Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Um hvað er kosið 2019?
Lesendarýni 29. nóvember 2018

Um hvað er kosið 2019?

Í samræmi við ákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, er áætlað að ganga til atkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu í byrjun komandi árs. Umræddu ákvæði var bætt inn í samninginn á lokametrum samningaviðræðna svo greininni gæfist lengri tími til umþóttunar, en margir óttuðust að framleiðsla mjólkur færi úr böndum nyti kvótans ekki lengur við og aðrar leiðir dygðu ekki þar á móti.
 
Talsverð umræða hefur verið um atkvæðagreiðsluna frá því að skrifað var undir samninginn í febrúar 2016 og þar á tíðum nokkurs misskilnings gætt um gildi hennar og áhrif. Undirritaðir vilja í því ljósi skerpa á nokkrum atriðum varðandi umrætt ákvæði.  
 
Um hvað er kosið?
 
Í upphafsorðum samningsins segir eftirfarandi: 
 
„Samningur þessi felur í sér stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem verið hefur við lýði síðasta aldarfjórðung. Stefnt er að því að greiðslumarkið fjari út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði. Ákvörðun um afnám kvóta árið 2021 verður þó ekki tekin fyrr en á árinu 2019. Stuðningsformi ríkisins er breytt og byggist á fleiri viðmiðum en áður.“  
 
Í 14. grein samningsins segir síðan: 
 
„14.2 Við endurskoðun 2019 skal taka afstöðu til hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Verði niðurstaðan sú að afnema ekki kvótakerfið mun framhald þess byggjast á grunni fyrra kerfis. 
 
14.3 Við endurskoðun 2019 munu Bændasamtök Íslands láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021.“
 
Eins og sjá má hér að framan er texti samningsins afdráttarlaus um það hvað atkvæðagreiðslan á að fjalla og lýsir fyllilega þeim skilningi sem um hana var meðal samningsaðila. Spurningin sem leggja á fyrir mjólkurframleiðendur í umræddri atkvæðagreiðslu er því eftirfarandi: Ert þú hlynnt(ur) því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu, sem veitir forgang að innanlandsmarkaði verði afnumið?  Hinu er síðan rétt að halda til haga að fulltrúar ríkisins í samninganefndinni, gerðu þann fyrirvara að atkvæðagreiðslan gæti  ekki verið bindandi fyrir samningsafstöðu ríkisins, þegar til endurskoðunarinnar kæmi.
 
En hvað með beingreiðslurnar?
 
Því hefur verið haldið fram, falli atkvæði svo meðal mjólkurframleiðenda að halda áfram með kvótakerfið, að þá þurfi sjálfkrafa að endurskoða ákvæði samningsins um stuðningsgreiðslur. Þetta á ekki við rök að styðjast. Í grein 3.1 samningsins segir eftirfarandi um þetta atriði: „Heildargreiðslumark mjólkur og greiðslumark einstakra lögbýla skal ákveðið fyrir árin 2017-2020 með sama hætti og fyrir árið 2016. Heildargreiðslumark fellur niður þann 1. janúar 2021 nema annað verði ákveðið við endurskoðun samningsins 2019. Greiðslumark einstakra lögbýla heldur gildi sínu, með áorðnum breytingum, sem viðmið fyrir beingreiðslur (áður A-greiðslur) til 31. desember 2025.“ Og síðan áfram í grein 3.2 „Greiðslur út á greiðslumark (áður A-greiðslur) breytast í samræmi við töflu 1 í viðauka 1. “ 
 
Það liggur með öðrum orðum fyrir að beingreiðslur skuli fjara út á samningstímanum og við taki fjölbreyttari stuðningsform, enda er það í samræmi við þá megin stefnu sem mörkuð var við gerð samningsins. Það hvort kvótakerfið verði áfram við lýði skiptir þar engu máli, enda óskyldir þættir sem litla eða enga samleið eiga með viðhorfum og kröfum samtímans. Enda má færa að því all sterk rök að það sé greininni síst til hagsbóta, jafnvel skaðlegt, til lengri tíma að hengja stuðningsgeiðslur fastar við kvótakerfið með þeim hætti sem tíðkast hefur síðustu áratugi. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að minna á ákvæði 3.5 í samningnum, þar sem segir: 
 
„Ríkið hefur innlausnarskyldu á greiðslumarki gagnvart þeim sem óska eftir henni á árunum 2017-2019. Innlausn fari fram með þeim hætti að greiðslumarkshafi fái greitt tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark (áður A-greiðslna) sem eftir eru. Matvælastofnun annast innlausn og sölu greiðslumarks.“ 
 
