Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Lesendarýni 13. desember 2016
Skráning örnefna heima í héraði
Höfundur: Gunnar H. Kristinsson
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi örnefna og þeirra menningarverðmæta sem felast í örnefnum á Íslandi. Breytingar í atvinnuháttum og tækni á undanförnum áratugum hafa þó orðið til þess að þekking manna á örnefnum hefur minnkað og vitneskja um þau er hætt að ganga mann fram af manni.
Til að varðveita þessi örnefni og staðsetningu þeirra er því mikilvægt að fá aðstoð staðkunnugra við að merkja þau á kort eða loftmynd þannig að þau verði aðgengileg til framtíðar í örnefnagrunni.
Árið 2015 voru lög um örnefni samþykkt á Alþingi en markmið þeirra er meðal annars að stuðla að verndun örnefna og nafngiftarhefðar í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Í lögunum kemur einnig fram að Landmælingar Íslands skuli sjá um skráningu, viðhald og miðlun örnefnagrunns í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Kort sem sýnir örnefni fyrir og eftir skráningu heimamanna í Reykjadal í Þingeyjarsveit.
Örnefnagrunnurinn er aðgengilegur öllum án gjaldtöku og undanfarin ár hafa Landmælingar gert staðkunnugum kleift að skrá örnefni í þennan örnefnagrunn og eru nú þegar um 110.000 örnefni í honum. Þar hefur munað mest um samstarf við heimildarmenn og skráningaraðila víða um land og hafa ýmis stærri og smærri verkefni á sviði örnefnaskráningar verið í gangi.
Sem dæmi um verkefni má nefna að menningarfélagið Urðarbrunnur í Þingeyjarsveit hefur skráð örnefni beint inn í örnefnagrunn með því að nota örnefnaskráningarveftól Landmælinga Íslands. Þar vinna skráningaraðilar náið með heimafólki og staðkunnugum og nýta sér skjávarpa til að varpa loftmyndum upp á tjald og skrá jafnóðum örnefni sem fláka, línur og punkta samkvæmt tilsögn heimildarmanna á hverri jörð.
Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum hefur lokið skráningu á sínu svæði en þar var valin sú leið að teikna fláka, línur og punkta á útprentaðar loftmyndir og vísa í númer úr örnefnalýsingum jarða. Skráningaraðili tekur svo við myndunum og skráir örnefnin inn í örnefnagrunn. Þannig eru örnefnalýsingar jarða alltaf lykillinn að skráningunni ásamt staðkunnugum heimamanni.
Að auki má nefna að fjöldi einstaklinga hefur verið að skrá í örnefnagrunninn um allt land. Sem dæmi um hve mikilvægt framlag hvers og eins er má nefna að Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum skráði og staðsetti um 500 örnefni og Sigurgeir Jónsson á Fagurhólsmýri skráði og staðsetti um 800 örnefni en Sigurgeir, sem lést í árslok 2015, var elsti skráningaraðili stofnunarinnar sem skráði beint inn í örnefnagrunn
Staðkunnugir heimildarmenn, flest eldra fólk, gegnir lykilhlutverki við staðsetningu örnefna. Ekki væri mögulegt að staðsetja örnefni úr örnefnalýsingum jarða með jafn mikilli vissu og hraða án þeirra. Það er því mikilvægt að fá fleiri í lið skráningaraðila örnefna og flýta því björgunarstarfi sem um er að ræða á þessum mikilvæga menningararfi.
Þeir sem hafa áhuga á samstarfi um örnefnasöfnun geta haft samband við Landmælingar Íslands í netfangið lmi@lmi.is eða í síma 430 9000.
Gunnar H. Kristinsson