Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Patreksfjörður er einn þeirra staða á Vestfjörðum sem hafa verið að rétta úr kútnum við tilkomu uppbyggingar í fiskeldi eftir nær stöðugan samdrátt undanfarna þrjá áratugi.
Patreksfjörður er einn þeirra staða á Vestfjörðum sem hafa verið að rétta úr kútnum við tilkomu uppbyggingar í fiskeldi eftir nær stöðugan samdrátt undanfarna þrjá áratugi.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 10. desember 2018

Lax- og silungsveiðar skipta Vestfirðinga litlu en miklar væntingar til laxeldis

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Tölur úr skýrslu Hagfræði­stofnunar Háskóla Íslands um virði lax- og silungsveiða í síðasta Bændablaði vöktu mikla athygli. Þar var sjónum m.a. beint að landbúnaði á Vesturlandi þar sem lax- og silungsveiði er að skila 69% af efnahagslegu virði greinarinnar. Þetta er hreint ótrúlega stórt hlutfall, en þegar litið er til annarra landshluta blasir við dálítið önnur mynd, einkum er varðar Vestfirði. 
 
Skýrsla Hagfræðistofnunar um virði lax- og silungsveiða er sannarlega öflugt innlegg í hörð átök á milli veiðiréttarhafa og þeirra sem vilja heimila laxeldi í sjó. Þar er leitast við að meta hverju mögulega væri verið að fórna ef slysasleppingar úr laxeldiskvíum myndu leiða til erfðablöndunar eldislax við þá laxastofna sem fyrir eru í ánum. Um það eru hins vegar mjög deildar meiningar og áhugavert að skoða skýrsluna til afar mismunandi mikilvægis lax- og silungsveiða eftir landshlutum og eins út frá vísindarannsóknum.
 
 
Mjög mismunandi efnahagslegur hagur af lax- og silungsveiði eftir landshlutum
 
Hvað Vesturland varðar virðist efnahagslegur hagur landbúnaðar að verulegum hluta snúast um laxveiðar, sölu veiðileyfa og þjónustu í kringum það. Sauðfjárrækt, nautgriparækt, garðyrkja og akuryrkja er einungis að skapa um 31% af tekjum landbúnaðarins. Hefur Vesturland reyndar mikla sérstöðu á landsvísu hvað lax- og silungsveiði varðar. 
 
Næstmesta virði lax- og silungsveiða sem hlutfall af virði landbúnaðar er á Austurlandi, eða 34%. Trúlega gætir þar mjög umsvifa laxveiða í Vopnafirði. Þá kemur allt Norðurland með 27%, Suðurland með 15%, Suðvesturland með 14% og Vestfirðir reka lestina með 9%. Í tölum Hagfræðistofnunar eru teknir inn í myndina ýmsir afleiddir þættir af lax- og silungsveiði og metnir til verðmæta greinarinnar fyrir samfélagið. Margar þessara stærða eru byggðar á mati og útkoman áætluð út frá því. Stærðirnar sem þar eru nefndar eru því að töluverðu leyti byggðar á líkum, viðtölum og könnunum en ekki eingöngu grjóthörðum bókhaldsgögnum. 
 
Óþarfa átök?
 
Þótt handhafar lax- og silungs­veiðiréttinda hafi um árabil deilt hart á laxeldi í sjó, þá er laxeldi síður en svo nýtt af nálinni hér á landi. Deilurnar á milli þessara greina eru því sumpart dálítið hjákátlegar í ljósi sögunnar og í raun ættu þessar tvær greinar að geta haft með sér víðtæka samvinnu á vísindalegum grunni í stað þess að vera stöðugt að reisa múra og grafa skurði. Sennilega eru það þó peningahagsmunir á báða bóga sem þar villa mönnum sýn.
 
Reyndar er fróðlegt að skoða tölur Byggðastofnunar um vaxandi mikilvægi fiskeldis fyrir hagkerfi Vestfjarða. Atvinnutekjur af fiskeldi á Vestfjörðum voru 65 milljónir króna árið 2008 en námu 1.075 milljónum króna árið 2017 og höfðu þær nær 17-faldast.
 