Bændum hefur síðan verið boðið þetta innleysta greiðslumark til kaups á innlausnarverðinu eftir nánar útfærðum reglum í samningnum. Það að verðandlag hins innleysta greiðslumarks sé tengt andvirði beingreiðslna er engin tilviljun, enda gerir samningurinn allur ráð fyrir að niðurtröppun þeirra og að þær falli út í lok samningstímans. Að hverfa til baka með þessa niðurtröppun beingreiðslana og yfirfærslu þeirra á aðra liði, gengi því í berhögg við lögmætar væntingar þeirra sem hagað hafa sínum ákvörðunum í samræmi við þá stefnu sem samningurinn boðar. 
 
Aðrir valkostir óútfærðir
 
Formaður Landssambands kúabænda, gerir komandi atkvæðagreiðslu að umtalsefni í pistli á naut.is nýlega og segir þar m.a.: 
 
„Liður í undirbúningi fyrir atkvæða­­greiðsluna er greiningar­vinna á mismunandi viðskipta­módelum með greiðslumark, kostum þeirra og göllum og hvaða leið hentar best fyrir greinina hér á landi, bæði út frá hagfræðilegum og samfélagslegum sjónarmiðum. Sömdu LK og Bændasamtök Íslands við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri um að vinna þessa greiningu og eru áætluð skil nú í lok nóvembermánaðar. Í kjölfarið verður kynnt fyrir bændum hvað það þýðir að kjósa kvótakerfið áfram og hvað það þýðir að kjósa kvótakerfið af“. 
 
Það sem mestu skiptir í aðdraganda atkvæðagreiðslunar er að unnin verði greining á kostum og göllum núverandi kvótakerfis. Þar verður að horfa á alla myndina; hvernig tryggja megi mjólkuriðnaði nægjanlegt hráefni, hvernig takast eigi á við aukna samkeppni, hvernig nýta eigi sóknarfæri erlendis og með hvaða hætti á að bregðast við miklu misvægi í sölu efnaþátta innveginnar mjólkur. Að óbreyttu eru miklar líkur á að kvótakerfið eins og það er framkvæmt, muni jafnt og þétt draga úr getu bænda til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru á íslenskum markaði. Á því verður að finna nothæfar lausnir, eigi kvótinn áfram að verða við lýði. En jafnframt verður að leggja raunhæft mat á aðrar leiðir, í því efni útilokar samningurinn sem slíkur fátt. Formaður LK bendir réttilega á í pistli sínum að í framleiðslujafnvægislið (6. gr.) samningsins séu verkfæri sem beita megi til að takast á við ójafnvægi í framleiðslu. Minnt er á að í 10. gr. samningsins er heimild til að færa allt að 20% fjárhæða milli liða í samningnum, sú heimild nær þó ekki til greiðslna út á greiðslumark.  
 
Framangreind verkfæri hafa ekkert verið útfærð frekar frá því að samningurinn var undirritaður, verði það ekki gert er tæpast hægt að tala um raunhæfan samanburð í því efni. Útfærsla þessa liðar er á ábyrgð viðsemjandanna, ríkisins annarsvegar og LK og BÍ hinsvegar. Gera verður þá kröfu að þar rísi menn undir ábyrgð sinni. Það hvernig haga eigi viðskiptum með greiðslumark í framtíðinni er á þessum tímapunkti algert aukaatriði. Að eyða í slíkar bollaleggingar tíma og fjármunum, er að svo komnu einungis til þess fallið að drepa mikilvægari viðfangsefnum á dreif.
 
Samstaða eða sundrung?
 
Í enda pistils síns segir formaður LK: 
„Kvóti í mjólkurframleiðslu hefur verið og verður örugglega áfram ákveðið þrætuepli í samfélaginu. Það er hins vegar von mín að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði virt, á hvorn veginn sem hún fer. Við getum verið missátt við útkomuna en með henni fáum við loks lýðræðislega niðurstöðu í þetta mál.“ 
 
Undir þessi orð formannsins skal tekið, en eigi þessi atkvæðagreiðsla að verða grunnur sátta þarf að vanda undirbúning hennar, rýna af alvöru kosti og galla kvótakerfisins, en um leið útfæra og kynna aðra valkosti. Að því loknu er hægt að spyrja þeirrar spurningar sem samningurinn kveður skýrt á um.
 
Sigurður Loftsson 
Jóhann Nikulásson 
Baldur Helgi Benjamínsson 
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...