Staðan á lambakjötsmarkaðinum
Heildarsala á dilkakjöti frá haustinu 2023 var í júní 4.931 tonn. Sem er um 8,6% samdráttur borið saman við sama tímabil árið áður.
Birgðir af dilkakjöti voru þann 1. júlí 1.421 tonn sem er um 400 tonnum meira en á sama tíma árið áður. Miðað við áætlaða sölu fram að næstu sláturtíð er birgðastaða ásættanleg. Til samanburðar var birgðastaða á dilkakjöti á sama tíma árið 2017 um 2.467 tonn.
Útflutningur á dilkakjöti heldur áfram að dragast saman milli ára. Frá síðastliðnu hausti hafa verið flutt út um 980 tonn af dilkakjöti sem er 33% samdráttur frá árinu áður. Árið 2018 höfðu verið flutt út á sama tíma um 3.584 tonn af dilkakjöti.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands var 12 mánaða meðalverð á öllu útfluttu kindakjöti 840 kr/kg í júní. Í júní var 12 mánaða meðalverð á frosnu dilkakjöti 1.334 kr/kg og hefur líklega aldrei verið hærra. Frá áramótum hefur mest verið flutt út af kindakjöti til Bretlands og Noregs líkt og var árið 2023 þegar helmingur alls útflutnings fór á þessa markaði.
Á þessu ári hefur verið aukin eftirspurn eftir kindakjöti á mörkuðum í Evrópu samhliða samdrætti í framleiðslu, einkum vegna áhrifa þurrka á Spáni og Grikklandi en einnig má sjá samdrátt í öðrum löndum þótt minni sé. Samdráttur í framboði leiddi til hækkunar á verði til bænda í upphafi árs. Eftir að lömb fædd á þessu ári fóru að koma til slátrunar hefur framboð aukist og verð til bænda lækkað lítið eitt. Meðalverð til bænda inna ESB í viku 31 var 8,13 evrur/kg sem er um 1.200 kr/kg.