Verðmæti eldisleyfa sem eru í eigu útlendinga
Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefin var út 23. ágúst 2017 lagði grunn að eignarhaldi og miklum fjárhagslegum ávinningi erlendra fjárfesta og íslenskra leppa þeirra. Stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða voru þátttakendur í starfshópnum sem sömdu leikreglurnar sjálfum sér og sínum til fjárhagslega ávinnings. Málið fór síðan í gegnum alla stjórnsýsluna með litlum breytingum og var samþykkt á Alþingi Íslendinga á árinu 2019.
Drifkrafturinn hefur verið að tryggja sér sem mest af eldissvæðum fyrir sjókvíaeldi á laxi, síðan skrá laxeldisfyrirtækin á erlendan markað og ná mikilli hækkun í hafi sem fyrst og fremst liggur í verðmætum eldisleyfa. Eitthvað hefði verið sagt ef þetta hefði verið framgangan varðandi regluverk í kringum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.
Áhættumat erfðablöndunar er notað til að úthluta framleiðsluheimildum til laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila og hefur lítið sem ekkert með umverfisvernd að gera. Höfundur hefur skrifaður fjöldi greina um vankanta áhættumats erfðablöndunar í Bændablaðinu.
Byggja grunninn
Forráðamenn laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila fóru offari í að ,,helga sér svæði“. Arnarlax með um 70.000 tonn í ferli og Fiskeldi Austfjarða um 55.000 tonn eða um 70% allra eldissvæða um mitt ár 2016. Samkvæmt því sem kom fram í stefnumótunarskýrslunni sem var gefin út á árinu 2017 voru laxeldisfyrirtækin þá komin í meirihlutaeigu erlendra aðila. Hér er um að ræða laxeldisfyrirtækin Arnarlax, Fiskeldi Austfjarða, Laxa fiskeldi og Arctic Fish Farm. Í stefnumótunarskýrslunni voru lagðar fram hagstæðar tillögur og hindranir til að tryggja framgang þessara fyrirtækja.
Úthlutun 2017
Áhættumati erfðablöndunar var ætlað að hemja uppbyggingu eldis á frjóum laxi og var á árinu 2017 komið með tillögur um 71.000 tonna framleiðsluheimildir og þar af 50.000 tonn fyrir Patreksfjörð, Tálknafjörð, Arnarfjörð og Dýrafjörð. Athyglisvert er að Arnarlax fær allar sínar fyrirhuguðu framleiðsluheimildir á sunnanverðum Vestfjörðum en stjórnarformaður fyrirtækisins var annar af fulltrúum Landssambands fiskeldisstöðva í stefnumótunarhópnum. Á sama tíma var lokað fyrir allt eldi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir að reiknilíkan áhættumatsins gæfi möguleika á nokkurra þúsunda tonna eldi og þar með var fyrirhugað laxeldi íslenskra fyrirtækja slegið út af borðinu. Af hverju var ekki farin sú leið að úthluta framleiðsluheimildum á öllum svæðum á Vestfjörðum þannig að öll fyrirtækin fengju einhverjar heimildir? Þetta er sérstaklega athyglisvert m.t.t. hvernig staðið var að úthlutun á árinu 2020 eins og fram kemur hér á eftir.
Að þessu var stefnt
Í fundargerð stefnumótunarhópsins frá 14.7.2017 kemur vel fram hvert menn voru að fara: „Ákveðið að nefndarmenn fái sendar glærur og áhættumatsskýrslu eftir klukkan 14 þegar hlutabréfamarkaði í Noregi hefur verið lokað.” Að því er virðist var búið að ákveða á þessum tímapunkti, og jafnvel töluvert fyrr, að hækka verðmæti eldisleyfa í hafi með að skrá félögin á erlendan hlutabréfamarkað. Í október 2017 koma áhugaverð frétt í Fréttablaðinu tæpum tveimur mánuðum eftir að stefnumótunarskýrslan var gefin út. Þar kemur fram að Midt-Norsk Havbruk greiði að lágmarki 965 milljónir fyrir ný hlutabréf í Fiskeldi Austfjarða en ef fyrirtækið fær leyfi til aukinnar framleiðslu á næstu árum gæti kaupverðið hækkað í allt að 3,9 milljarða króna.
