Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Theodór Arnbjörnsson hrossaræktarráðunautur sýndi fram á í bók sinni Hestar (1931) að útgjöf eftir þörfum væri stóðinu hollari en að loka það inni í húsum,“ segir Kristinn meðal annars í grein sinni.
„Theodór Arnbjörnsson hrossaræktarráðunautur sýndi fram á í bók sinni Hestar (1931) að útgjöf eftir þörfum væri stóðinu hollari en að loka það inni í húsum,“ segir Kristinn meðal annars í grein sinni.
Mynd / ghp
Lesendarýni 28. mars 2023

Velferð hrossa - seinni grein

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka.

Í þessari grein verða tvö atriði skoðuð nánar sem tæpt var á í grein í þarsíðasta blaði (4. tbl. 2023). Annað er markmiðssetning laga um dýravernd frá því að fyrstu lögin voru sett allt fram til núgildandi laga.

Hitt er svo yfirferð þeirra krafna sem núgildandi lög gera um velferð hrossa og hvernig hrossahaldið í sínum fjölbreyttu myndum fullnægir þeim.

Markmið laga um vernd og velferð dýra

Hér í byrjun skal minnst á að lögin nr. 34/1915 um dýravernd voru ekki fyrstu ákvæðin í íslenskum rétti sem lutu að vernd dýra. Þannig var sett áður svohljóðandi ákvæði í almenn hegningarlög; 299. gr. hgl. 1869: „Hver sá sem verður brotlegur í þrælslegri misþyrmingu eða annarri grimmdarfullri meðferð á skepnum, einkum húsdýrum, skal sæta sektum allt að 100 rd. eða einföldu fangelsi allt að 4 mánuðum.“ Þessu ákvæði var þó erfitt að fylgja eftir þar eð svo mikil brögð þurftu að vera að hinni illu meðferð. Með lögunum frá 1915 átti að auka skýrleikann. Þó rataði ákvæði sem lutu að dýravernd að nýju inn í hegningarlögin við setningu almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var um leið fellt út úr lögum 34/1915. Það breyttist svo aftur með setningu dýraverndarlaganna nr. 21/1957.

Fleiri lög snertu dýravernd en sérlögin, s.s. lög um geldingu húsdýra (1935) og útflutning hrossa (1907). Ekki verður nánar um þau fjallað hér en á síðari hluta 19. aldar var farið að ræða það áherslumál að setja þyrfti lög er skylduðu bændur til að haga ásetningi búpenings í samræmi við heyforða sinn og tryggja eftirlit með því að menn skeyttu slíku boði. Fyrstu lögin um þetta efni eru frá 1884. Þeim var ítrekað breytt, s.s. með lögum nr. 44/1913 „um forðagæzlu“, runnu þau síðar inn í almenn lög um búfjárhald.

Grunnur vandamálsins sem kallar á lög sem þessi er hve heyöflun var lengi harðsótt og óviss á Íslandi sem gerði að verkum að jafnvel djarfir og stórhuga bændur gátu lent í vandræðum í hörðum árum og hvað þá hinir. Á nítjándu öld var landið að losna úr klakaböndum stöðnunar. Árið 1851 var breskum skipum fyrst leyft að sigla hingað til lands. Hófst þar með reglulegur útflutningur; s.s. mikil sauðasala og hrossa.

Á árunum 1851 til 1900 voru flutt úr landi liðlega 65 þúsund hross og mest 5700 hross á einu ári. Sölutekjurnar urðu grunnur að sjálfseignarábúð margra bænda og almennra framfara en leiddi óhjákvæmilega til þess freistnivanda að setja full djarflega á. Á þessu vandamáli átti og að taka af krafti með lögunum frá 1915 með því að skylda bændur til að eiga hús fyrir allt búfé sitt og taka þar með algerlega fyrir útigang og með því væntanlega að tryggja gjöf. Þessu var þó breytt í meðförum þingsins.

