnd Alþingis hafi lögspekingar í persónurétti upplýst, að drónamyndatökur Fiskistofu séu ónothæfar sem gögn varðandi brottkast sjávarafla og að enginn megi skoða þær myndir, þar sem þær eru ólöglegar. Það sama hlýtur að gilda um aðrar óleyfilegar upptökur.

AWF getur mögulega varið það lagalega að birta myndefni sitt með því að útmá persónueinkenni fólksins á myndunum. Þar með eiga þessar manneskjur að vera óþekkjanlegar og efni myndbandanna að fjalla um málefni en ekki einstaklinga. En afurðastöðin Ísteka og Matvælastofnun líta greinilega ekki þannig á málið. Ísteka hefur slitið viðskiptasambandi við nokkra bændur vegna þess einhverjir telja að þessir bændur komi fyrir í myndbandinu. Matvælastofnun yfirheyrir nú bændur og dýralækna á sömu forsendu. Annað hvort er fólk persónugreinanlegt á þessu myndbandi og birting þess því líklega ólögleg, eða að ekki eru skilyrði til að bera kennsl með óyggjandi hætti á einstaklingana sem þar bregður fyrir. Að mínu mati er algjörlega ótækt að ganga að nokkrum manni með viðurlögum eða málarekstri á grunni þessa áróðursmynbands.

Hin hliðin á þessu máli er sú að myndirnar í þessari áróðursmynd tala ekki fyrir sig sjálfar. Það eru samtökin AWF sem tala fyrir myndirnar og segja áhorfandanum hvað hann er að horfa á. Sá sem ekki þekkir til hrossarétta og blóðtöku, getur ekki séð í gegn um þessar sjónhverfingar. En allt of margir aðrir hafa líka látið blekkjast af þessum klippimyndum, hlaupið til og fordæmt meintar aðfarir bænda en algerlega látið hjá líða að skoða málið nánar. Á myndunum kemur ekkert fram sem á sér ekki eðlilegar skýringar. Ekkert hross er í hættu, folald er til dæmis ekki barið þó það sé sagt í myndinni. Ég fullyrði að ekkert hross hefur skaðast af því sem fór fram þau augnablik sem myndirnar sýna. Hvorki andlega né líkamlega.

AWF braut gegn friðhelgi einkalífs á tugum bæja í ótilgreindan tíma og nú vofir samfélagsleg refsing yfir fólkinu, ef meira verður sett í loftið af viðlíka efni og því sem samtökin birtu á YouTube um daginn. Því efni var ötullega dreift af íslenskum fjölmiðlum, þar með talið ríkismiðlinum. Hér er um hreint og klárt hefndarklám að ræða. Allir bændur, sem mögulega hafa orðið fyrir barðinu á þessum njósnurum, ættu að kæra málið til lögreglu hver á sínu svæði. 

Einkafyrirtækið Ísteka er ekki jafn bundið af lögum og opinberar stofnanir en Ísteka hefur alfarið neitað að skipta við bændur sem ekki gangast undir skilyrði fyrirtækisins, sem það kallar velferðarsamning. Í þeim samningi er útlistað hvaða eftirliti bændur sæta, hverjir framkvæma það eftirlit og hvaða viðurlögum fyrirtækið beitir sína viðskiptamenn ef útaf bregður. Njósnir utanaðkomandi aðila með földum myndavélum eru ekki hluti af eftirlitskerfi Ísteka. Nú hefur fyrirtækið beitt nokkra bændur viðurlögum sem eiga sér enga stoð í samningnum þeirra á milli. 

Ísteka er í fullkominni einokunaraðstöðu gagnvart bændum, sem fyrirtækið hefur fram að þessu ekki hikað við að notfæra sér á marga lund. Nú hyggst Ísteka krefja bændur og dýralækna um að vinna undir stöðugu myndavélareftirliti við hrossarag og blóðtöku heima á bæjum. Slíkar kröfur brjóta freklega gegn persónuverndar- og samkeppnislögum og eru á allan hátt svívirðilegar og ósiðlegar. Bændur og dýralæknar eru ekki starfsmenn Ísteka. Þetta eru menn í sjálfstæðum rekstri. Hrossaréttir úti í sveit eru ekki starfsstöðvar Ísteka. Sá sem kaupir vöru eða þjónustu getur aldrei krafið seljandann um að fá að fylgjast með honum með myndavélum.

Íslenskt samfélag ætti nú að staldra aðeins við. Ef þetta mál fær að halda svona áfram, verður að íhuga hvert það leiðir. Eigum við að samþykkja og taka þátt í að njósnað sé um nágranna okkar með földum myndavélum?  Eigum við að gangast undir viðskiptasamninga sem fela í sér ósanngjarnar og ólöglegar kröfur sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs? Hver verður þá næstur? Þetta gerðist í Þýskalandi fyrir nokkrum áratugum. Þar voru níu milljónir manna drepnar í stríði sem náði um allan heiminn en byrjunin var svona.

Skylt efni: blóðmerar | hrossabændur

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...