Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kári Gautason.
Kári Gautason.
Lesendarýni 6. janúar 2021

Vörumst villuljós

Höfundur: Kári Gautason

Fyrir nokkru skrifaði formaður Miðflokksins grein í Bændablaðið sem snerist um greiningu og lausnir á stöðu landbúnaðarins. Hann greinir réttilega að á Íslandi séu blikur á lofti og hafi verið um nokkra hríð í landbúnaðarmálum. Á hinn bóginn er greiningin í meginþáttum röng. Honum yfirsjást atriði sem skipta sköpum þegar um það er að tefla að koma á framfæri tillögum um raunverulegar úrbætur og lausnir sem duga. 

Spurningin sem svara þarf fyrst er þessi: Hvað skiptir höfuðmáli þegar reynt er að skilja þróun landbúnaðarins hér á landi síðustu ár? Sá sem veit ekki hvar hann er veit heldur ekki hvert hann á að halda. Þegar við höfum skilgreint hvar við erum stödd á raunsannan hátt getum við hafist handa við að marka stefnuna á framtíðarbraut. Síðan er ekki úr vegi að nefna nokkur villuljós sem formaður Miðflokksins hefur veifað í landbúnaðarmálum og hafa leitt bændur af leið.

Linnulausar tækniframfarir

Fyrir rúmum sextíu árum birti Bandaríkjamaðurinn Willard Cochrane grein sem lýsti þróun landbúnaðar á þeim tíma. Þar er því ferli lýst sem við sjáum greinilega að hefur átt sér stað hér á landi ef við horfum til lengri tíma en eins kjörtímabils:

Tækniþróun veldur því að framleiðslukostnaður lækkar. Hugvitssamir bændur taka þessa tækni upp og í kjölfarið hagnast þeir. Eftir því sem fleiri bændur fylgja í kjölfarið lækkar verð á afurðum þeirra. Þeir bændur sem ekki geta fylgt á eftir eiga þann kost að hætta búskap eða vinna utan búsins til þess að viðhalda tekjum sínum. Svona gengur þessi hringur ár eftir ár. Dráttarvélar, súgþurrkun, rúlluvélar, stæðuverkun, mjaltagryfjur, mjaltaþjónar, nákvæmnisbúskapur. Tækniframfarirnar eru linnulausar. 

Á síðustu þrjátíu árum hefur framleiðni í mjólkurframleiðslu aukist þannig að þriðjungur bænda framleiðir helmingi meiri mjólk, með fimmtungi færri kúm. Í sauðfjárrækt hafa ekki verið sömu tækifæri til afkastaaukningar. Samkeppnisstaða hennar hefur þar af leiðandi  versnað sífellt gagnvart þeim tegundum kjöts sem hún keppir við. Þetta höfum við fyrir augum meðal annars í miklu framboði af verksmiðjuframleiddu svína- og kjúklingakjöti. Auðvitað er hægt að ná árangri með því að rækta sérstöðu og einstök gæði lamba sem beitt er úti í guðsgrænni náttúru Íslands. En það dugir skammt vegna takmarkaðs markaðar innanlands og samkeppni við aðra sauðfjárræktendur á alþjóðamarkaði.  Því hafa fjölmargir sauðfjárbændur tekið til við hliðarbúgreinar til þess að viðhalda heimilistekjum sínum. 

Þetta er staðan og henni verður ekki haggað svo glatt. Þetta eru hjól tímans sem snúast hratt og munu ekki stöðvast. Við hljótum því að spyrja okkur hvað við ætlum að gera til þess að verja það sem máli skiptir, samfélögin í dreifbýlinu, menninguna og tækifærin?