Mikið hefur verið rætt um að laxeldiskvíar sem notaðar eru í sjó hér við land séu ekki nógu fiskheldar og leita verði annarra lausna. Kallað hefur verið eftir lokuðum kvíum og er það m.a. til skoðunar varðandi fiskeldi í Eyjafirði. Kínverjar hafa nú tekið í notkun fyrstu lokuðu úthafsfiskeldiskví sína sem á að vera algjörlega fiskheld. Kvíin, sem heitir Shelan 1, er eiginlega líkari stálbúri en fiskeldiskví. Hún er 180 metrar í þvermál og 35 metrar á dýpt, eða eins  og hálfur Hallgrímskirkjuturn. Hún var smíðuð í Wuchang skipasmíðastöðinni og uppbyggð líkt og olíuborpallur. Er kvínni sökkt undir yfirborð þar sem hún er staðsett á rúmsjó í Gulahafi um 130 sjómílur austur af borginni Rizhao í Shanding-héraði á austurströnd Kína. Hægt er að sökkva kvínni og láta hana fljóta á 4 til 50 metrum undir yfirborði sjávar þar sem öldugangs gætir ekki eins mikið. Í henni á að vera hægt að framleiða 1.500 tonn af laxi á ári. Samkvæmt upplýsingum Rizhao Wanzefeng Fishing Co. sem greint var frá í vefriti Salmon Business, er fyrstu laxauppskeru vænst í febrúar eða mars 2019. 
 
 
Rannsóknir sýna að hafbeitarlax skilar sér mjög illa upp í ár
 
Einn angi í þessum málum sem sjaldnast er rætt um eru rannsóknir Veiðimálastofnunar á hafbeit í Ísafjarðardjúpi fyrir nokkrum áratugum. Velta má fyrir sér í ljósi þeirra rannsókna hvort áhættan af slysasleppingum úr laxeldi í sjó hafi eins afdrifarík áhrif og skilja mætti af umræðunni. 
 
Í skýrslu Veiðimálastofnunar sem gefin var út í febrúar 1989 kemur m.a. fram um tilraunasleppingar í hafbeit, að hafbeitarlax var yfirleitt að skila sér mjög illa upp í ár við Ísafjarðardjúp. Raunar var árangurinn svo lélegur að menn gáfust upp á dæminu. Þar er greint frá niðurstöðum tilraunasleppinga í hafbeit hjá Blælaxi við Ísafjarðardjúp á árunum 1986 til 1987. Um það segir m.a.: 
 
„Athugaður var mismunur á endurheimtum, annars vegar með hefðbundinni sleppingu úr sleppitjörn og hins vegar með því að flytja seiðin á báti 42 km vegalengd út Ísafjarðardjúp og sleppa á 66 faðma dýpi mitt á milli Bolungarvíkur og Jökulfjarða. Alls voru 3 laxastofnar notaðir frá 2 eldisstöðvum.
Endurheimtur af seiðum sem sleppt var við utanvert Djúp urðu litlar (0-0,2%), en mun hærri frá seiðum sem sleppt var úr sleppitjörn [innst í Djúpinu] (0,15-4,2%). Endurheimtur voru mjög mismunandi eftir laxastofnum og eldisstöðvum. Bestar heimtur fengust af stofni Hafnardalsár við Ísafjarðardjúp (4,2%), en lakastar heimtur af stofni Stóru Laxár af Suðurlandi (0,15-0,30%).“
 
Þetta segir að laxaseiði sem sleppt var um eða fyrir utan mitt Djúp var hreint ekki að skila sér upp í ár innst í Djúpinu. Hins vegar veiddu sjómenn grimmt lax sem skilaði sér uppvaxinn á sleppislóðina í miðju Djúpinu. Þann lax voru menn m.a. að veiða í snurvoð í Jökulfjörðum. 
 
Ísafjarðardjúp skartar samkvæmt gömlum heimildum engum frægðar­sögum af laxveiði í ám né vötnum. Myndir / HKr. 
 
