Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Þankar um nýtingu laxveiðiáa
Mynd / Bbl
Lesendarýni 20. ágúst 2021

Þankar um nýtingu laxveiðiáa

Höfundur: Ari Teitsson

Laxveiði er veruleg tekjulind hérlendis og sýnt hefur verið fram á að tekjur tengdar laxveiði skila þjóðarbúinu milljörðum árlega.

Tekjur veiðirétttareigenda taka gjarnan mið af fjölda veiddra laxa á síðustu árum (10 ára meðaltal?) og algengt er að leigutakar greiði 60–100 þúsund kr. fyrir hvern lax sem ætla má að veiðist (fer að hluta eftir gæðum veiðihúsa og orðspori árinnar).

Meginundirstaða þessara tekna er veiðar á villtum laxi úr laxveiðám þar sem laxagöngur byggja á eigin gönguseiðaframleiðslu. Því er mikilvægt að takmörkuð framleiðslugeta ánna nýtist sem best til skila á niðugönguseiðum. Miða við meðalheimtu gönguseiða í Elliðaám, 40–50% veiðinýtingu og ofngreindar verðforsendur gæti hvert gönguseiði sem nær til sjávar verið 4–5000 kr virði. (þrjú seiði á móti dilk).

Talið er að flest laxaseiði þurfi að ná 9–11 cm lengd til að hefja niðurgöngu og í frjósömustu laxveiðiám með hóflegri beitarnýtingu (m.a. Laxá í Aðaldal) næst sú stærð á tveimur vaxtarárum og seiðin ganga út að vori 2+ ára. Í flestum laxveiðiám þarf þorri seiðanna þrjú vaxtarsumur og gengur úr að vori 3+ ára. Leiði aðstæður til þess að seiðin þurfi fjögur vaxtarsumur má reikna með að mjög dragi úr seiðaframleiðslu (30%?) vegna affalla milli ára og hlutfallslega mikillar fóðurþarfar til viðhalds.

Þeir umhverfisþættir sem taldir eru hafa mest áhrif á þroska seiðanna eru fæðuframleiðsla ánna, búsetuskilyrði í og vatnshiti frá vori til hausts en þessir þættir eru jafnan nokkuð tengdir. Margt bendir þó til að fæðuframleiðsla ánna sé oftast takmarkandi fremur en hitastig því vöxtur seiða sem nýta ný svæði (flutningur laxa upp fyrir fossa,seiðasleppingar, hrognagröftur) er oft meiri en neðar í ánum (sbr t.d. vöxt laxaseiða í ófiskgenga hluta Grímsár/Tunguár).

Hafrannsóknastofnun, áður Veiðmálastofnun, hefur um árabil fylgst með vexti og viðgangi laxaseiða í mörgum helstu laxveiðám landsins og eru gögn stofnunarinnar um þær ár aðgengilegar lærðum jafnt sem leikum og á stofnunin þakkir skildar fyrir opinn aðgang að gögnunum. Slóð: https://www.hafogvatn.is/ velja miðlun, velja síðan útgáfa og velja að lokum Haf og vatnsrannsóknir (2016-).
Seiðaathuganir stofnunarinnar eru að jafnaði framkvæmdar síðari hluta ágústmánaðar eða í byrjun september þegar sumarvexti seiðanna er oftast að mestu lokið og ætti fjöldi seiða sem þá hefur náð líklegri niðurgöngustærð (9 cm?) að gefa sterkar vísbendingar um niðurgöngu vorið eftir og laxagöngur tvö næstu ár þar á eftir. Séu seiðaathuganir framkvæmdar fyrr á sumri eykst óvissa um vöxt að hausti.

Athuganir á líklegri niðurgöngu í Þverá í Borgarfirði bentu til að gangan gæti verið mjög breytileg eða frá um sjö mögulegum niðugönguseiðum á hverja 100 fermetra rafveiðisvæða (vorin 2004 og 2011) í undir tvö seiði (vorið 2019). Meðallengd 2+ seiða við rafveiðar í Þverá að hausti hefur minnkað, var 2003–2010 frá 8,3–9,1 cm en árin 2011–2019 frá 7,5–8,2 cm. Því má ætla að mun fleiri seiði dvelji nú fjögur ár í ánni. Breytilegur tími seiðaathugana kann þó að draga úr samanburðarhæfni gagna.

Svipuð þróun virðist í vexti seiða í Norðurá. Þar var meðallengd 2+ seiða að hausti á árunum 2003–2010 9 cm og yfir en hefur síðustu sex ár verið um og undir 8 cm. Fjöldi 1+ seiða hefur hins vegar aukist mjög og afföll seiðanna milli ára að sama skapi. Íhugunarefni virðist hvort auknar sleppingar á veiddum laxi samfara upptöku netja í Hvítá hafi valdið röskun á því jafnvægi hrygningar og uppeldisskilyrða sem kann að hafa skapast í laxveiðiám Borgarfjarðar gegnum aldirnar.

Í Vatnsdalsá hefur nær öllu laxi verið sleppt frá 1997. Þar virðist vöxtur seiða þokkalegur neðan Flóðsins en mjög lélegur samfara miklum þéttleika í miðhluta árinnar en skárri í sumum hliðaránum. Sé staðan sú að neðsti hluti árinnar framleiði nú mikinn hluta gönguseiðaframleiðslunnar gæti það skýrt þá staðreynd að meiri hluti veiðinnar er nú neðan Flóðsins.

Svipuð staða virðist í Blöndu 4 og Svartá, hægt hefur á vexti seiðanna og þau dvelja því lengri tíma í ánni. Mismunandi rafveiðitími gerir þann samanburð þó erfiðari.

Þótt leiða megi líkum að því að fjöldi gönguhæfra seiða að hausti gefi sterkar vísbendingar um laxagöngur komandi ára verður þó að hafa í huga að fleiri þætti hafa þar áhrif. Hlý vor flýta vexti seiða og auka líkur á góðri niðurgöngu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að vargar, jafnt fljúgandi sem syndandi, höggva oft stór skörð í gönguseiðastofninn, þar mættu veiðiréttareigendur ef til vill vera betur á verði. Mismunandi ástand í hafi hefur einnig áhrif en fátt bendir þó til að það eitt skýri lélega laxveiði síðustu ára.

Í gögnum sem safnað hefur verið um árabil úr flestum betri laxveiðiám landsins er að finna mikið og merkt gagnasafn sem veiðiréttareigendur þyrftu ef til vill að rýna betur með markmið um bætta nýtingu takmarkaðs fæðuframboðs ánna í huga.

Hér eru milljarðar í húfi.

Ari Teitsson

Skylt efni: laxveiðiár | Laxveiði

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...