Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Móta þarf langtímastefnu í landbúnaði
Skoðun 24. október 2017

Móta þarf langtímastefnu í landbúnaði

Höfundur: Ingvi Stefánsson

Stjórnvöld ásamt bændum þurfa að móta sér nýja langtímastefnu sem tekur mið af hagsmunum neytenda, lýðheilsu, kolefnisfótspori og byggðaþróun í landinu.

Íslenskur landbúnaður er agnarsmár í samanburði við evrópskan og skilyrði til framleiðslu mun lakari út frá hnattrænni stöðu.  Það er því mjög bagalegt að samningsaðilar við nýgerða búvörusamninga hafi ekki haft tollverndina sem hluta samningsins þar sem hún er okkur mikils virði.

Vissulega er Ísland aðili að alþjóðlegum stofnunum eins og t.d. Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og verður að fylgja þeim samningum sem við erum þar aðili að. Síðustu 10 ár hafa íslensk stjórnvöld hins vegar haft frumkvæði að því að gera samninga við ESB um tollalækkanir (40% árið 2007) og  samkomulag um gagnkvæma tollkvóta bæði árin 2007 og 2015 (sá síðari með gildistöku vorið 2018).

Það er eðlilegt að gerð sé hagræðingarkrafa á innlenda framleiðslu sem og samkeppni með hófstilltum innflutningi landbúnaðarvara. Samkeppni er af hinu góða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að því sögðu verður að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð stjórnvalda undanfarin misseri varðandi tollamálin. 

Það verður ekki bæði sleppt og haldið

Á sama tíma og stjórnvöld stuðla að auknum innflutningi landbúnaðarvara er verið að gera auknar kröfur um bættan aðbúnað í íslenskri svínarækt umfram það sem kollegar okkar þurfa að uppfylla í Evrópu.

Eftir að íslensk svínarækt verður búin að innleiða þessar breytingar stöndum við jafnfætis Norðmönnum í þessum efnum sem eru öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Á sama tíma og við fögnum auknum kröfum og viljum hafa aðbúnað okkar dýra eins og best verður á kosið gengur hins vegar ekki að hróflað sé við tollverndinni. Samkeppnin verður ekki réttlát.

Taflan efst á síðunni sýnir nokkur dæmi um mismun (og er ekki tæmandi) í kröfum á milli Íslands og ESB þegar kemur að svínarækt.

Það hlýtur að teljast eðlilegt að það séu gerðar sömu kröfur varðandi aðbúnað, sýklalyfjanotkun og fleira þegar kemur að innfluttu kjöti. Íslenskir svínabændur upplifa sig í sjálfheldu þar sem kröfur um aðbúnað eru auknar á sama tíma og opnað er fyrir aukinn innflutning á kjöti sem uppfyllir ekki sömu kröfur. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Skortur á fyrirsjáanleika

Í sumar var undirritaður boðaður á fund í landbúnaðarráðuneytinu þar sem kynntar voru hugmyndir ráðherra um breytt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum.

Í stuttu máli má segja að til hafi staðið að hætta með núverandi útboðsfyrirkomulag og afhenda tollkvóta með lágmarks kostnaði til innflytjenda í þeirri von að ágóðanum yrði skilað beint til neytenda. Þetta er neytendavæn hugsun, en engin tilraun er gerð til að meta hvort og hvaða áhrif þetta hafi á innlenda framleiðslu. Ekki frekar en þegar tollasamningarnir við ESB hafa verið gerðir. Á sama tíma eru svo rekin tvö aðskilin mál fyrir dómstólum þar sem reynir á hvort bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti haldi.

Við sem störfum í landbúnaði vitum hvað allir framleiðsluferlar eru langir og því er mikilvægt að meiri stöðugleiki sé í tollverndinni af hálfu stjórnvalda heldur en verið hefur.

Taka verður tillit til mismunandi stærðar markaða

Meðfylgjandi tafla sýnir vel hversu agnarsmár íslenskur kjötmarkaður er í samanburði við lönd ESB. Hér má sjá að hvort sem horft er til íbúafjölda eða kjötframleiðslu, þá er Ísland einungis 0,06% af EU-28 löndunum. Er þá sanngjarnt að semja tonn á móti tonni í tollasamningum?

Það verður að endurskilgreina stærð kjötmarkaðarins

Nýverið fjallaði Viðskiptaráð um breytingar sem eru að verða á íslenskum smásölumarkaði og sagði m.a að.. „Koma alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Costco og H&M til landsins og stóraukin verslun Íslendinga á vörum og þjónustu yfir netið bera þess merki að samkeppnisyfirvöld hér á landi þurfi að aðlaga nálgun sína að breyttu umhverfi og tækni. Íslensk fyrirtæki, sem eru agnarsmá í alþjóðlegum samanburði, eru í beinni samkeppni við fyrirtæki sem eru margfalt stærri....“ Svipaða nálgun má finna í umsögn Félags atvinnurekenda frá því í maí á þessu ári þar sem ríkið taldi sig geta sparað háar fjárhæðir með því að bjóða sameiginlega út lyfjakaup með öðrum Norðurlandaþjóðum. Í umsögn FA við því segir m.a. „Taki íslenska ríkið þátt í útboðum á erlendum mörkuðum eru ýmis atriði sem þarf að líta til. Velta þarf upp ýmsum spurningum, m.a. hvort íslensk fyrirtæki yrðu með þessu í raun útilokuð frá lyfjaútboðum á vegum íslenska ríkisins. Sú staða gæti auðveldlega komið upp enda eru íslensk fyrirtæki alla jafnan smærri en erlend fyrirtæki.“  Við svínabændur höfum skilning á þessum sjónarmiðum VÍ og FA en viljum þó vekja athygli á að fyrirtæki einsog Costco og H&M starfa þó eftir sömu lögum og reglum og önnur fyrirtæki í landinu. Það sama gildir ekki um kollega okkar erlendis. Nú er svo komið að innflutt svínakjöt er orðið um 30% af öllu kjöti seldu innanlands (innflutt kjöt umreiknað yfir í kjötskrokka tímabilið jan - júní 2017). Gleymum því ekki að að einungis um 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins er seld frá einu ríki til annars.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni er líka ýmislegt jákvætt að gerast í okkar umhverfi. Með auknum fjölda ferðamanna upplifa svínabændur sífellt aukna eftirspurn sem við viljum gjarnan sinna. Íslensk landbúnaðarframleiðsla er með yfirburði hvað varðar gott heilbrigðisástand bústofna, heilnæmi afurða, framleiðslu í nærumhverfi (takmörkuð kolefnisspor) ásamt lágri tíðni matarsýkinga.  Gagnrýni okkar má ekki skilja sem svo að við leggjumst gegn öllum breytingum á tollaumhverfinu heldur köllum við eftir skýrri stefnu og vandvirkum vinnubrögðum. Það er forsenda þess að svínarækt og íslenskur landbúnaður í heild sinni geti haldið áfram að dafna og vaxa neytendum til hagsbóta.

Ingvi Stefánsson,

formaður Svínaræktarfélags Íslands

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...