Niðurstöður í mótsögn við fyrri kenningar um ratvísi laxfiska
 
Í skýrslu Veiðimálastofnunar segir enn fremur um þessa tilraun sem  gerð var 1986–1987: 
„Niðurstöður sýna greinilega að það er ekki vænlegt til árangurs að flytja seiðin um langan veg út í Ísafjarðardjúp til aukningar á endurheimtu. Seiði virðast þannig missa hæfileikann til að rata á upprunalegan aðlögunarstað. [...] Niðurstöður þessarar tilraunar og tilraunarinnar hjá Blælaxi eru á sömu lund. Laxar sem fluttir eru langan veg frá upprunastað og sleppt í sjó, skila sér ekki á upprunastaðinn. Það bendir til þess að gönguseiðin læri að þekkja gönguleiðina á útgöngunni og muni leiðina er þau snúa aftur sem kynþroska lax og eru þessar niðurstöður í mótsögn bæði við innprentunarkenninguna og fermónakenninguna um ratvísi laxfiska.“
 
Fram, kemur í skýrslunni að svipaðar tilraunir  hafi verið gerðar á Faxaflóasvæðinu, m.a. í Kollafirði. Í þessum tilraunum voru notuð seiði sem upprunnin voru víða um land. Samkvæmt fullyrðingum um að erfðamengun geti átt sér stað í ám frá eldislaxi, ættu ummerkin að hafa komið fram í laxi víða á Vesturlandi. Þar af leiðandi mætti ætla út frá rannsóknum Veiðimálastofnunar að fullyrðingar um gamla upprunalega stofna í ám á Vesturlandi í dag séu í besta falli frekar vafasamar. 
 
 
Laxeldi í sjó á sér langan aðdraganda
 
Þó átök veiðiréttarhafa og laxeldis­manna hafi oft og tíðum verið hörð, þá verður að horfa til þess að ákvörðun um að heimila laxeldi í sjó á sér langan aðdraganda og er búin að fara í gegnum gríðarlega umfangsmikið stjórnsýsluferli. Samt hefur ekki náðst að semja vopnahlé í þeim átökum og harðar ásakanir verið á báða bóga. Að hluta snýst þetta um tæknileg atriði og nú segjast sumir andstæðingar laxeldis í sjó geta sætt sig við það sem kallað er lokaðar kvíar. Landkvíar eru þó í hugum margra hin eina raunverulega lausn, en hún er margfalt dýrari en sjókvíaeldi, ásamt því að afköst og arðsemin yrði mun minni. 
 
Íbúar eygja vonarglætu í fiskeldinu í kjölfar blóðtöku vegna kvótakerfis
 
Um laxeldið var búinn til rammi og regluverk sem nú er unnið eftir. Samkvæmt því hefur verið ráðist í milljarða króna framkvæmdir og uppbyggingu, bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þetta var m.a. gert í ljósi þess hversu illa Vestfirðingar og hluti Austfirðinga fóru út úr innleiðingu kvótakerfisins 1984 og hinu frjálsa framsali kvóta sem tók gildi 1991. Það leiddi til gríðarlegrar blóðtöku fyrir byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum í formi fólksflótta samfara óheyrilegri eignaupptöku sem verðfall fasteigna á svæðunum leiddi af sér. Úr því hefur aldrei verið bætt, en íbúar sem búa á þessum stöðum í dag, eygja samt von um að ná þar einhverju til baka með uppbyggingu fiskeldis. 
 
Fiskeldið virðist þó vera hálfgert hálmstrá þegar horft er á viðbrögð opinberra stofnana og náttúruverndarsamtaka við leyfisveitingum vegna greinarinnar. Þess vegna upplifa íbúar á þessum svæðum gríðarlega höfnun af hálfu kerfisins og ekki bætir úr skák  þegar sinnuleysi gagnvart samgöngu- og orkumálum bætast þar við. Það er því ekkert skrítið að hinn venjulegi Vestfirðingur upplifi það sem beina árás á tilverurétt sinn þegar spjótum er beint jafn harkalega að fiskeldi á Vestfjörðum og raun ber vitni.  
 
Sóknaráætlun í fjallendum landsfjórðungsins hlýtur að byggja á afrakstri sjávar
 
Svæði sóknaráætlunar Vestfjarða nær yfir 8.898 km2, þar af eru 3.715 km2, eða 41,8% ,undir 200 metrum yfir sjó. Vestfirðir afmarkast af sjó nema á mjórri ræmu að sunnan, milli marka í botnum Gilsfjarðar og Bitrufjarðar á Ströndum. Mörk Strandabyggðar og Húnaþings vestra, áður Bæjarhrepps, eru þó upp frá Skarfatanga, við Bitrufjörð að sunnan. Ljóst er af þessu að möguleikar til landbúnaðar eru mjög takmarkaðir í þessum fjöllótta landshluta. Fiskveiðar, fiskvinnsla og önnur nýting sjávarafurða hafa því alla tíð verið veigamikil undirstaða byggðar í fjórðungnum.  Fiskeldi virðist því vera nokkuð rökrétt lausn.
 