Úthlutun 2020
Það kemur á óvart að strax árið 2020 leggur áhættumat erfðablöndunar til um 20% aukningu framleiðsluheimilda með að leika sér með forsendur, sem eru vafasamar eða beinlínis rangar. Eflaust hefur verið mikill þrýstingur frá íslenskum leppum um að framleiðsluheimildir yrðu auknar enda mikil verðmæti undir í formi eldisleyfa. Niðurstaðan var m.a. að Ísafjarðardjúp var opnað utan við Æðey til eldis á frjóum laxi. Með þessari ákvörðun í skjóli áhættumats erfðablöndunar var aftur barið á íslensku fyrirtæki sem fyrirhugaði eldi innan við Æðey. Þessi ákvörðun er óskiljanleg vegna þess að líkur á að eldislax gangi í veiðiár úr slysasleppingum fyrir miðju Ísafjarðardjúpi, þar sem laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila eru staðsett, eru svipaðir og í tilfelli slysaslepping innan við Æðey.
Verðmat á eldisleyfum
Á árinu 2018 var byrjað að benda á mögulegan ofsagróða af sölu eldisleyfa í nokkrum íslenskum fjölmiðlum. Fram kom að verðmæti eldisleyfa laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila gætu verið frá u.þ.b. 1,5 til 3 milljónir króna á hvert tonn. Um það má deila hvort verðmæti eldisleyfa séu raunverulega þetta mikil. Í því sambandi má nefna að Ísland hefur verið á jaðarsvæði fyrir sjókvíaeldi á laxi en með væntanlegu hækkandi sjávarhita verða eldisleyfin verðmætari. Í greinum mínum í Morgunblaðinu hefur gróflega verið áætlað að verðmæti eldisleyfa Arnarlax væru 1,6 milljónir króna á tonn og í tilfelli Fiskeldis Austfjarða um 1,2 milljón króna á tonn. Höfundur hefur ekki aðgengi að jafn góðum gögnum og forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna og geta þeir eflaust komið með nákvæmara og réttara verðmat á eldisleyfunum.
Verðmæti eldisleyfa
Með endurskoðun á áhættumatinu á árinu 2020 var heimilaður hámarks lífmassi af frjóum laxi í sjókvíum aukinn úr 71.000 tonnum í 106.500 tonn. Nú er búið að veita leyfi fyrir eldi á frjóum laxi fyrir um 83.000 tonnum að verðmæti um 110 milljarða og er þá miðað við verðmat upp á 1.3 milljónir króna á hvert tonn. Þrjú fyrirtæki eru komin langt í umhverfis- og umsóknarferlinu með um 48.000 tonna heimildir og ef það gengur eftir geta heildarverðmæti eldisleyfanna verið um 170 milljarða króna. Gróflega má áætla að um 90% eldisleyfanna séu í eigu erlenda aðila.
Eldisleyfi varanleg eign?
Það er þekkt hvernig veiðireynsla verður að varanlegum kvóta hér á landi, en sú eign er a.m.k í eigu innlenda aðila og yfirleitt þeirra frumkvöðla sem hófu útgerð eða hafa keypt kvóta á háu verði. Í tilfelli eldisleyfa er búið að skapa mikil verðmæti með því að skrúfa upp verðmat eldissvæðanna með skráningu á erlenda hlutabréfamarkaði. Þegar kemur að endurnýjun á eldisleyfum eftir 16 ár verður þrýstingur á að um varanlega eign sé um að ræða eins og gerst hefur erlendis. Þegar að þessum tímapunkti er komið geta þeir sem fyrst komu að borðinu verið búnir að selja sinn hlut og taka út mikinn ávinning. Það munu hluthafar sem eftir eru, hugsanlega mest íslenskir, benda á og fara fram á að leyfin fáist aftur ódýr og/eða verði að varanlegri eign.
Að lokum
Sumir íslenskir leppar og erlendir fjárfestar hafa innheimt ávinninginn með sölu hlutabréfa og jafnvel nú þegar fengið allt sitt til baka með að selja hluta bréfanna. Miðað við verðmæti hlutabréfa laxeldisfyrirtækjanna á erlendum mörkuðum þá hafa erlendir fjárfestar lagt laxeldisfyrirtækjunum til tiltöluleg litla fjármuni. Erlendir fjárfestar sem komu að félögunum áður en þau fóru á hlutabréfamarkað geta selt hluta bréfanna til að ná inn öllu því sem lagt hefur verið í félögin en samt áfram verið meirihlutaeigendur. Erlendir fjárfestar hafa nú eignast íslenska firði (eldisleyfin) án þess að greiða neitt fyrir það. Það er ekki hægt að segja annað en þessi flétta íslenskra leppa og erlendra fjárfesta sé hrein snilld og ótrúlegt að slíkt geti gerst á Íslandi. Finnst ráðamönnum þetta í lagi?
Valdimar Ingi Gunnarsson
Höfundur er sjávarútvegs-
fræðingur og hefur m.a. unnið við ýmis mál tengd fiskeldi í rúm þrjátíu ár.