Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar við Hafnarfjarðarhöfn. „Eins og flestir vita er togararallið langstærsti gagnapakkinn sem Hafró notar þegar verið er að reikna út stofnstærð og gefa út tillögur um árlega veiði í þorski og fleiri tegundum. Það segir kannski meira en mörg orð að flestir sjómenn sem ég hef spurt út í rallið annaðhvort hrista hausinn eða hlæja!“
Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar við Hafnarfjarðarhöfn. „Eins og flestir vita er togararallið langstærsti gagnapakkinn sem Hafró notar þegar verið er að reikna út stofnstærð og gefa út tillögur um árlega veiði í þorski og fleiri tegundum. Það segir kannski meira en mörg orð að flestir sjómenn sem ég hef spurt út í rallið annaðhvort hrista hausinn eða hlæja!“
Mynd / HKr.
Lesendarýni 4. nóvember 2021

Vantraust á fiskveiðiráðgjöf

Höfundur: Magnús Jónsson veðurfræðingur og formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar

Á nýafstöðnum 37. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða af öllum fulltrúum sextán svæðisfélaga LS sem sátu fundinn:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda, LS lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu vistfræðilegra rannsókna á fiskistofnum við Ísland. Ljóst er að  vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar t.d. í þorski, grásleppu  og fleiri tegundum hafa engan veginn staðist og skýringar Hafrannsóknastofnunar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings. Skorar LS á nýtt Alþingi að beita sér sem fyrst fyrir því að úttekt verði gerð á stofnuninni af hlutlausum aðilum og stefna hennar tekin til gagngerrar endurskoðunar“.

Tillaga þessa efnis kom upphaflega fram á aðalfundi Drangeyjar – smábátafélags Skaga­­fjarðar  sem haldinn var 18. september sl. Tilefni hennar er sú staðreynd að á þeim tæplega áratug sem ég hef verið í

 samneyti við sjómenn á Skagafirði hef ég enn ekki hitt einn einasta í þeim hópi sem hefur traust á þeirri ráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun lætur árlega fara frá sér.

Að mínu mati er engin leið að skýra slíkt vantraust með því að menn hafi svo mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta að þeir geti ekki lagt hlutlægt mat á ráðgjöf stofnunarinnar. Þvert á móti tel ég að flestir sjómenn séu allir af vilja gerðir til að reyna að skilja, leggja mat á og draga ályktanir um lífið í sjónum, oftast  á grundvelli áratuga reynslu af veiðum með margs konar veiðarfærum sem og reynslu af hegðun einstakra fiskistofna.

Hér á eftir verða rakin nokkur dæmi sem mér finnst opinbera vel hvaða stöðu ráðgjöf og rannsóknir Hafró hefur meðal sjómanna hvort sem þeir eru á smábátum eða togurum.

Sáralitlar fræðilegar forsendur

Á undanförnum árum hefur opin­berast rækilega að Hafró hefur enn sáralitlar fræðilegar forsendur til að segja til um stærð grásleppustofnsins. Enn vita menn takmarkað um útbreiðslu grásleppunnar, ferðalög hennar, aldur og hrygningarhætti. Það er því flestum sjómönnum ljóst að veiðiráðgjöf í tonnum talið úr þessum stofni er meira og minna út í bláinn. Smábátasjómaður með 40 ára reynslu af grásleppuveiðum orðaði þetta þannig að veðurathuganir á Skagatá gætu alveg eins verið grunnur ráðgjafarinnar eins og svokallað grásleppurall!

Eins og margir muna fannst lítið af loðnu í sumar- og haustleiðöngrum Hafró árið 2019. Þá voru m.a. send út nokkur loðnuskip til leitar fyrir norðan land þar sem leitað var eftir mörgum tugum beinna leitarlína, samanlagt mörg þúsund sjómílur. Á meðan þessu stóð var fjöldi togara að veiðum á Norðurmiðum og vissi ég af því að skipstjórar þeirra voru í nokkru sambandi við leitarskipin sem lítið sem ekkert fundu af loðnu. Voru þessir skipstjórar að vekja athygli á að hjá þeim kæmi mikið af ánetjaðri loðnu í trollið auk þess sem þorskurinn sem veiddist væri fullur af loðnu. Slíkar ábendingar höfðu hins vegar engin áhrif á loðnuleitina enda leitarlínur skipanna ákveðnar í landi en ekki af aðstæðum í sjónum. Svona var ástandið mánuðum saman en aldrei fannst nein loðnan. Þegar kom fram um jól urðu þessir sömu togaraskipstjórar  varir við miklar loðnutorfur á stóru svæði norður af Melrakkasléttu. Ég spurði einn togaraskipstjórann að því hvort Hafrannsóknastofnun hefði ekki verið látin vita af þeim? „Það væri það síðasta sem við myndum gera“, var svarið!! Þannig er nú traustið þar á bæ gagnvart stofnuninni.