Vestfirðir og Austfirðir skilgreindir sem fiskeldissvæði
 
Í skýrslu þróunarsviðs Byggða­stofnunar frá 2017, sem ber heitið „Byggðaleg áhrif fiskeldis“, kemur fram að eldi laxfiska í sjókvíum var skilgreint með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði.  Þar var gefið út að helstu sjókvíaeldissvæði landsins yrðu á Vestfjörðum, frá Patreksfirði norður í Ísafjarðardjúp, og á Austfjörðum sunnan við Glettinganes. Að auki er eldi heimilt í Eyjafirði og Öxarfirði, en ekki á öðrum stöðum. 
 
Í lögum um fiskeldi nr. 71/20082 kemur fram að til starfsrækslu fiskeldisstöðva þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Hafrannsóknastofnun skal samkvæmt sömu lögum framkvæma burðarþolsmat fyrir sjókvíaeldissvæði og Skipulagsstofnun ákvarða um hvort sjókvíaeldi sé háð mati á umhverfisáhrifum hverju sinni. 
 
Árið 2014 voru 11 fiskeldis­fyrirtæki á Vestfjörðum að framleiða um 5.000 tonn af eldislaxi. Samkvæmt gögnum MAST nú 2018 eru níu fiskeldisfyrirtæki starfandi á Vestfjörðum og framleiða 11.470 tonn af laxi auk seiða. Þar er Arnarlax langstærst með um 10.000 tonna framleiðslu. 
 
Miklar væntingar og vaxandi vægi laxeldis
 
Í skýrslu Byggðastofnunar segir síðan um væntingar og vægi laxeldis á byggðarlögin á Vestfjörðum:
„Í Vesturbyggð og Tálkna­fjarðarhreppi hefur orðið aukning í útsvarstekjum og hafnargjöldum vegna aukinna umsvifa í fiskeldi. Í Vesturbyggð hillir í viðsnúning í rekstri hafnarsjóðs eftir erfið rekstrarár. Í Tálknafjarðarhreppi er nokkur fjöldi fólks tímabundið vegna uppbyggingar á tveimur seiðaeldisstöðvum. Í Ísafjarðarbæ er gert ráð fyrir að fjölgun starfa hafi bein áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að þær tekjur fari í útgjöld og fjárfestingar við sjálfbærni sveitarfélagsins, uppbyggingu innviða vegna fleiri íbúa, byggingu leikskóla, skóla o.fl. Þá er gert ráð fyrir verulegum nýbyggingum á Suðurtanga á Ísafirði í tengslum við uppbygginguna. Gert er ráð fyrir að gatnagerðargjöld vegna þeirra framkvæmda geti numið 330 milljónum kr. og fasteignagjöld af þeim muni nema um 90 milljónum kr. á ári. Í Bolungarvík er eitt starf við undirbúning fiskeldis í sveitarfélaginu.“
 
Íbúaþróun snýst við vegna fiskeldis
 
Samkvæmt stöðugreiningu sem Byggðastofnun gerði fór byggðaþróun að snúast við um mitt ár 2010 á sunnanverðum Vestfjörðum vegna uppbyggingar í kalkþörungavinnslu og laxeldi. Fólksfækkun á norðanverðum Vestfjörðum hélt þó áfram til 2014 en hefur verið að snúast við á undanförnum árum og misserum í kjölfar áforma um mikla uppbyggingu í sömu greinum við Ísafjarðardjúp. Ferðaþjónusta sem miklar vonir hafa líka verið bundnar við hefur líka einhverju skilað en samt ekki því sem margir vonuðust eftir. Samkvæmt nýrri skýrslu Byggðastofnunar varð mesta aukning atvinnutekna á Vestfjörðurm á tímabilinu 2008–2017 í fiskeldi.
 
