„Íslenska lambakjötið“ í hæsta gæðaflokki
Í byrjun mánaðarins urðu mikil tímamót þegar Framkvæmda- stjórn Evrópusambandsins samþykkti að veita „íslensku lambakjöti“ upprunavottun ESB (en. Protected Designation of Origin - PDO) fyrst allra íslenskra lanbúnaðarvara. Við óskum Íslandi til hamingju með sína fyrstu upprunavottun.
„Íslenskt lambakjöt“ er því orðið verndað afurðaheiti fyrir kjöt hreinræktaðra íslenskra lamba sem hafa verið fædd, alin og slátrað á Íslandi. Upprunamerki ESB eykur lagalega vernd bænda og framleiðenda, neytendavernd og tryggir vernd gegn ólöglegum viðskiptaháttum líkt og eftirlíkingum.
Þar að auki eykur upprunavottunin virði afurða, enda nýtur upprunamerkið mikillar virðingar sem gæðamerki um alla Evrópu. Aðrar gæðavörur sem eru verndaðar undir PDO upprunamerki ESB eru til dæmis Kampavín, Kalamata ólífur og Prosciutto parmaskinkur.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilgreindi í rökstuðningi sínum fyrir samþykktinni að „Sauðfjárrækt á sér langa og ríka menningarhefð á Íslandi og margir telja að án sauðfjár hefði Ísland verið óbyggilegt fyrir landnema fyrir mörgum öldum. Sauðfé hélt þjóðinni gangandi: kynslóðir Íslendinga hafa reitt sig á kjöt þess, og sauðskinnið og ullin verndaði þá fyrir kuldanum.“
Fram kemur að „íslenskt lambakjöt“ einkennist fyrst og fremst af mikilli mýkt og villibráðarbragði sem stafar af fjölbreyttri fæðu fjárins þegar það gengur frjálst og óhindrað um fjöll og dali. Þetta er líklega ekkert nýtt fyrir þér, kæri lesandi, en fyrir íbúum meginlands Evrópu er þetta einstakt og virðingarvert.
Hvernig getur upprunamerkið gagnast íslenskum landbúnaði?
Eins og með aðrar vottaðar gæðavörur getur þessi upprunamerking aukið verulega virði íslensks lambakjöts, varðveitt hefðbundna framleiðsluhætti, og aukið eftirspurn eftir lambakjöti.
Upprunamerkingin viðurkennir menningararfleið tiltekinna svæða, sérstöðu landbúnaðarvara þeirra og eykur samkeppnishæfni smábænda og framleiðenda á alþjóðlegum mörkuðum.
Við hjá Sendinefnd Evrópusambandsins erum stolt af því að „íslenskt lambakjöt“ hefur hlotið þá viðurkenningu sem það á sannarlega skilið og fylgjumst spennt með mögulegum nýjum umsóknum um upprunavottun ESB í framtíðinni.
En aftur, til hamingju, Íslendingar.