Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Öflugasti sendiherra íslenskrar þjóðar
Mynd / H.Kr.
Af vettvangi Bændasamtakana 28. júní 2024

Öflugasti sendiherra íslenskrar þjóðar

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Landsmót hestamanna er fram undan. Heillar viku óður til okkar einstaka hestakyns sem verður á keppnisvellinum frá morgni til kvölds í sjö daga samfleytt.

Fjöldi hrossa í sýningum og keppni skiptir hundruðum, gera má ráð fyrir að hátt í tíu þúsund gestir frá a.m.k. tuttugu þjóðlöndum mæti í brekkurnar og fjöldi knapa, starfsmanna mótsins og sjálfboðaliða skiptir vafalaust hundruðum. Landsmótið er á tveggja ára fresti nafli alheimsins í veröld íslenska hestsins, hvort sem er hérlendis eða erlendis.

Það er langt í frá úr lausu lofti gripið þegar talað er um að íslenski hesturinn sé öflugasti sendiherra þjóðarinnar. Með fullri virðingu fyrir öllum þeim frábæru einstaklingum, tónlistarfólki, rithöfundum, íþróttamönnum o.fl. sem borið hafa hróður Íslands út fyrir landsteinana, er nokkuð víst að í þeim efnum sé hesturinn okkar þrautseigastur allra. Forskotið er fólgið í því að hann er í raun eilífur, endurnýjar sig frá einu árinu til annars og er í hugum allra þeirra sem elska hann í raun andlitslaust afkvæmi alúðar og metnaðar þeirra sem sinna ræktunarstarfi hans. Auðvitað eru í heimi hestsins eins og annars staðar ákveðnar stjörnur á hverjum tíma en ímyndin er óháð einstaklingunum og snýst um hæfileika og lundarfar íslenska hestakynsins sem sannar það alla daga að margur sé knár þótt hann sé smár.

Ástæður þeirrar miklu aðdáunar sem íslenski hesturinn nýtur eru fjölmargar og samverkandi. Sem betur fer höfum við alla tíð borið gæfu til þess að halda honum hreinræktuðum og verja hina upprunalegu eiginleika hans fyrir hvers kyns blöndun. Hin blíða lund er óumdeilt aðalsmerki á sama tíma og hann nýtur virðingar fyrir hve sterkbyggður, heilsuhraustur og harðger hann er við krefjandi íslenskar aðstæður og erfið verkefni upp um fjöll og firnindi.

Hin afdráttarlausa sérstaða er þó fólgin í töltinu sem sameinar einstaka mýkt og augljósan glæsileika ásamt skeiðinu þegar hesturinn er tekinn til kostanna. Til viðbótar við hefðbundinn gang allra hestakynja og reyndar flestra fjórfætlinga, fet, brokk og stökk, skartar íslenski hesturinn sínu fegursta á tölti og skeiði og hrífur alla þá með sér sem sest hafa í hnakkinn og upplifað.

Þessi glæsti sendiherra okkar ber ekki eingöngu landi og þjóð fagurt vitni. Þegar grannt er skoðað er hann ósvikinn kyndilberi íslensks landbúnaðar og leggur mikið af mörkum til verðmætasköpunar hans bæði með beinum hætti og óbeinum. Á erlendum vettvangi er hann ekki síður driffjöður mikillar verðmætasköpunar og vafalaust einnig ómældra ánægjustunda barna og fullorðinna. Hann er ræktaður með faglegum og markvissum hætti í yfir tuttugu löndum og meira en þrefalt fleiri íslensk hross, eða um 250.000, eru alin annars staðar en í heimahögunum. Á Íslandi eru þau um 75.000 talsins og nýliðun á hverju ári nemur um fimm þúsund folöldum.

Talsvert hefur verið unnið í því verkefni að fá Ísland viðurkennt sem upprunaland íslenska hestsins. Liður í því er setning reglugerðar þar sem Bændasamtökunum er falið að halda upprunaættbók hestsins og fylgja fyrirmælum um hvaða hross eigi þar heima. Þá eru ræktunarmarkmið og reglur um mat íslenskra kynbótahrossa í sérstökum viðauka. Stjórnvöld hafa því tekið sér ákveðna varðstöðu um verndun og þróun hestakynsins og falið Bændasamtökunum framkvæmdina. Það er í senn ánægjulegt starf og ábyrgðarmikið.

Landsmótin á Íslandi kallast á við heimsmeistaramót íslenska hestsins sem haldið er annað hvert ár í einhverju Evrópulandanna. Þangað koma að jafnaði 10-15.000 gestir og keppendur eru frá um 20 þjóðlöndum hverju sinni. Íslendingar senda um 20 manna landslið ungmenna og fullorðinna á hvert slíkt mót og talsverðan fjölda keppnishesta sem vegna sóttvarnarreglna eiga ekki afturkvæmt. Sú ánægjulega hefð hefur skapast að íslenska liðið sé hið sigursælasta á mótinu og ber það metnaði í íslenskri hestamennsku fagurt vitni.

Það eru hestamannafélögin Fákur og Sprettur sem standa að Landsmótinu að þessu sinni. Mótið fer nú í fjórða sinn fram á félagssvæði Fáks í Reykjavík og ekki er að efa að framkvæmdin verður öll til fyrirmyndar enda mótshaldarar með mikla reynslu í farteskinu.

Skylt efni: Landsmót hestamanna

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...