Lax- og silungsveiðar hafa hverfandi áhrif á Vestfjörðum
 
Átökin um laxeldið hafa að stærstum hluta snúist um þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á sunnanverðum Vestfjörðum og fyrirhuguð áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Á þessum svæðum eru efnahagsleg áhrif af lax- og silungsveiði í ám og vötnum líka sáralítil. 
 
Samkvæmt skýrslu Hagfræði­stofnunar kemur einungis 9% hlutfall tekna veiðiréttarhafa og leigufélaga af launakostnaði og hagnaði í landbúnaði á Vestfjörðum úr lax- og silungsveiði. Þegar litið er til þess að einungis um 5% af landsframleiðslu kemur úr landbúnaði í fjórðungnum samkvæmt gögnum Byggðastofnunar, þá er ljóst að hverfandi hluti atvinnutekna Vestfirðinga skapast í lax- og silungsveiði. Sjávarútvegur á Vestfjörðum er aftur á móti að skapa 8% af landsframleiðslu. 
 
Til samanburðar var vægi landbúnaðar í atvinnutekjum á Vesturlandi 11%, þannig að heildarvægi lax- og silungsveiða í tekjuöflun þess svæðis í landsframleiðslunni er þá væntanlega um 7,5% á meðan stóriðjan á svæðinu er að skapa 15%.
 
Átök um laxeldi og uppruna laxastofna
 
Þetta eru óneitanlega athyglisverðar tölur þegar horft er til þess að virði lax- og silungsveiða hefur mjög verið notað sem rök í margvíslegum og hörðum átökum um hvort og í hversu miklum mæli eigi að heimila laxeldi í sjókvíum í vestfirskum fjörðum. Þar er þó einkum horft til slysasleppinga og fullyrðinga um að eldislax geti útrýmt „upprunalegum“ laxastofnum á svæðinu.
 
Um upprunalega stofna er þó líka deilt, því að í nær öllum tilfellum hafa laxastofnar í ám á Vestfjörðum verið ræktaðir upp á nokkrum áratugum með sleppingum á seiðum og þá oftar en ekki úr öðrum landshlutum. Heimildum virðist bera saman um að dæmi um að laxagengd og laxveiðar á Vestfjörðum á árum áður og á fyrri öldum, voru nánast engin. 
 
Upprunasaga laxfiska á Vestfjörðum er ekki rismikil
 
Ýktasta dæmið er trúlega Laugardalsá við Ísafjarðardjúp sem talin hefur verið ein besta laxveiðiáin í fjórðungnum á síðari árum. Hefur hún m.a. verið nefnd vegna mikilvægis upprunalegra laxastofna. Þar veiddust alls 198 laxar á síðastliðnu sumri, en 175 á veiðitímabilinu 2017. Hún var ekki almennilega laxgeng fyrr en sprengt var þar fyrir laxastiga. 
 
Vestfirðingurinn Halldór Jónsson, sem nú er búsettur á Akranesi, hefur talsvert skoðað þessi mál út frá fullyrðingum um uppruna laxastofna á Vestfjörðum. Um Laugardalsá segir Halldór m.a.: 
 
„Árið 1936 hófust tilraunir til þess að sprengja fiskistiga í Laugardalsá. Þær báru lítinn sem engan árangur fyrr en árið 1969 er steyptur var laxastigi í ána. Eftir það fóru laxveiðar í Laugardalsá vaxandi. Um leið og ræktun í ám í Ísafjarðardjúpi skilaði sér skiluðu árnar sér í hlunnindamat. Má þar nefna Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ágúst Gíslason sem gefin var út árið 1982 þó skráning þar sé nokkuð ónákvæm.“
 
„Eigi lax svo menn viti“
 
Halldór nefnir einnig að um þessa á hafi Jóhann Hjaltason ritað í árbók Ferðafélags Íslands árið 1949:
 
„Áin er lygn með miklum botngróðri og veiðisælt silungsvatn, en lax hefur þar eigi verið svo menn viti, fremur en í öðrum ám Vestfjarða, fram til síðustu ára, að laxaseiði hafa verið látin í ána til uppvaxtar.“ 
 
Í umfjöllunum hefur Halldór m.a. bent á bókina „Fiskarnir“ eftir Bjarna Sæmundssonar fiskifræðing  sem kom út árið 1926. Þar rekur hann nokkuð nákvæmlega hvar lax veiðist á Íslandi. Er kemur að Vestfjörðum í hans upptalningu stendur: 
 
