Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þöggun staðreynda
Lesendarýni 15. ágúst 2016

Þöggun staðreynda

Höfundur: Gunnlaugur Stefánsson, Heydölum.
Nú hefur það gerst, að regnbogasilungur er farinn að veiðast í Stöðvará í Stöðvarfirði.
 
Gunnlaugur Stefánsson.
Það er sleppifiskur úr fiskeldinu í Berufirði og er dæmigert fyrir ógnina sem af eldisiðjunni stafar. Forystumenn eldisdrauma eru þekktir af því að gera lítið úr þeirri vá, eins og greinilega kom fram í viðtölum við þá í Bændablaðinu fyrir stuttu, neita blákalt fyrirliggjandi staðreyndum og reyna af mætti að telja fólki trú um að allt sé í fínu lagi. Enda er þöggun samofin eldisiðjunni og opinbert eftirlit í skötulíki. Reynslan er t.d. sú, að sjaldnast tilkynna eldisiðjurnar að fyrra bragði um sleppingar fiska úr sínum kvíum, langtum fremur neita svo lengi sem stætt er og gera svo minna úr en við blasir. 
 
Það var Veiðifélag Breiðdæla sem upplýsti í ályktun sinni fyrr í sumar um umtalsverðar sleppingar af regnbogasilungi úr kvíum í Berufirði sem höfðu verið viðvarandi um langa tíð og var öllum kunnugt sem vita vildu. Þá var loks gripið til viðbragða. 
 
Uppákoman á Patreksfirði haustið 2013 er dæmigerð, þegar bera fór á laxi í sjó. Laxeldisiðjan tilkynnti þá um 200 laxa slysasleppingu, en neyddist svo til að hækka þá tölu í 500, þegar 400 laxar höfðu veiðst á stöng innst inni í Patreksfirði. Öllum rannsóknum vísndamanna og opinberum stofnunum í Noregi ber saman um, að í laxeldisiðjunni eru slysasleppingar óhjákvæmilegar og meðaltalið sé, a.m.k. einn lax sleppi fyrir hvert tonn í framleiðslu. Veiðimálastofnun hefur staðfest það. Í Noregi var tilkynnt um 244 þúsund stroklaxa árið 2015, en norska hafrannsóknarstofnunin telur að fjöldinn sé fjórum til fimm sinnum meiri eða yfir milljón stroklaxar. Og laxarnir ganga upp í laxveiðiárnar og blandast villtum stofni. Það hefur reynslan áþreifanlega sannað í Noregi og líka á Íslandi í lönduðum eldislöxum úr ánum. 
 
Verið er að undirbúa risalaxeldi í austfirskum fjörðum upp á 75 þúsund tonn. Ef öll sú framleiðsla verður að veruleika, þá munu a.m.k. 75 þúsund laxar sleppa úr austfirskum kvíum á ári, sem er umtalsvert meira en öll heildarlaxveiði á stöng á Íslandi. Engin ný tækni eða aðferðafræði getur breytt því, að lax sleppi úr kvíum. Þá eru slysasleppingar langtum líklegri úr kvíum í íslenskum fjörðum fyrir opnu úthafi eins og t.d. í Berufirði og Stöðvarfirði, þar sem veður eru válynd og geta valdið hamförum í sjó og rústað kvíunum á augabragði. Laxeldisiðjan ber þá enga ábyrgð á því stórtjóni sem af hlýst gagnvart lífríkinu og eignaspjöllum fólks, og ekki skylt að kaupa neinar tryggingar gegn slíkri vá, enda mat tryggingarfélaga á áhættunni svo hátt að slíkar tryggingar eru fokdýrar. 
 
Það er hjákátlegt að reyna viðbrögð eldismanna, þegar þeir neita staðreyndum, t.d. um úrganginn og mengunina sem af laxeldinu stafar. Mengunarvarnaeftirlit Noregs (Statens Forurensningtilsyn 2009) líkir úrgangi frá 9000 tonna laxeldi við skolpfrárennsli frá 150 þúsund manna borg. Auk þess er umtalsverðu magni lyfja beitt í eldinu gegn alls kyns sjúkdómum sem grassera í mergðinni í kvíunum. Eldið er eini matvælaframleiðandinn sem heimilt er að demba öllum úrgangi af framleiðslu sinni óhreinsuðum beint í sjóinn. Er slík grútarmengun í austfirskum fjörðum ásættanleg og líkleg til að styrkja ímynd fjórðungsins um náttúrufegurð og hreinan sjó? Slík hegðan gæti skaðað mikla hagsmuni eins t.d. ferðaþjónustuna og sjávarútveginn sem státar af heilbrigðum gæðafiski á mörkuðum sínum. 
 
Svo halda eldismenn því fram, að ástand villtra laxastofna sé í góðu lagi í Noregi. Manni hrýs hugur við slíkum fullyrðingum í ljósi staðreynda um hrun í villta laxastofninum þar í landi sem allar ábyrgar rannsóknir og stofnanir staðfesta eins og t.d. NINA (Náttúrurannsóknarstofnun Noregs, febrúar 2016). Prófessor Trggve T. Poppe við norska dýralæknisháskólann lýsti þeirri skoðun sinni á Alta ráðstefnunni í febrúar árið 2016, að innan 5 ára yrðu allar laxveiðar í norskum ám úr sögunni, ef ekki verða gerðar róttækar ráðstafanir nú þegar. 
 
Risalaxeldi í opnum kvíum í íslenskum sjó með norskum og kynbættum laxi er meira en áhættusækin útrás, fremur glapræði. Það liggur fyrir að lífríkið mun skaðast verulega og villtur laxastofn verða fyrir tjóni og líklega deyja út um síðir. Víða um heim er þess krafist að stjórnvöld bregðist við slíkri umhverfisvá með því að setja um eldið strangar kröfur og stórefla eftirlit. T.d. að eldið fari fram í lokuðum tjörnum á landi og allur úrgangur skilinn frá og fargað eða leitast við að nýta til farsældar. Einnig að banna að nota kynbættan fisk af erlendum uppruna í eldinu og einvörðungu leyfa með geldfiski sem útilokar erfðamengun við villta stofna. Um það var gert samkomulag á milli eldis- og stangaveiðimanna fyrir milligöngu Veiðimálastofnunar á sínum tíma, en við það hefur ekki verið staðið. 
 
Á Íslandi er flest leyfilegt í laxeldinu og útlenskir fjárfestar vilja ólmir nýta sér slíkar aðstæður, enda verulega að þeim þrengt í löndum þar sem ríkir sæmileg umhverfisvitund. Meira að segja opinberu leyfin eru ókeypis á Íslandi, sömuleiðis aðgangur að sjó og landi, en kostar umtalsverðar fjárhæðir t.d. í Noregi. Og leyfin verða dýrmæt og ekki líður á löngu þar til nýtt kvótabrask haslar sér völl, og leyfin ganga kaupum og sölum á markaði fyrir skjótfenginn gróða. Viljum við að Austurland, Vestfirðir og Eyjafjörður verði gróðrarstía fyrir slíkt brask með óhjákvæmilegum umhverfisskaða og eignaspjöllum fyrir marga um allt land? Það er spurning sem blasir við núna, en of seint að svara innan tíðar, því þá verður ekki aftur snúið. 
 
Gunnlaugur Stefánsson, 
Heydölum. 

Skylt efni: Fiskeldi

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...