Innlent fúsk til vandræða

En áður en ég hef þá sálma, þá langar mig til þess að eyða örfáum orðum í þá mynd sem formaður Miðflokksins bregður upp af orsökunum fyrir núverandi stöðu. Fyrst nefnir hann eftirlitsiðnaðinn og þar hefur hann nokkuð til síns máls. Sjálfur man ég vel eftir því að fá alls kyns eftirlit í heimsókn á árunum sem ég var bóndi. En fyrrverandi forsætisráðherra gleymir því að það var í hans tíð sem einhverjar mest íþyngjandi reglugerðirnar á þessu sviði voru settar. Reglugerðirnar um aðbúnað voru ekki sendar frá Brussel. Samantekið fyrir alla búfjárstofna hafa þessar reglugerðir í för með sér kostnað sem nemur sennilega eitthvað á þriðja tug milljarða. Það var ekki Evrópusambandið sem fyrirskipaði þennan kostnaðarauka, heldur Alþingi Íslendinga og stjórnvöld þessa tíma. Ráðuneyti Sigmundar Davíðs. 

Þá nefnir hann einnig tolla-samninginn hinn vonda. Sem einnig er alíslenskt fúsk, þar sem menn sömdu um geysilega miklar heimildir til þess að flytja út lítið unnar vörur, heila lambaskrokka og skyr (ásamt svínakjöti sem hlýtur að hafa verið einhvers konar grín). Gegn því að gefa eftir stærðarinnar hluta af innlenda markaðinum, því mikilvægasta sem íslenskur landbúnaður hefur. Þetta var gert án nokkurra greininga á því hvaða áhrif samningurinn gæti haft. Raunin er sú að í dag nýtum við brot af þessum heimildum meðan innflutningurinn er verulegur og hefur haft mikil áhrif á innlenda framleiðendur. Það er ekki nóg með að samningurinn sem ráðuneyti Sigmundar Davíðs gerði sé afleitur, nokkurn veginn sama hvernig litið er á hann, heldur er endurskoðunarákvæði hans jafnvel verra. Þar er það orðað á þann veg að samningurinn skuli stækkaður! 

Fleiri atriði væri hægt að tína til. Þannig var hvatning ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs til að auka framleiðslu á lambakjöti á árunum 2013-2015, með því að hækka ásetningshlutfall og fleira. Þetta leiddi til þess að afkoma sláturleyfishafa varð háðari erlendum mörkuðum og gengi krónunnar. Í kjölfarið hrundi svo verð á lambakjöti til bænda og hægt gengur að ná því upp á nýjan leik. 

Fleiri stoðir undir búsetu

En aftur að raunverulegum lausnum. Þær hljóta að vera þær að reyna ekki að vinna gegn hjóli tímans, heldur með því. Áskorunin núna snýst ekki um stærðarhagkvæmni, heldur breiddarhagkvæmni. Skjóta þarf fleiri stoðum undir búsetu í dreifbýli. Tækifæri eru til framleiðslu á fleiri tegundum matvæla en til þess þarf markvissan stuðning á rétta staði. Skynsamleg landbúnaðarstefna einblínir ekki eingöngu á þær stoðir sem fyrir eru heldur leitast við að fjölga þeim. Stóll á tveimur fótum er valtur.

Til þess að hægt sé að snúa við blaðinu þarf nýja sýn. Það þarf örugga forystu meðal bænda og á vettvangi stjórnmálanna. Í bændaforystunni hefur orðið mikil endurnýjun á síðustu árum. En slík endurnýjun hefur verið í minna mæli á vettvangi stjórnmálanna. Þar er boðið upp á sömu gylliboðin og vanalega. Það er varpað upp óraunsærri mynd af glanskenndri fortíð sem aldrei var og lofað að koma gamla tímanum á að nýju eftir næstu kosningar. Á stjórnmálasviðinu þarf einfaldlega að krefjast meiri þekkingar á málefnum landbúnaðarins en verið hefur í seinni tíð. Einnig þarf að snúa af þeirri braut í gerð viðskiptasamninga sem mörkuð var í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir hrun og sem var svo fram haldið með endurnýjuðu samstarfi þessara flokka eftir hrun. Nóg er tjónið orðið af þeirri vegferð. 

Kári Gautason

Höfundur er búfjárerfðafræðingur

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...