Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
VG stendur með íslenskum landbúnaði
Lesendarýni 27. ágúst 2021

VG stendur með íslenskum landbúnaði

Höfundur: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Formaður Bændasamtakanna spurði áleitinna spurninga í leiðara sínum í síðasta Bændablaði. Hægt er að taka undir margt sem þar kom fram. Hann varpaði fram þeirri mikilvægu spurningu hvort þingmenn ætli að standa með íslenskum landbúnaði að loknum kosningum með gjörðum en ekki bara orðum.

Því er auðsvarað af minni hálfu. Já, Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur með íslenskum landbúnaði hér eftir sem hingað til. Undirrituð greiddi atkvæði gegn viðskiptasamningi Íslands við Evrópusambandið. Það gerðu fjórir aðrir, en öll áttu þau sameiginlegt að vera félagar mínir í þingflokki VG. Við vorum þá, líkt og svo oft áður, með rétta stefnu sem þótti óvinsæl. Síðar kom svo í ljós að flest það sem við vöruðum við raungerðist. Mikil ruðningsáhrif á innlendan búvörumarkað og erfiðleikar. Að sama skapi var það mikið ánægjuefni þegar sátt náðist um það í hittifyrra að takmarka verulega, og í raun koma í veg fyrir, að jarðir safnist í hendur fárra auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru. Ég var framsögumaður máls um breytingu á ýmsum lögum sem vörðuðu fasteignakaup en með þeim var stigið mikilvægt skref í því að bæta lagaumhverfi um viðskipti með jarðir. Við þurfum að halda áfram og gera enn betur og VG eru þau einu sem hingað til hafa látið verkin tala í þeim efnum.

Næsta kjörtímabil skiptir miklu máli fyrir innlendan landbúnað

Málefni landbúnaðar hafa verið mér hugleikin síðan ég settist á þing árið 2013. Það er ekki undarlegt þar sem að landbúnaður og sjávarútvegur eru grundvöllur byggðar í Norðausturkjördæmi. Stefna VG í landbúnaðarmálum er skýr, við teljum að í auknum mæli þurfi að horfa til þess að bæta afkomu bænda, efla innlenda framleiðslu í þágu fæðuöryggis og að landbúnaður sé stundaður með sjálfbærni að leiðarljósi.

Þó að markmiðin séu skýr þá eru aðferðirnar sem beitt er þær sem skipta höfuðmáli. Það olli mér persónulega vonbrigðum að ekki næðist á kjörtímabilinu að færa afurðastöðvum bænda þau verkfæri sem til þarf til þess að vinna saman í meira mæli til að ná hagræðingu. Þannig er hægt að lækka framleiðslukostnað svo að hærri upphæð renni í vasa bænda. Þá blasir við að endurskoða þarf tollasamninginn við Evrópusambandið þar sem forsendur hans eru ekki til staðar í dag, ef þær voru nokkru sinni til staðar.

Nýliðun í landbúnaði verður, að ég hygg, mikilvægt mál á komandi árum. Sífellt fjármagnsfrekara verður að stunda nútímabúskap og afkoman þarf að vera þannig að hún fæli ekki ungt fólk frá sem hyggur á landbúnaðarstörf. Fjölbreytileikinn þarf að aukast til að breikka þann grunn sem búseta í dreifbýli hvílir á. Til þessa þarf að horfa í næstu búvörusamningum þannig að aukin tækifæri verði til nýsköpunar og fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Dæmi um þennan fjölbreytileika hef ég m.a. orðið vör við í mínu kjördæmi en á ferð minni um Þingeyjarsýslurnar um daginn heimsótti ég Nýsköpun í Norðri á Laugum. Þar er lögð áhersla á að vinna sem mest úr hverjum lambskrokki og á nýstárlegan hátt. Meðal annars með það að markmiði að veitingastaðir í nærsveitum geti nýtt sér afurðina sem nýjung á matseðli. Þar hefur fólk einnig ýmsar hugmyndir sem ég tel að eigi að horfa til þegar kemur að útfærslu næstu búvörusamninga. Það er alveg ljóst að við þurfum að bregðast við breyttum tímum.

Loftslagsmálin eru stærsta hagsmunamálið til lengri tíma

Mikið hefur verið skrifað og rætt um loftslagsmál síðustu ár. Ég hef þá bjargföstu trú að með því að stefna að loftslagsvænni landbúnaði megi ná miklum árangri í sölu á afurðum. Það sem þarf að gerast næst í málum tengdum landbúnaði er að skapa tækifæri fyrir þá bændur sem vilja grípa til aðgerða í sínum búskap. Vísir að slíku verkefni er í fjármálaáætlun næstu ára; verkefninu loftslagsvænum landbúnaði. Það verkefni þarf að styrkja enn frekar svo að það mæti umfangi þeirra breytinga sem eru fram undan. Ég hitti sífellt fleiri bændur sem hafa áhuga á því að hefjast handa en þeim finnst fátt um svör hvar hagkvæmast sé að byrja. Er það með því að breyta beitarstýringu, bæta efnum út í fóðrið, byggja nýja hauggeymslu eða eitthvað allt annað?

Það er hagur samfélagsins alls að við náum betri stjórn á losun gróðurhúsalofttegunda og ábyrgðin á losun vegna landnotkunar getur ekki verið færð á bændur dagsins í dag. Það er bæði óréttlátt og ólíklegt til árangurs. Verkefni næsta kjörtímabils eru fjölþætt og flókin, endurskoða þarf búvörusamninga og semja um nýjan samning. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í að standa með íslenskum bændum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Höfundur er oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...