Hrista hausinn yfir togararallinu

Eins og flestir vita er togararallið langstærsti gagnapakkinn sem Hafró notar þegar verið er að reikna út stofnstærð og gefa út tillögur um árlega veiði í þorski og fleiri tegundum. Það segir kannski meira en mörg orð að flestir sjómenn sem ég hef spurt út í rallið annaðhvort hrista hausinn eða hlæja! Hafa þeir þó flestir verið við þorskveiðar í hin ýmsu veiðarfæri svo áratugum skiptir. Togararallið hófst árið 1985 og hefur það síðan farið fram árlega. Þar er reynt að beita sömu veiðiaðferðum frá ári til árs til að fá samanburðarhæfar niðurstöður. Má þar nefna fasta veiðistaði, árstíma, veiðarfæri (um 40 ára gamalt troll), togtíma, toghraða o.fl. Ég hef engar forsendur til að hafa skoðun á rallinu en vil nefna nokkur atriði sem mér finnst að þyrfti að taka tillit til. Í fyrsta lagi vil ég benda á að sjávarhiti við norðanvert landið hefur líklega hækkað um 3-4 °C frá því að rallið byrjaði. Skyldi sú staðreynd engu hafa breytt í útbreiðslu og ferðum þorsksins á síðustu 35 árum? Í öðru lagi hefur hegðan og útbreiðsla margra stofna sem þorskurinn  lifir á breyst verulega á þessum tíma. Má þar nefna loðnu, síld, sandsíli, makríl, rækju, kolmunna o.fl. Skyldi þorskurinn ekki fara á eftir ætinu eins og flestar dýrategundir gera bæði í sjó og á landi?! Í þriðja lagi hafa nokkrar tegundir sem eru í samkeppni við þorskinn um æti komið nýjar inn á Íslandsmið. Þar má nefna fyrrnefndan makríl, skötusel, túnfisk  o.fl., að ekki sé talað um ýmsar hvalategundir, en þeim  hefur stórlega fjölgað á síðustu áratugum. Ekki er að sjá að þessar breytingar á aðstæðum í umhverfinu eða lífríki hafsins á síðustu 35 árum hafi nokkru breytt þegar kemur að togararallinu, framkvæmd þess, útreikningum og forsendum þeirra. 

Vafi og rökstuðningur kemst lítið að

Margt fleira mætti nefna en ég læt þetta duga. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að fiskifræðin virðist vera eina vísindagreinin sem ég þekki, þar sem vísindamenn telja sig vita flesta hluti nánast upp á hár og þekkingarlegur vafi og rökstuðningur kemst lítið að. Öll þjóðin hefur tekið eftir því síðustu misserin að læknar og faraldssérfræðingar hafa ítrekað sagst ekki vita ýmislegt í sambandi við kórónaveiruna eða hvað sé fram undan í faraldrinum, hvernig vírusinn muni hegða sér og þróast og hvernig best sé að taka á þessum vágesti. Sömuleiðis hafa eldfjallafræðingar ítrekað sagst ekki vita hvort, hvar og hvenær muni gjósa og hversu lengi. Veðurfræðingar ráða alla jafnan ekki við að spá veðri frá degi til dags nema í besta falli eina viku og á síðustu 40 árum hafa þeir flestir skipt um skoðun í loftslagsfræðum. Að mínu áliti er þekking manna á hegðun jarðskorpunnar og eldfjalla, veðri og veðurfari sem og kórónavírusum þó miklu meiri en hún er á lífríki hafsins.

Páll heitinn Skúlason fyrr­verandi rektor Háskóla Íslands, sagði eitt sinn í erindi sem hann flutti:

„Framfarir eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga,  reyni að finna á þeim veika bletti. Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal:  að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri;  að reynt sé að finna galla á verki  –  hvert sem það er – til að unnt sé að gera betur.“

En hjá Hafrannsóknastofnun virðast menn ekki þurfa að efast né leita nýrra aðferða. Nýlega kom fram að þar á bæ hafa menn svo nákvæm mælitæki, líkön og óskeikula þekkingu að þeir sögðu okkur með hálfs árs fyrirvara að óhætt muni verða að veiða 904.200 tonn af loðnu á vetri komanda! Fyrir mér er þetta álíka trúverðug vísindi og að veðurfræðingur myndi spá meðalvindhraða á Stórhöfða í febrúar á næsta ári með tölu sem væri með a.m.k. þremur aukastöfum, t.d. 10,123 m/sek!

 

Magnús Jónsson
veðurfræðingur og formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...