„...en á öllu svæðinu þaðan kringum Vestfjarðakjálkann, að Hrútafirði, verður varla vart við lax, eða menn greina hann þar tæplega frá sjóurriða.“
 
Halldór heldur áfram og vitnar í sóknarlýsingar og fleira og segir:
 
„Í sóknarlýsingum Vestfjarða sem ritaðar voru á árunum 1839-1854 að tillögu Jónasar skálds Hallgrímssonar er nokkuð nákvæm lýsing á hlunnindum jarða í hverri sókn í Ísafjarðardjúpi. Er þar nokkrum sinnum nefnd silungsveiði en aldrei er laxveiði nefnd á nafn.“
 
Vestfirðir og Austfirðir að mestu laxlausir
 
Halldór segir að í undirstöðuritinu Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen, sem gefin var út árið 1881, skrifi Þorvaldur: 
 
„Laxinn (Salmo salar) gengur upp í mjög margar ár bæði sunnan lands og norðan, en miklir hlutar landsins eru þó laxlausir, t.d. Vestfirðir allir milli Gilsfjarðar og Bitru, suðurströndin öll fyrir austan Þjórsá og Austfirðir norður að Héraðsflóa.“
 
Félagarnir Eggert og Bjarni fundu engin dæmi um lax í Ísafjarðardjúpi
 
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1752–1757 og skildu eftir sig handrit að ferðabók er síðar kom  út. Halldór bendir á að í henni komi fram að hvergi veiðist lax í ám á Vestfjörðum en í nokkrum veiðist það sem þá var kallaður laxbróðir, öðru nafni sjóbirtingur. Engin þeirra áa er í Ísafjarðardjúpi. Að auki segja þeir silung veiðast víða.
 
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns
 
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Ísafjarðar- og Strandasýslu, sem rituð var 1710 er nákvæm lýsing á mannlífi og staðháttum, svo mörgum þótti nóg um. Þar stendur um Laugadalsá sem þar er svo kölluð en nú er nefnd Laugardalsá með erri: 
 
„Silúngsveiði lítil í Laugadalsá, þykir nú fara til rýrðar og valla með hlunnindum teljandi.“ 
 
Halldór segir að eðlilega hafi þar ekki verið minnst á laxveiði í ánni enda áttu eftir að líða tvær og hálf öld þar til hún var gerð laxgeng. Um Langadalsá við Djúp segir þar: 
 
„Silúngsveiði gagnvæn hefur verið í Lángadalsá, en hefur nú brugðist í nokkur ár að mestu aldeilis.“ 
 
Lax er þarna ekki nefndur á nafn hér frekar en annars staðar í umfjöllun þeirra Árna og Páls Vídalín um Ísafjarðarsýslu.
 
Halldór segir að það sé á grundvelli þessarar sögu sem vísindaleg ákvörðun var tekin árið 2004 að leyfa laxeldi á Vestfjörðum þegar stærstum hluta strandlengju landsins var lokað.
 
Þó þessar samantektir Halldórs  séu einaldar uppflettingar í gömlum heimildum, þá er erfitt að véfengja að forsaga laxveiða og laxanytja á Vestfjörðum og Austfjörðum er afar stutt vegna laxleysis á þessum svæðum. Hugtakið að vernda upprunalega laxastofna á þeim slóðum hefur því enga merkingu. Eftir stendur að mörkuð var sú stefna af stjórnvöldum að gera Austfirði og Vestfirði að fiskeldissvæðum. Samkvæmt því hafa íbúar á svæðunum  hagað sínum áætlunum.  Óbreytt áframhaldandi átök á milli laxveiðimanna og laxeldismanna leiða ekki til neins annars en að menn kroppi augun hver úr öðrum. Mun nær væri að deilendur settust niður með fulltrúum íbúanna sem þar búa til að finna ásættanlegar lausnir  á fyrirkomulagi laxveiða og laxeldis til framtíðar. Austfirðingar og Vestfirðingar hljóta að eiga það skilið eftir allt sem á undan er gengið. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta ekki bara um hagsmuni peningamanna heldur lifibrauð venjulegra Íslendinga. 

Skylt efni: laxeldi | Vestfirðir | silungur | lax

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...