Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vindmyllur í Norðurárdal og Þverárhlíð
Lesendarýni 7. október 2022

Vindmyllur í Norðurárdal og Þverárhlíð

Höfundur: Gunnar Jónsson, skógræktarbóndi í Króki.

Vindmyllur henta vafalaust vel til framleiðslu á rafmagni og það er skiljanlegt að athygli beinist að Íslandi til slíkrar raforkuframleiðslu.

Gunnar Jónsson.

Þar eru fyrir hendi bæði vindur og víðerni. Uppsetningu vindorkuvera og starfrækslu fylgja þó ýmis vandamál. Má þar nefna vegagerð fyrir þungaflutninga, jafnvel um ósnortið land, mikið jarðrask við undirstöður vindorkumastra, samfara sjónmengun, hljóðmengun, áhrifa á lífríki og verðfalli fasteigna og er þá sjálfsagt ýmislegt ótalið. Um þetta þarf vart að deila. Það ætti einnig að vera óumdeilt að þessir annmarkar einir og sér valda því að það er full þörf á því að vanda vel til verka þegar slíkum mannvirkjum er valinn staður.

Norðurárdalur og Þverárhlíð eru náttúruperlur í þjóðleið og nærri henni, fjalllendið á milli þeirra, Grjóthálsinn, er ósnortið land í beinu framhaldi af öræfunum, sem nú er unnið að því að friða og gera að þjóðgarði. Slíkt land er mikið verðmæti. Öll nýting þess er viðkvæmt mál, sem krefst aðgæslu og fyrirhyggju. Frá upphafi byggðar í landinu hefur aðallega verið stundaður landbúnaður á þessum slóðum en náttúrufegurð og veiðar í víðfrægum laxveiðiám hafa löngum dregið að sér fólk sem sækist eftir afþreyingu í fögru og ósnortnu umhverfi. Á síðustu áratugum hefur hefðbundinn landbúnaður á þessu svæði dregist mjög saman þó enn séu þar rekin myndarleg bú. Það er ljóst að þarna er orðin og er að verða veruleg breyting á búskaparháttum. Hér er að vaxa upp hægum skrefum umhverfi afþreyingar, heilsuræktar og menningartengdrar starfsemi. Nú þegar er hér umtalsvert skólahald, hótelrekstur, veitingasala og ferðaþjónusta sem er orðinn einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Við árnar hafa risið myndarleg veiðihús. Hér er kominn golfvöllur og talsverð orlofshúsabyggð samfara skógrækt og hefðbundnum búskap á þeim jörðum sem best henta til landbúnaðar. Þá er ótalinn sá mikli fjöldi ferðamanna, innlendra og erlendra, sem á leið um, á Þjóðvegi 1 eða eftir öðrum vegum og slóðum, göngufólk og hestaleiðangrar. Fólk, sem kýs að hafa hér viðstöðu á leið sinni og njóta þess sem í boði er.

Það er skoðun nær allra þeirra sem hér búa að vindmyllugarðar falli illa að þessu umhverfi og þeirri uppbyggingu sem er fyrirsjáanleg og fyrirhuguð. Ásýnd þeirra breytir umhverfi okkar. Þeim fylgir röskun á ósnortnu umhverfi. Fjárhagslegur hagnaður sveitarfélagsins af rekstri þeirra sýnist vera óverulegur ef tekið er mið af óhagræði því sem rekstri þeirra fylgir og þeim óþægindum og áreiti sem þær valda íbúunum. Þá er full ástæða til þess að óttast áhrif þeirra á ferðaþjónustu svæðisins sem og lífríki þess. Það er talið að yfirgnæfandi meirihluti erlendra ferðamanna sem hingað koma séu að leita eftir ósnortinni náttúru. Slík víðerni verða stöðugt fágætari og eru sennilega þegar allt kemur til alls mestu verðmæti þessarar þjóðar. 

Vindorkuver eiga einfaldlega ekki heima í Norðurárdal og Þverárhlíð. Þeir annmarkar á vindorkurekstri sem hér eru taldir mæla allir gegn þessari fyrirhuguðu framkvæmd. Kjarni þessa máls er hins vegar sá að mikill meirihluti þeirra íbúa og jarðeigenda sem hér eiga hlut að máli er eindregið andvígur öllum hugmyndum um vindorkurekstur á þessu svæði. Sveitarstjórninni ber að virða þau sjónarmið og standa með íbúunum í þessari verndarbaráttu þeirra.

Þeir telja að hann falli engan veginn að því samfélagi, sem þeir vilja búa í og sé því bæði skaðlegur og óviðunandi. Við álítum að staðsetning þeirra þar væru náttúruspjöll.

Á tveimur fremstu bæjum í Norðurárdal er rekin umfangsmikil skógrækt og landgræðsla. Þar er fremur veðursælt eins og í Borgarfjarðardölum. Hörð norðanátt blæs þó stundum af Holtavörðuheiðinni niður dalinn. Sá skógur sem nú er að vaxa upp í Króki og Sveinatungu mun stilla þann vind og gera það enn meira á komandi áratugum. Þá verður dalurinn líkur því sem áður var þegar jarðirnar voru þaktar birkiskógi. Það eru landbætur.

Við eigendur skógræktarjarðarinnar í Króki mótmælum þessum fyrirhuguðu vindmylluframkvæmdum harðlega og lítum á þær sem aðför að starfi okkar á liðnum áratugum.

Skylt efni: Vindmyllur | vindorka

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...