Menn sem albest til þekktu, s.s. Theodór Arnbjörnsson hrossaræktarráðunautur, sem jafnframt var umsjónarmaður fóðurbirgðafélaganna, sýndi fram á í bók sinni Hestar (1931) að útgjöf eftir þörfum væri stóðinu hollari en að loka það inni í húsum. Vissulega gæti verið vandkvæðum háð að koma gjöfinni í stóðið en hann fitjaði upp á ýmsum lausnum í ritinu hvað það varðaði sem svo voru þróaðar áfram eftir því sem tækninni vatt fram. Þetta vandamál er núna algerlega úr sögunni, rétt eins og skortur á heyi almennt séð, vegna byltingarkenndra framfara í heyverkun og véltækni.

Við skoðun og samanburð laganna frá 1915 og hegningarlagaákvæðisins sem gilti fyrir og svo laganna frá 1957 sést að á þessu tímabili verður sú þróun, að sú jákvæða skylda að fara vel með dýr tekur yfir bannið sem áður gilti við að fara illa með þau. Á þessu er svo enn frekar hnykkt í lögum nr. 15/1994, um dýravernd. Í núgildandi lögum, nr. 55/2013, er síðan stigið stórt skref í átt til þess að auka hlut dýranna með því að setja ekki einungis á oddinn að þau séu andlag verndar og vel skuli farið með þau, heldur með að benda á sjálfstæðan rétt þeirra, því að þau séu skyni gæddar verur sem eigi að fá að sýna sitt eðlilega atferli eins og frekast sé unnt. Auk þess að tala um velferð dýra í stað dýraverndar.

Þegar umræðurnar frá 1915 og eins 1956 til ́57 eru skoðaðar, sést að þingmenn voru ekki á eitt sáttir um það hvar málaflokkurinn skyldi vera. Þannig greindi þingmenn 1915 á um hvort vísa ætti málinu til landbúnaðarnefndar eða ekki og svo hvort það ætti heima undir landbúnaðarráðuneytinu eða menntamálaráðuneytinu við afgreiðsluna 1957. Úr varð að málið fór ekki til landbúnaðarnefndar 1915, það varð áfram undir menntamálaráðherra 1957 og fór svo til umhverfisráðuneytisins við stofnun þess. Hins vegar er málaflokkurinn nú undir matvælaráðherra, svo segja má að tillagan sem var felld 1915, hvað forræði málaflokksins varðar, er nú orðin ofan á.

Núgildandi lagakröfur til hrossahalds

Fyrsta grein núgildandi laga er svohljóðandi: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Í undirköflum og hinum ýmsu reglugerðargreinum eru lagakröfurnar svo sundurgreindar nánar. Útfærslur og sérkröfur á grunni þessara rammalaga eru svo settar fram í reglugerð, hvað hrossin varðar í rg. nr. 910/2014, um velferð hrossa og rg. nr. 900/2022, um blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Hrossahald hefur tekið stórfelldum framförum á umliðnum árum og áratugum; tamningu, reiðmennsku, húsakosti og umhirðu allri. Allt fagstarf sem lýtur að tamningu og meðferð fer nú fram á forsendum hestsins, þannig lærir hann á þeim forsendum að tamningamaðurinn eða þjálfarinn sé leiðtoginn. Jafnframt hafa þeir sem virkilegum árangri hafa náð í greininni áttað sig á að „framfarirnar“ megi aldrei ganga svo langt að verði andstæðar eðli hestsins sem dýrategundar; „hesturinn fái að vera hestur“, eins og stundum er komist að orði.

Hvað hið síðastnefnda varðar er fátt hollara né þjónar betur anda laganna en að hesturinn fái notið útivistar og frelsis, engin hross standa betur hvað það varðar en þau sem eru í blóðnytjum og útiveran árið um kring er fullkomlega í anda laga, reglugerða og góðra búskaparhátta.

Skylt efni: Ísteka

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...