Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Um sóttvarnir og matvöru
Lesendarýni 13. október 2015

Um sóttvarnir og matvöru

Höfundur: Margrét Guðnadóttir
Enn á ný er hér kominn á dagskrá „frjáls“ innflutningur á búvöru og jafnvel lifandi dýrum frá Evrópusambandslöndunum 28. Enginn ræðir um áhættuna sem þessum innflutningi getur fylgt bæði fyrir fólk og fénað hér. 
 
Eftir langa starfsævi í sýklafræði langar mig að minna hér á nokkur atriði, sem þarf að huga vandlega að áður en anað er út í óvissuna. 
 
Margrét Guðnadóttir.
Kindur, kýr og hestar hér á landi eiga ættir að rekja til búfjárins sem landnámsmenn fluttu hingað. Þetta búfé bjó hér í algjörri einangrun öldum saman, og allur innflutningur lifandi dýra til að kynbæta þessa stofna hefur flutt með sér illvíga sjúkdóma, jafnvel sýkinga sem gera mjög lítinn usla í upprunalandinu.
 
Það stafar af því að hér eru húsdýrin algjörlega mótefnalaus gegn öllum sýklum sem eru að koma hingað í fyrsta sinn. Okkar húsdýr geta því orðið heiftarlega veik af sýkingum sem gera lítinn eða engan usla í upprunalandinu þar sem fullorðnu dýrin hafa mótefni. Mótefni berast með blóði og móðurmjólk til afkvæmanna og verja þau á fyrstu mánuðum lífs þeirra. Ef algeng sýking kemst að ungviðinu á þeim tíma, myndar það sín eigin mótefni til framtíðar, en veikist ekki vegna verndar sem mótefni frá móður veita á þessu viðkvæma stigi. Hér varð fyrir fáum árum slæm sýking í hrossastofninum. Er hún gott dæmi um nýja innflutta sýkingu sem kemur að ónumdu landi, en gerir lítinn sem engan usla þar sem sýkillinn hefur búið lengi.
 
Í ríkjum Evrópusambandsins finnast líka margar illvígar sýkingar sem valda þar þungum búsifjum og reynt er að útrýma. Til dæmis eru bæði þurramæði, votmæði og riða víða í sauðfé og kúariðusýkillinn getur ekki verið dauður svo útbreiddur sem sá sterki sýkill varð í mörgum löndum Evrópu fyrir fáum árum. Hvítblæðiveiran er þar líka í kúm í mörgum löndum, og kúaberklar, sýking af öðrum berklastofni en mannaberklar, er enn þar í nokkrum löndum. Sá sýkill hefur aldrei fundist hér á landi.
 
Því miður eru útflutningsreglur Evrópusambandsins ekki sóttvarnarreglur heldur snúast þær eingöngu um frjáls viðskipti innan þess, og líka til útflutnings frá því. Ef 60% vörusendinga eru framleidd í landi sem skráð er útflutningsland má sá útflytjandi bæta í sendinguna 40% frá öðru Evrópusambandslandi. Þannig tókst þýskum útflytjanda fyrir nokkrum árum að flytja til Bretlands hrossakjöt úr allt öðru landi sem þýskt nautakjöt, Bretar tóku þessu mjög illa, en að mínu viti máttu þeir þakka fyrir að þetta var ekki framandi nautakjöt úr hjörð með kúaberklum.
 
Innan Evrópusambandsins hefur ekki gengið vel að banna innflutning matvæla úr sýktu búfé milli sambandslandanna. Til dæmis reyndu Frakkar að banna innflutning á bresku nautakjöti til Frakklands meðan kúariðufaraldurinn var um allt Bretland og búið var að sanna að sýkillinn var orsök að banvænum heilasjúkdómi í fólki. Bretar kærðu Frakka fyrir ólöglegt innflutningsbann á bresku nautakjöti og litu á þetta innflutningsbann sem brot á viðskiptareglum Evrópusambandsins. Þær hafa ekkert breyst síðan og eru enn í fullu gildi. 
 
Hænsnaræktin hér á landi er bæði gömul og ný búgrein. Kjúklingarækt hefur orðið sjálfstæð atvinnugrein á seinni árum. Hér hefur verið fylgst mjög vel með salmonellu í hænsnabúum og afurðum þeirra, miklu betur en gert er í nágrannalöndunum. Salmonellusýkingar í fólki hafa til dæmis verið faraldur í Danmörku í mörg ár. Svíar og Finnar rannsökuðu með ræktunum innflutt kjöt frá Evrópusambandinu fyrst eftir inngöngu þessara landa í það. Þá ræktuðust í báðum löndum salmonellur úr 20% sýnanna, úr sendingum sem voru vottaðar hreinar til útflutningslandinu. 
 
Við þurfum varla að búast við betri vöru hingað ef farið verður að flytja inn hænsnakjöt í stórum stíl frá erlendum verksmiðjubúum.
 
Í okkar ástkæra eldfjallalandi þar sem getur gosið undir jökli hvenær sem er og öskufall hindrað flugsamgöngur við önnur lönd í langan tíma finnst mér alveg sjálfsagt að hér séu framleiddar allar þær matvörur sem hægt er að framleiða bæði fyrir menn og dýr. Þegar matarverð hér er skoðað mætti einhver tíma minnast á milliliðina milli framleiðandans og neytandans og birta opinberlega hlut hvers og eins í matarverðinu út úr versluninni. 
 
Markaður fyrir innlendar búvörur ætti að njóta góðs af ferðamannastraumnum til landsins. Það er nefnilega góður siður forvitinna ferðamanna að kynna sér matarvenjur íbúanna og sækjast eftir innlendri framleiðslu. Því er fáránlegt að ráðast á hana með þeim fölsku rökum að erlend innflutt framleiðsla lækki matarverðið. 
 
Margrét Guðnadóttir
veirufræðingur
Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...